29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

221. mál, atvinnuleit og atvinnumiðlun fatlaðra

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Við fsp. frá hv. 2. þm. Austurl. er svar mitt á þessa leið: Með vísun til 22. gr. laga um málefni fatlaðra segir m.a. að svæðisstjórnir skuli stuðla að atvinnuleit fyrir fatlaða, hver á sínu svæði, sem hafi það hlutverk að afla fötluðum atvinnu við sitt hæfi. Atvinnuleitin skal starfa í nánum tengslum við félmrn., vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélags, aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila þar sem vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélags starfrækir sérstaka deild fyrir öryrkja. Skv. lögum nr. 52/1956 skal svæðisstjórn fela þeirri skrifstofu starfrækslu atvinnuleitar skv. 1. mgr. Í samræmi við 22. gr. laganna um málefni fatlaðra hefur svæðisstjórn Reykjavíkur formlega falið öryrkjadeild Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar atvinnuleit og atvinnumiðlun fyrir fatlaða. Á þessu ári var ráðinn nýr deildarstjóri hjá öryrkjadeild Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar til að sinna því verkefni.

Skv. 28. gr. laga um málefni fatlaðra á ríkið að greiða 85% og sveitarfélög 15% af rekstrarkostnaði vegna atvinnuleitar. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir 436 þús. kr. vegna rekstrarkostnaðar atvinnuleitar í Reykjavík og verður þá unnt að ráða fleira fólk til starfa. Þá er einnig gert ráð fyrir 109 þús. kr. til atvinnuleitar á Reykjanessvæðinu á árinu 1985, en hjá svæðisstjórn Reykjanessvæðis er nú starfsmaður í hálfu starfi sem eingöngu sinnir atvinnumálum fatlaðra. Allar svæðisstjórnir vinna meira og minna að atvinnumálum fatlaðra hver á sínu svæði.

Með tilkomu þessa nýmælis í lögum varðandi atvinnuleit svo og verulegrar fjölgunar verndaðra vinnustaða á þessu ári hafa úrræði í atvinnumálum fatlaðra aukist verulega frá því sem áður var, enda þótt mikið vanti á að nóg sé að gert, og um 80 ný pláss hafi bæst við. Hitt er engu síður ljóst að mörg verkefni eru óleyst sem þarfnast úrbóta. Þess vegna er nú unnið að athugun á atvinnumálum fatlaðra í landinu öllu og verið er að undirbúa ráðstefnu um atvinnumál fatlaðra, sem ákveðið er að verði í Reykjavík 6. og 7. febrúar n.k., þar sem tekið verður á þessum málum á víðtækan hátt og reynt að samræma skoðanir manna á hvernig best verður að þessum málum staðið í framtíðinni.

Þetta er eitt þýðingarmesta mál í sambandi við málefni fatlaðra og er í mótun og ég vænti þess að góð samstaða náist við alla aðila um að leysa þetta mál þannig að öryggi skapist.