29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

224. mál, framlagning frumvarps um umhverfismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þessar umr. að bæta. Ég vil aðeins segja að að mínu mati, ef næst það heildarsamkomulag sem nauðsynlegt er til að leggja frv. fram sem stjfrv., er tiltölulega lítil vinna eftir við frágang. Það voru menn í því á s.l. ári og lá það raunar fyrir strax í haust, en vegna ágreinings um vissa þætti var nauðsynlegt að ríkisstj. kæmi sér saman um þessi mál og þess vegna var starfshópur skipaður. Það er ósköp eðlileg málsmeðferð.

Það liggur alveg ljóst fyrir hvaða meginpunkta um er að ræða. Það þarf að taka afstöðu til þess í hvaða farvegi stjórnun þessa mikilvæga málaflokks á að vera og hvað umhverfismál eiga að spanna yfir stórt svið. Þessi tvö atriði eru kjarni málsins og um þetta liggja núna fyrir ákveðnar tillögur. Það er verið að ræða þær, reyna að samræma sjónarmiðin á milli ráðuneytanna sem hér hefur verið minnst á.