29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

131. mál, úthlutunarreglur húsnæðislána

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir þá þáltill. sem mælt var fyrir hér áðan. Það er rétt sem kom fram hjá flm. að bygging einingahúsa og framleiðsla þeirra hafa auðveldað mörgum að koma sér upp húsnæði, einkum ungu fólki. Bygging einingahúsa hefur þann kost að byggingartíminn dreifist jafnar yfir árið og fer fram innanhúss, oft á veturna á þeim tíma sem minnst spenna er í atvinnulífinu. Þar að auki á bygging einingahúsa að hafa það í för með sér að einingahúsafyrirtækin geta gert stærri innkaup á byggingarefni og aukið hagkvæmnina að því leyti til.

Hin hefðbundna aðferð við byggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi hefur verið sú að byggja yfir sumartímann þegar mikil spenna hefur verið á vinnumarkaði oft á tíðum og sumarfrí hjá iðna3armönnum í fullum gangi. Þetta hefur oft leitt af sér mikla óhagkvæmni. Mörg einingahúsafyrirtæki eru nú starfandi hér á landi. M.a. þekki ég til slíkra fyrirtækja á mínum heimaslóðum. Þessi fyrirtæki hafa verið í örri þróun á undanförnum árum, húsin frá þeim hafa batnað og þau hafa yfirstigið byrjunarörðugleikana. Það væri hörmulegt ef breyttar lánareglur hefðu það í för með sér að afturkippur yrði í þessari atvinnugrein.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en lýsa stuðningi mínum við þessa till. og vona að hún fái skjótan framgang hér á hv. Alþingi.