29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

224. mál, framlagning frumvarps um umhverfismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. vil ég taka fram að ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, 2. þm. Reykn., um nauðsyn þess að setja heildarlöggjöf um umhverfismál. Vissulega er það löngu tímabært. Miðað við þann tíma sem hefur tekið að vinna að slíku er ljóst að breyta verður þeim vinnubrögðum sem beitt hefur verið í sambandi við þessi mál.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að flytja hér langt mál. Ríkisstj. fól félmrh. á sínum tíma að vinna að þessu máli og semja frv. um umhverfismál. Á s.l. ári var það komið vel á veg, en náðist ekki samkomulag um þá stefnu sem átti að vera í frv. Sú nefnd sem vann að því var þá leyst upp, en félmrh. falið að vinna áfram að málinu. Ég þarf ekki að tíunda hér hvað hefur gerst síðan annað en það að málið hefur verið til meðferðar hjá ríkisstj. Það hefur ekki orðið samkomulag enn þá um heildarframsetningu þessa máls. Nýjast í málinu er að það er starfandi sérstakur starfshópur, sem skipaður er fulltrúum frá sex rn., sem er að fjalla um þetta mál áður en ríkisstj. tekur endanlega ákvörðun um í hvaða formi hún mun leggja það fyrir Alþingi.

Ég get ekki meira sagt á þessu stigi málsins. Ég endurtek að málið hefur fengið mikla umfjöllun í ríkisstj., en menn hafa ekki verið á eitt sáttir um í hvaða formi ætti að leggja það fyrir Alþingi. Vonandi verður það þó gert mjög fljótlega því að starfshópurinn, sem ég nefndi áðan, er að störfum.

Ég vona svo sannarlega að ríkisstj. takist að leggja fyrir Alþingi heilsteypt lagafrv. um stjórn umhverfismála. Á því er mikil nauðsyn. Ég er sammála hv. þm. um að slæmt er að þetta dragist mikið. En hér er um vandasamt mál að ræða. Ég viðurkenni að ýmis atriði eru viðkvæm ýmsum í þjóðfélaginu og snerta marga. Hann tók réttilega fram að þessi mál tilheyra einum sjö rn. Það getur ekki gengið lengur. Það gerir málið miklu erfiðara í framsetningu. Ég get bætt því við að gegn frv. sem hv. þm. minntist á kom strax fram andstaða. Það hafði raunar legið fyrir þegar það var samið á sínum tíma. Það var ekki lagt fram aftur á Alþingi vegna þess að menn voru ekki ásáttir um það sem þar kom fram.

Ég vona sannarlega að ekki dragist mjög lengi að ríkisstj. ákveði á hvern hátt hún vill útbúa málið. Ég hef lagt fram það sem mér bar að láta vinna, en hins vegar þótti ástæða til að láta skipa sérstakan starfshóp frá viðkomandi rn. og hann er núna að störfum.