29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

131. mál, úthlutunarreglur húsnæðislána

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 135 leyfi ég mér að bera fram eftirfarandi till. til þál.: „Alþingi ályktar að fela félmrh. að sjá til þess að samþykkt húsnæðismálastjórnar frá 19. sept. s.l. um breyttar úthlutunarreglur húsnæðislána, sem taka eiga gildi um næstu áramót, nái ekki fram að ganga.“

Þessi till. var lögð fram á síðasta ári og verður tilvísun til áramóta að skoðast með tilliti til þess. Meðfim. eru hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Helgi Seljan og Kolbrún Jónsdóttir. Vil ég nú greina frá aðdraganda þessa máls og skýra hvað fyrir okkur vakir með flutningi þessarar till.

Lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra, sem byggja á hefðbundinn hátt, hafa verið greidd út í þremur áföngum, fyrsti hlutinn 6 mánuðum eftir að húsið er fokhelt, en annar hluti 12 mánuðum eftir fokheldi og síðasti hluti 18 mánuðum eftir fokheldi. Þessar úthlutunarreglur eru miðaðar við venjulegan byggingartíma steinsteyptra húsa.

Byggingartími einingahúsa er hins vegar miklu skemmri og hafa úthlutunarreglur lána til kaupenda slíkra húsa þess vegna miðast við að greiða þau út á u.þ.b. 10 mánuðum frá fokheldi.

Fyrsti hluti lánsins er þannig greiddur út hálfum mánuði eftir fokheldi, annar hlutinn þremur mánuðum síðar og þriðji hlutinn um 10 mánuðum eftir fokheldi. Þess ber þó að gæta að fokheldisstig eru í raun ekki sambærileg. Hús, sem byggð eru með hefðbundnum hætti, eru talin fokheld með uppsteyptum veggjum en ófrágengnum að utan og innan, með pappa á þaki og plasti í gluggum og gættum, en einingahúsin hins vegar fullbúin að utan með gleri í gluggum, hurð í útidyrum, með frágengnum þakköntum og niðurföllum. Þá er einingahúsið einangrað og sum eru á þessu stigi með fullfrágengna veggi að innan, þ.e. tilbúna undir málningu. Af þessu má sjá að fokheldisstig húsanna eru engan veginn sambærileg.

Með þeim úthlutunarreglum, sem upp voru teknar árið 1977, var því stefnt að því að jafna aðstöðumun þeirra, sem kaupa einingahús, og þeirra sem byggja á hefðbundinn hátt. Enn fremur áttu þær að stuðla að bættri samkeppnisstöðu innlendrar einingahúsagerðar gagnvart innflutningi slíkra húsa, og að flestra mati hefur það tekist.

Hinn 19. sept. s.l. samþykkti hins vegar húsnæðismálastjórn að úthlutun lána vegna einingahúsa skyldi frá næstu áramótum, þ.e. síðustu áramótum, fara fram á jafnlöngum tíma og úthlutun lána vegna hefðbundinna húsa þrátt fyrir svo ólíkar aðstæður sem áður er lýst. Að mati flm. þessarar till. væri það spor aftur á bak ef þessi ákvörðun húsnæðismálastjórnar næði fram að ganga.

Framleiðsla og bygging einingahúsa hefur verið vaxandi atvinnugrein nú síðustu árin. Að margra áliti hefur þessi byggingarmáti auðveldað mörgum að koma sér upp húsnæði sem ella hefðu átt erfitt með það. Þar skiptir byggingartíminn meginmáli en hann er yfirleitt aðeins 3–6 mánuðir og getur raunar verið enn skemmri. Í flestum tilfellum eru húsbyggjendur fluttir inn áður en annar hluti lánsins er greiddur út. Er þá búið að leggja út fyrir öllu efni og vinnu. Einhver hefur gert það, húsbyggjandi eða framleiðandi. Hið sama gildir ekki um hefðbundinn byggingarmáta þar eð slík hús eru miklu skemmra á veg komin þegar annar hluti lánsins er greiddur út.

Það er húsbyggjendum í raun ómetanlegt hagræði að geta flutt inn í hús sitt aðeins örfáum vikum eftir að bygging þess hefst. Þess vegna er þessi byggingaraðferð kostur hinna efnaminni.

Augljóst er einnig það hagræði að geta unnið að framleiðslu húsanna að mestu leyti innan dyra í verksmiðju og stytta þannig mjög þann tíma sem unnin er úti við á byggingarstað í misjöfnum veðrum. Þannig fæst samfelld vinna sem ekki er jafnháð veðurfari og hefðbundin byggingarstarfsemi. Framleiðsla einingahúsa dregur því úr þenslu á byggingarmarkaði þar sem vinnan dreifist jafnar yfir árið. Það væri að mínu mati öfugþróun að færa meginálagstíma bygginga aftur yfir á færri mánuði ársins.

Auk hagræðis og sparnaðar fyrir húsakaupendur og samfelldari og þægilegri vinnu við húsagerðina má benda á að einingahús eru framleidd á ýmsum stöðum á landinu þar sem mikilvægt er frá þjóðhagslegu sjónarmiði að hlúa að vaxandi atvinnugreinum.

Í greinargerð frá 3. maí 1983 vegna könnunar á íslenskum einingahúsum er talið upp 21 fyrirtæki, sem framleiðir einingahús, þar af 6 á höfuðborgarsvæðinu, en hin 15 dreifð um allt landið, á Akranesi, í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Blönduósi, Siglufirði, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Selfossi og í Vestmannaeyjum. Uppbygging þessa atvinnuvegar svo vítt um landið er sérstaklega ákjósanleg þróun sem við skulum fyrir alla muni ekki snúa við með vanhugsuðum aðgerðum. Með tilliti til núverandi óvissu í atvinnumálum er brýnt að vera vel á verði og aðhafast ekkert sem spillt gæti atvinnumöguleikum landsmanna, allra síst úti á landsbyggðinni, sem hefur orðið harðar úti en þéttbýlisstaðirnir á suðvesturhorninu, einkum í kringum höfuðborgina sjálfa, vegna minnkandi sjávarafla og samdráttar á ýmsum sviðum.

Þetta vil ég leggja þunga áherslu á og biðja hv. þm. að íhuga vel. Með samræmdum gæðakröfum og ströngu eftirliti hefur framleiðsla íslenskra einingahúsa orðið fyllilega samkeppnishæf við hefðbundinn byggingarmáta. Þróun einingahúsaframleiðslu hérlendis nú hin síðustu ár hefur dregið stórlega úr innflutningi húseininga í íbúðar- og sumarhús. Sú þróun hefur án efa aukið hlut þeirra sem að byggingariðnaði starfa. Lenging byggingartímans er öfugþróun sem veikir samkeppnisstöðu einingahúsa og hlýtur að leiða til hærri byggingarkostnaðar. Þegar byggt er með hefðbundnum byggingaraðferðum er hugsanlegt að halda byggingarhraða í samræmi við innkomnar tekjur og lán. Slíkt er útilokað með einingahús sem rís með jöfnum hraða á skömmum tíma. Lenging útborgunartíma lánanna leiðir til mun meiri fjármagnskostnaðar en áður. Fram að þessu hafa framleiðendur einingahúsa tekið við ávísunum á lán úr Byggingarsjóði sem greiðslu upp í húsakaupin. Meðallánstími framleiðenda hefur verið um 5 mánuðir frá afhendingu hússins en eftir gildistöku nýrra úthlutunarreglna, ef af þeim verður, mundi þessi tími lengjast í um 13 mánuði. Það hefði að sjálfsögðu í för með sér gífurlega aukningu á rekstrarfjárþörf.

Eins og nú er ástatt hjá bönkum eru dökkar horfur á því að framleiðendur einingahúsa geti fjármagnað aukinn útlán til kaupenda húsanna. Meiri fjármagnskostnaður hlýtur því að lenda á húsbyggjendum sjálfum. Þeir verða að laga byggingartímann að lánareglum Byggingarsjóðsins. Með breyttum úthlutunarreglum lána, sem húsnæðismálastjórn leggur til að taki gildi, væri verið að auka aðstöðumun tvenns konar byggingaraðferða sem hvor tveggja á jafnmikinn rétt á sér.

Það er okkar mat að þær reglur yrðu öllum í óhag, húsbyggjendum og byggingariðnaðinum í heild. Ef komist verður að þeirri niðurstöðu að úthlutunarreglum verði að breyta, vegna þess að um mismunun sé að ræða milli tveggja byggingaraðferða skulum við endilega heldur breyta þeim á þann veg að sá úthlutunartími sem byggjendum hefðbundinna húsa er skammtaður verði styttur.

Skylt er að geta þess að við umræður hér í þinginu 30. okt. s.l. vegna fsp. minnar um þetta sama mál kom í ljós að hæstv. félmrh. var alls ekki samþykkur ákvörðun húsnæðismálastjórnar frá 19. sept. s.l. Hann lét í ljós vilja til að breyta þessari ákvörðun stjórnarinnar og kvaðst mundu vinna að því. Þessari ákvörðun hefur verið frestað — ég held ég megi segja að það hafi verið til 1. mars n.k. — og mun vera unnið að athugun þessara mála.

Við flm. þessarar þáltill. töldum auðsætt að hæstv. félmrh. væri styrkur að því að hafa yfirlýstan vilja Alþingis á bak við sig. Mér er ekki fyllilega ljóst hvort eðlilegt er að vísa þeirri till. til hv. allshn. eða atvmn. en hallast þó heldur að því að hún eigi heima í atvmn. og legg því til að að lokinni umræðu um þetta mál verði henni vísað til atvmn. nema hæstv. forseti sé á öðru máli.