29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

118. mál, umhverfismál og náttúruvernd

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég get lýst því yfir í upphafi máls að ég get verið sammála mörgu sem hér kemur fram. Í þeim rökstuðningi sem hv. flm. færði fyrir þessari till. koma fram þau meginefni sem einmitt núna er fjallað um í sambandi við það að semja það frv. sem til meðferðar er hjá ríkisstj. Þannig að margt er þar inni sem aðalatriði. Þörfin á að koma þessu máli fyrir í þeim áformum um stjórnkerfisbreytingu sem til meðferðar er er náttúrlega alveg augljós. Ég held að menn geti verið sammála um það.

Vegna þess að hv. fim. beindi til mín nokkrum spurningum, þar sem ég var hér viðstaddur og hlustaði með athygli á hans málflutning, vil ég aðeins koma inn á það sem hann spurði um. Í sambandi við 3. liðinn, þar sem talað er um endurskoðun á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, get ég upplýst það, þó að það mál heyri ekki beint undir mitt rn., að heilbrrh. er þegar búinn að setja af stað undirbúning þessarar endurskoðunar. Hún er sem sagt að fara í gang og ég held að menn geri sér grein fyrir því að þar sé ýmislegt sem þarf að taka til endurmats og breyta miðað við þá reynslu sem þegar er komin á þá löggjöf.

Auðvitað er ljóst að einmitt þessi þáttur, ekki síst mengunarvarnir og allt sem þeim tilheyrir, tengist því aðalmáli sem hér er til umr.

Einnig get ég upplýst það í sambandi við 4. lið að fyrir ríkisstj. hefur legið frá því í haust frv. til l. um náttúruvernd, sem var unnið á vegum Náttúruverndarráðs og stjórnvalda, og ég veit ekki betur en það sé ætlunin að leggja það frv. fram mjög fljótlega hér á Alþingi þar sem það er búið að vera til umfjöllunar í þingflokkum og í ríkisstj.

Varðandi 7. liðinn, skipulagsmál, vil ég upplýsa vegna fsp. að frv. til l. um skipulagsmál hefur verið til meðferðar í félmrn. og tekið til endurmats það frv. sem lá fyrir á síðasta sumri. Eins og hv. flm. kom inn á er margt í því frv. sem gerir ráð fyrir að það nái yfir miklu stærra svið en áður hefur tíðkast. Við yfirlestur og athugun taldi ég rétt að láta vinna eða afla miklu fleiri gagna í sambandi við þetta mál. Þetta frv. er nú í endurvinnslu og ég get sagt frá því hér að það kemur einmitt inn á það svið sem hér kemur fram í þessari þáltill.

Að öðru leyti get ég sagt það að mér finnst þetta mál, sem hér er flutt, undirstrika að sjálfsögðu mikilvægi þessa málaflokks í heild og þörfina á því að sem fyrst verði að veruleika að Alþingi setji heildarlöggjöf um umhverfismál. Það er þýðingarmest í þessu máli. Öllu sem hér kemur fram og stuðlar að því að því verði komið í höfn sem fyrst ber að fagna.