29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

224. mál, framlagning frumvarps um umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að bera fram þakkir til félmrh. fyrir þau svör sem hann veitti við fsp. minni. Hins vegar verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með frammistöðu stjórnvalda í þessu efni, en við heyrðum nokkrar skýringar ráðh. á þessum mikla og óeðlilega langa drætti. Það er tvímælalaust rétt að þar á kannske drýgstan þáttinn að þetta mál er vitanlega bæði víðtækt og viðkvæmt og heyrir í dag undir sjö rn., en það er í sjálfu sér engin ástæða til að örvænta eða telja að það sé slíkur þrándur í götu að yfir þann tálma verði ekki komist.

Varðandi frv. frá 1978, sem þáv. ríkisstj. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna lagði fram, hygg ég að ástæðan fyrir því að það var ekki endurflutt á næsta þingi hafi verið sú að stjórnarskipti höfðu átt sér stað.

Það hefur hins vegar verið flutt síðan nær óbreytt tvisvar sinnum. Um það var full samstaða á sínum tíma í ríkisstj.

Nú er það út af fyrir sig ánægjulegt að heyra að settur hefur verið starfshópur sjö rn. á laggirnar til að vinna að þessu máli. Við hugðum að þetta mál mundi komast í höfn í fyrra, eins og þá hafði verið um rætt af hálfu ráðh., en erfiðleikarnir hafa verið greinilega meiri og drátturinn lengri en þá var gert ráð fyrir.

Í sjálfu sér er þetta ekki pólitískt mál. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi muni styðja málið í öllum meginefnisatriðum. Þetta er hins vegar greinilega deilumál og miklu meira þrætuepli milli hinna einstöku smákónga í ráðuneytum landsins en mörgum hefur verið ljóst. Og því er mjög illa farið ef valdastreita, reiptog embættismanna kerfisins, á að valda því að setning umfangsmikillar og heilsteyptrar umhverfislöggjafar dragist á langinn enn um hríð og e.t.v. enn um langa hríð. Mér sýnist nú, þegar við stöndum hér á þingi í lok janúarmánaðar, að það séu því miður ekki miklar líkur á að málið nái fram að ganga á þessu þingi eftir að hafa hlýtt á orð ráðh. Ég efast hins vegar ekki um heilan og góðan hug hans í þessu máli út af fyrir sig.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að skora á hæstv. ráðh. að láta ekki deigan síga, heldur hafa góða stjórn á sínum embættismönnum og freista þess að ná þeim tökum á öðrum embættismönnum fyrir tilstilli kollega sinna í ríkisstj. að þetta frv. megi senn sjá dagsins ljós. Best væri að það væri sem líkast því frv. sem hér hefur oft verið flutt því að það var samið að yfirsýn þeirra manna sem þekktu einna best til mála.