29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

184. mál, fullvinnsla kjötafurða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Úr því að hv. 7. þm. Reykv. hefur nú brotið ísinn og blandað sér í umr. hv. þm. Suðurl. ætla ég að fylgja hans góða fordæmi.

Mér finnst vera hreyft við merkilegu máli sem ekki varðar aðeins Suðurl. heldur allt landið. Ég hef lengi velt því fyrir mér og reynt að beita mér fyrir því, þar sem ég hef haft aðstöðu til að tala fyrir þeim sjónarmiðum, að flytja almennt séð úrvinnslu afurða út á framleiðslusvæðin og þá ekki bara í landbúnaði heldur í sjávarútvegi einnig. Ég held að það séu ýmsir kostir því samfara að úrvinnslan tengist framleiðslunni og sé á sama stað. Sem dæmi má nefna að í sjávarútvegi og landbúnaði er byggt húsnæði yfir framleiðsluna, annaðhvort fiskvinnsluna eða þá slátrunina. Nýting á slíku húsnæði gæti stórbatnað, ekki síst á sláturhúsunum, ef menn byggðu þar almennt upp kjötvinnslu.

Vegna þeirra ummæla sem hér féllu um flutningskostnað verð ég að koma því að sem gamall bóndi að ég hef aldrei heyrt getið um að kynbætur hafi náð lengra en svo að bein væru a.m.k. hátt í helmingur af fallþunga dilka, þ.e. af skrokkþyngdinni. Það hlýtur því að vera stór spurning hvort flutningskostnaður á beinunum suður til Reykjavíkur verður meiri en flutningskostnaðurinn á umbúðunum utan um 99% kjöt, sem í flestum tilfellum er innan í umbúðum á fullunninni vöru. Ég held því að það þurfi að reikna þetta dæmi aðeins betur út. Þegar þeir hafa tíma til þess þarna í landbrn., verða búnir að telja skrokkana, þá mælist ég til þess að þeir setjist niður og athugi hvort það sé ekki dálítið hæpin hagfræði að flytja beinin á milli landshluta.

Ég vil nefna það sem dæmi að Ný-Sjálendingar, sem e.t.v. hafa náð manna lengst í framleiðslu á kjöti og hagkvæmni í þeim greinum, senda yfirleitt ekki einn einasta skrokk öðruvísi en buskaðan út úr sínum húsum. Það þekkist ekki þar að flytja bein á milli landshluta, hvað þá á milli heimsálfa.

Það er líka annað sem mundi skila sér í því, að mínu mati, að dreifa úrvinnslunni sem víðast út um landið. Þá yrði meiri fjölbreytni. Þá fengjum við ekta Hólsfjallahangikjöt o.s.frv., svo að menn skilji hvað ég er að fara.

Nú hef ég lokið mínum ræðutíma og ætla að enda þetta með nýjársóskum til þeirra í landbrn., að þeir skoði þessi mál þegar þeir hafa lokið talningu skrokka.