29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

221. mál, atvinnuleit og atvinnumiðlun fatlaðra

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég fagna því sérstaklega ef það er rétt, sem ég dreg ekki í efa út af fyrir sig, að hægt sé að ráða fleira fólk til öryrkjadeildarinnar hér í Reykjavík með þessari fjárveitingu, þó ég hefði haldið að það væri alveg í það knappasta að slíkt væri unnt. En ég fagna því ef það er kleift að gera það. Ég geri mér ljóst að þessi starfsemi þarf vitanlega að eiga sér stað um allt land. En við vitum það hins vegar vel, sem höfum unnið að þessum málum áður, að þörfin er langmest á þessu svæði hér og því mest þörf á starfskröftum hér til þess að annast þessi verk. Ég held að það sé augljóst skv. svörum hæstv. ráðh. að nú starfa færri að þessum málum beint, a.m.k. í dag, en var þó á dögum endurhæfingarráðs — og þá var fullyrt réttilega að allt of lítið væri gert í atvinnumiðlun og atvinnuleit fyrir fatlaða.

Ég hef um það haldgóðar upplýsingar að á síðasta ári hafi um 200 fatlaðir eða rúmlega það leitað eftir aðstoð við að fá vinnu á þessu svæði, aðeins hjá öryrkjadeildinni hjá Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar. Þar þurfa því fleiri að liðsinna en nú er þrátt fyrir ráðningu nýs og ágæts deildarstjóra þar. Ég held að það megi teljast nokkuð vel gert að þessum eina starfsmanni hefur — að vísu með aðstoð annarra-tekist að útvega milli 50 og 60 manns atvinnu eða aðstoðað þá til þess að fá vinnu.

Ég tek undir að það er ekki um einföld eða auðleyst mál að ræða, en vil benda á það líka að talan 200, en svo margir leituðu eftir aðstoð í þessu efni á síðasta ári, er hærri en ég man frá dögum endurhæfingarráðs, jafnvel allt að helmingi hærri en á árinu 1983. Mér sýnist því úrlausn þessara mála hvergi nærri sem skyldi.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh. að vissulega ber ekki að vanmeta fjölgun verndaðra vinnustaða, síður en svo, og að því hefur einmitt verið stefnt á síðustu árum að koma þeim upp, en alhliða atvinnuleit og vinnumiðlun almennt þarf ævinlega að vera í sem bestu lagi og þar þarf greinilega að taka til hendinni. Ég treysti því þess vegna að í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. ráðh. verði fleiri starfskraftar til þess að sinna þessu verkefni á vegum svæðisstjórnar Reykjavíkur en voru á síðasta ári því rík er þörfin.