29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

221. mál, atvinnuleit og atvinnumiðlun fatlaðra

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 265 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. félmrh. um atvinnuleit og atvinnumiðlun fatlaðra:

„Hversu er nú háttað fyrirkomulagi atvinnuleitar og vinnumiðlunar skv. lögum um málefni fatlaðra, þ.e. þeirri starfsemi sem áður fór fram á vegum endurhæfingarráðs og öryrkjadeildar Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar?

Hversu margir vinna nú beint og eingöngu að þessari sömu atvinnuleit?“

Ástæðu þessarar fsp. má rekja til umr. á Alþingi í fyrra þar sem ég spurði hæstv. ráðh. hvernig háttað yrði um vinnumiðlun og atvinnuleit eftir að lög um fatlaða væru komin í gildi og endurhæfingarráðið sem slíkt væri úr sögunni. Hjá endurhæfingarráði höfðu verið heimiluð 2.5–3 stöðugildi. Þrír voru þar að starfi, tveir í hlutastörfum, en auk þeirra voru læknir og sálfræðingur vikulega að störfum. Til viðbótar var svo samstarfið við öryrkjadeild Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar þar sem einn maður var að störfum.

Nú hygg ég að staðan sé sú að eftir að starfsemin er lögum skv. komin til svæðisstjórnar og um leið einvörðungu, að mér skilst, til öryrkjadeildar Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar muni aðeins einn starfskraftur, ágætur að vísu og vel fær, sinna þessu beint. Hins vegar annar sá hvergi nærri þessu vandasama og erilsama starfi sem um leið er eitt það þýðingarmesta sem unnið er fyrir fatlaða. Atvinnuleit og vinnumiðlun eru fyrir þá eitt brýnasta verkefnið sem unnið er að, enda skiptir miklu hvernig þar er staðið að málum. Þar skortir mikið á að um nægilega skilvirka og skipulega vinnu sé að ræða eða hafi verið svo að tryggja megi enn fleiri fötluðum starf við hæfi.

Hæstv. ráðh. lagði á það áherslu í fyrra að ekki yrði um minni starfsemi og aðstoð að ræða, nema síður væri, þó endurhæfingarráð væri lagt niður. Ég tók heils hugar undir það hjá hæstv. ráðh. og tek enn því hvergi nærri var þar nógu vel að verki staðið áður. Mér hefur skilist að hæstv. ráðh. og hans rn. hafi lagt til 800 þús. kr. framlag til vinnumiðlunar og atvinnuleitar á þessu svæði og var áreiðanlega síst of mikið, en í reynd var fjárlagaupphæð þessa árs rúmur helmingur þessarar beiðni eða 436 þús. Ég gerði ásamt hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur tilraun til leiðréttingar við afgreiðslu fjárlaga, en till. um það efni var felld. Það gefur auga leið að hér er um mjög mikinn niðurskurð að ræða og vart að vænta úrbóta ef fjárveiting fæst ekki frekar en fjárlög segja til um. Til þess að fá um þetta hins vegar óyggjandi réttar upplýsingar, um stöðugildi sem nú eru heimiluð við atvinnuleit og atvinnumiðlun á þessu svæði, er þessari fsp. beint til hæstv. ráðh.