29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

184. mál, fullvinnsla kjötafurða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það eru skrýtnar umr. sem hér hafa farið fram.

Ég vil benda á það í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að ég minntist ekki einu orði á flutningskostnað, heldur er það heildarkostnaður og hagkvæmni í sambandi við þessa vinnslu sem skiptir máli. Því miður er því haldið fram af sérfræðingum að það skipti verulegu máli hvar vinnslustöðvarnar eru staðsettar. Það hefur verið þannig hingað til a.m.k. En ég benti á það í máli mínu að aðstæðurnar væru að breytast.

Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir áhuga hans á atvinnumálum okkar Sunnlendinga. Ég tel það vissulega mikils virði að fá hans stuðning. Hins vegar sýndi hans ræða, því miður, að hann hafði ekki einu sinni lesið þessa fsp. Hann sagði að það mundi vera auðvelt að fá upplýsingar um hve mörgu hefði verið slátrað á Suðurlandi og það er vissulega alveg rétt, það hefði verið auðvelt. En það var ekki spurt um það. Þess vegna virðist það atriði í málflutningi hv. 7. þm. Reykv. vera á misskilningi byggt.