29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason talaði við mig í morgun um utandagskrárumr. og ég spurði hann hvort það væri eitthvað sérstakt sem hann vildi spyrja mig um. Hann sagði það ekki vera, það væru engar sérstakar spurningar, þær væru almenns eðlis. Hann hefur borið hér fram ítarlegar spurningar til mín, sem ég skal reyna að svara af bestu getu, en ég hefði þó getað undirbúið það betur ef ég hefði vitað nánar um innihald þeirra. Það er nú svo almennt um umr. utan dagskrár að þær eru oft og tíðum tilviljanakenndar og er oft erfitt að gera þeim þau skil sem hægt væri ef undirbúningstími væri betri, en ég skal reyna að gera mitt besta.

Hann spurði í fyrsta lagi hvort ég mundi fylgja frv. til l. — svo að ég snúi mér að hinum beinu spurningum áður en ég kem að erfiðleikum sjávarútvegsins almennt —um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Ég skal viðurkenna það fúslega að ég er að sjá þetta frv. fyrst núna, en hér er um mikið vandamál að ræða. Það er spurningin í þessu sem öðru hvort réttur fólks verður fyrst og fremst tryggður með löggjöf. Hér er um miklu rótgrónara vandamál að ræða. spurningin er sú hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsgrundvöll, hvort það hefur hráefni til að vinna úr og afkomu til að greiða sínu fólki mannsæmandi laun. Ég hef ekki trú á því að frv. sem þetta tryggi það nægilega. Það getur að sjálfsögðu lagt þær skyldur á fyrirtækin að greiða viðkomandi verkafólki þessi laun, sem er gott mál, en aðalatriðið er að fyrirtækin búi við þær aðstæður að þau geti staðið undir því. Ég tel hins vegar eðlilegra að ræða þetta frv. þegar það verður tekið fyrir hér í þinginu en ekki að byrja á því að ræða það í umr. utan dagskrár því að mér vitanlega hefur hv. 1. flm. þess ekki enn þá mælt fyrir því, ég vænti þess að það sé rétt, og ég tel mun eðlilegra að við ræðum það þá, enda snertir það að vísu óbeint þetta vandamál, en það er þó málefni sem snertir allt fólk sem vinnur í þessari atvinnugrein.

Hv. fyrirspyrjandi spurði hvort ég teldi eðlilegt að það væri verið að flytja inn hundruð manna til starfa í fiskiðnaði þegar svo væri ástatt, eins og raun ber vitni, að það vantaði vinnu á öðrum stöðum. Vissulega er rétt að slíkt er mjög óeðlilegt. Hv. þm. gat um að e. t. v. mætti koma í veg fyrir þetta með aflamiðlun eða ég skildi hann svo. Ég kom í eitt frystihús fyrir stuttu, nánar tiltekið á Norðfirði, þar sem vantaði fólk til starfa og það lá fyrir að ef ekki fengist fleira fólk til starfa væri ekki hægt að ná upp framlegð og afköstum í húsinu. Vélarnar voru það afkastamiklar að afköstin í salnum voru ekki í neinu samræmi við afköst annars staðar í húsinu. Í þessu tilfelli, jafnvel þótt hægt væri að flytja afla frá þessum stað til annars, hefði rekstrarvandi viðkomandi húss verið óleystur. Hér er því oft spurning um framlegð í viðkomandi húsi.

Það hefur oft komið til álita og oft komið til umr. að miðla afla á milli staða og það er út af fyrir sig mjög góð hugsun, en hún hefur aldrei gengið upp, einfaldlega vegna þess að sjómennirnir vilja koma í sína heimahöfn og til sinna fjölskyldna. Eina leiðin sem menn hafa fundið í þessum efnum er að miðla afla á milli staða sem stutt er á milli með því að keyra hann á milli frystihúsa. Það er enginn vafi á því að slík miðlun hefur verið mjög til bóta á Reykjavíkur- og Suðurnesjasvæðinu. En á mörgum stöðum hefur þetta ekki gengið upp. Ég get ekki annað sagt en að það er mjög óæskilegt að þurfa að flytja inn vinnuafl á sama tíma og aðrir ganga atvinnulausir. Ég tek undir það með hv. þm. Hins vegar er erfitt fyrir stjórnvöld að stýra þeirri þróun og tilflutningi milli einstakra byggðarlaga.

Hv. þm. gat þess að hvert skipið af öðru hefði verið selt frá Suðurnesjum og þar af leiðandi hefði afli flust með þessum skipum til annarra staða. Það er alltaf nokkur hreyfing á fiskiskipum í landinu og verið að selja fiskiskip frá einum stað til annars. Ástæður fyrir þessu eru misjafnar. Í sumum tilfellum er um að ræða útgerðarmenn sem eru að hætta rekstri og vilja ekki sinna þessari atvinnugrein lengur. Það er um að ræða rekstrarerfiðleika og ýmsar aðrar ástæður. Einnig er afli misjafn við landið. ~g hygg að þessi tilflutningur eigi sér nokkrar rætur þar. Ég hef beðið um upplýsingar um hvað gerðist á árunum 1970–1981 því að oft er nú talað um þau ár, eftir að landhelgin var færð út og mikil aukning varð í fiskiskipaflotanum, og hvaða breyting varð þá á flotanum. Á þessum árum fór fiskiskipaflotinn úr 42 229 brúttólestum í 65 989, hann stækkaði um 56%. Ef maður lítur nánar á hvernig þetta hefur gerst, þá var aukningin á svæðinu Hornafjörður til Voga á Vatnsleysuströnd eða til Suðurnesja 91%,

Hafnarfjörður-Reykjavík 15%, Akranes-Stykkishólmur 84% og Patreksfjörður-Djúpavogur 18%. Það hefur oft komið fram í umr. að aðalaukningin í flotanum hafi verið á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, en sannleikurinn er sá að þótt togurum fjölgaði mest á því svæði fóru þeir bátar sem þar voru fyrir hendi og höfðu verið uppistaða í atvinnulífi til annarra svæða á landinu. Megnið af bátum á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum var selt í burtu. Þetta var að sjálfsögðu vegna þess að síldveiðin brást og þessir bátar fóru til annarra veiða.

Ég hef ekki nákvæmar tölur um það enn hvað hefur gerst á árunum frá 1981 og fram á þennan dag, en það hefur m.a. verið að gerast að undanförnu að nokkuð af bátum hefur verið að flytjast aftur til Norðurlands og Vestfjarða m.a. vegna þess að þar hefur verið góður rækjuafli sem betur fer og sá rækjuafli hefur bjargað miklu í atvinnu þessara byggðarlaga. Nokkur skip hafa þess vegna farið til þessara landssvæða.

Það er rétt að af Suðurnesjum hefur verið seldur nýlega a.m.k. einn togari til Hornafjarðar. Það hafa oft verið nefndir þrír togarar úr einu byggðarlagi. Einn var nú mjög gamall og fór til rækjuveiða við Vestfirði, en mun hafa gengið þar afar illa og mun vera óvíst um framtíð hans. Einnig mun eitt af þessum togskipum vera til sölu. En svo hafa verið seldir bátar, veit ég um, austan af landi til Suðurnesja og til Vestmannaeyja o.s.frv. Hv. þm. hristir höfuðið. Ég spurðist fyrir um þetta í morgun og ég veit ekki betur en a.m.k. sé nýlega búið að selja einn bát, fyrir nokkrum dögum. Það skiptir þó ekki meginmáli í þessu sambandi. En ég held að ekki sé hægt að fara alveg nákvæmlega ofan í slíkan tilflutning því að hann mun alltaf verða fyrir hendi og ég held að það væri óæskilegt ef stjórnvöld reyndu með stjórnvaldsaðgerðum að koma í veg fyrir það að skip gætu gengið kaupum og sölum. Ég sé ekki hvernig við getum fengið heilbrigðan rekstur og sterkan sjávarútveg ef við ætlum að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.

Hv. þm. spurði hvort ég teldi eðlilegt að kvóti væri látinn fylgja skipi alveg án tillits til ástands á hverjum stað. Það hefur gengið fremur illa að mynda ákveðna reglu í þessu sambandi, fyrst og fremst vegna þess hve þau lög, sem unnið er eftir, gilda til skamms tíma og það er eingöngu verið að tala um kvóta innan eins árs. Það stendur hins vegar í þeirri reglugerð sem gefin hefur verið út að höfðu samráði við sjútvn. að aflamark fylgi skipi ekki sjálfkrafa við sölu þess: „Um framsal aflamarks skipa, sem eigendaskipti verða að árið 1985, skulu gilda sömu reglur og um annað framsal aflamarks skv. þessari grein og þarf til þess sérstakt samkomulag kaupanda og seljenda.“

Nú tel ég vera eðlilegt að ef skip er selt og annað keypt í staðinn geti viðkomandi aðili flutt kvótann yfir á það skip, en skipið sem selt er fái þá sóknarmörk í því byggðarlagi sem það fer til. En það er að sjálfsögðu alls ekki hægt að koma í veg fyrir að aflinn fylgi að mestu leyti skipinu, vegna þess að annars hefði það engan rekstrargrundvöll þangað sem það er keypt. Hins vegar hefur verið um það rætt, og það var í frv. því sem flutt var upphaflega, að heimilt væri að taka tillit til sérstakra aðstæðna, ef skip mundi farast o.s.frv., sem ég veit að hv. þm. kannast við, en það var talið mjög vandmeðfarið og var fellt niður við afgreiðslu málsins hér á þingi. Ég svara þessu þannig að ekki sé hægt að komast hjá því, ef skip eru seld úr byggðarlögum, að minni afli berist á land í viðkomandi byggðarlögum.

Hv. þm. spurði um gáma og hvort fylgst væri með því. Það er að sjálfsögðu fylgst með því af viðskrn. Það þarf leyfi fyrir öllum slíkum útflutningi. Hins vegar hefur ekki tekist að fylgjast jafnvel með því og menn hefðu viljað. Þess vegna hafa nú verið settar nýjar reglur sem m.a. fela það í sér að sams konar skerðing verður á aflamarki þeirra skipa sem flytja út fisk í gámum og þeirra skipa sem sigla með aflann. Ég hygg að það verði til þess að draga úr gámaútflutningi. Jafnframt var ákveðið við fiskverðsákvörðun að ekki væru borgaðar uppbætur á gámafisk úr Aflatryggingasjóði. Ég býst því við að þær ráðstafanir verði til þess að draga heldur úr þeim útflutningi. Það er eitt af þeim vandamálum, sem menn eiga við að glíma á Suðurnesjum m.a., eins og hv. þm. gat um, hvað Suðurnesin liggja vel við útflutningi, bæði vegna nálægðarinnar við Keflavíkurflugvöll og nálægð við helstu kaupskipahafnir landsins. Það verður til þess að hagkvæmara er að flytja fisk út með gámum frá Suðurnesjum en almennt öðrum landshlutum. En það hafa sem sagt verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að stemma frekar stigu við þeim útflutningi. Hins vegar má ekki koma í veg fyrir hann eins og hv. þm. gat um. Það hefur verið þannig ástatt á okkar helstu mörkuðum að við höfum safnað þar upp birgðum og ekki verið talið rétt að safna meiri birgðum. Þess vegna þurfum við að nýta alla okkar markaði, það besta úr þeim mörkuðum sem við getum fengið, og við verðum að sinna ferskfiskmörkuðunum á sama hátt og öðrum. Því er ekki skynsamlegt að fara í aðgerðir sem verða til þess að þessir markaðir séu beinlínis vanræktir.

Hv. þm. spurði að lokum hvort eitthvað yrði gert af stjórnvalda hálfu til að leysa deilu milli sjómanna og útvegsmanna og sagði að laun sjómanna hefðu rýrnað meira en annarra. Nú er það að vísu ekki rétt skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar að laun þeirra hafi rýrnað meira en annarra, en það er að sjálfsögðu eilíft delluefni og fer eftir því við hvaða skip er miðað. skv. þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér mun svo ekki vera. Hitt er svo annað mál að sjómenn eru ekki ofhaldnir og nauðsynlegt er að þeir búi við góðan kost. Ríkisstj. hefur verið í sambandi við bæði útvegsmenn og fulltrúa sjómanna og ég hef átt við þá viðræður, þannig að það er fullt samband þar á milli. Það er á þessu stigi ekkert frekar um það að segja. Eftir því sem ég best veit átti að vera fundur í dag. Ég hef reynt að fylgjast með þeirri deilu eftir því sem ég frekast hef getað m.a. með það í huga að hægt væri að grípa til aðgerða sem gætu stuðlað að lausn þeirrar deilu.

Ég skal ekki hér fara út í almennan vanda sjávarútvegsins og þann vanda sem menn eiga sérstaklega við að glíma á Suðurnesjum. Það yrði mjög langt mál. En það eru margar ástæður fyrir því að sjávarútvegur á nú við vanda að glíma í ákveðnum byggðarlögum á Suðurnesjum. Sem betur fer er það ekki jafnslæmt alls staðar. Það eru fyrst og fremst tvö byggðarlög sem skera sig þar úr. Þau eru Garðurinn og Keflavík. En ástand í Grindavík hefur t.d. verið þolanlegt. Rekin er þróttmikil útgerð í Grindavík. T.d. var þar saltað mikið á s.l. síldarvertíð og hafði það mikil og góð áhrif á atvinnuástand. Ýmislegt hefur þó orðið til þess að bæta úr ástandinu á Suðurnesjum. T.d. var rækjuafli á Eldeyjarmiðum næstum því helmingi meiri en gert var ráð fyrir í upphafi og hefur m.a. orðið til þess að smærri bátum hefur heldur fjölgað á þessu svæði. Einnig hefur kolaafli á Faxaflóa orðið til þess að glæða nokkuð atvinnu á þessu svæði.

Það var von manna að úthafsrækjuveiði gæti orðið til þess að skapa atvinnu á Suðurnesjum. T.d. hóf fyrirtæki í Garðinum, sem hefur nýlega ákveðið að selja skip sín, slíkar veiðar og setti upp rækjuvinnslu með það í huga að beina skipunum að hluta á þær veiðar. Það gekk hins vegar ekki eins vel og á horfðist og sama máli má gegna um t.d. rækjuveiðar frá Austurlandi. En þær hafa gengið mun betur frá Vestfjörðum og Norðurlandi. Ef þetta framtak þessa fyrirtækis hefði heppnast hefði það áreiðanlega verið betur statt. Þannig er það nú í sjávarútveginum að ýmsar nýjungar sem menn vilja leggja í ganga misjafnlega og því kemur það niður á því fólki sem á afkomu sína undir þessum atvinnuvegi.

Ég vil taka það fram að lokum að sjávarútvegurinn býr við mikla erfiðleika og það mun taka langan tíma að komast yfir þau vandamál. Það gerist ekki á einu ári eða tveimur eða þremur. Áreiðanlega munu verða á hinum ýmsu stöðum tímabundin vandamál sem þessu fylgja. Það hefur t.d. verið kappsmál sjómanna og útvegsmanna, sérstaklega sjómanna, að hægja mjög á veiðum í desembermánuði og jafnvel í janúarmánuði. Það verður þá til þess að atvinna verður mun minni í landi þá mánuði. Hér áður fyrr var það svo að afli í desembermánuði var kannske 10 þús. tonn, en 110 þús. tonn í apríl. Menn sjá á því hve vinnan hefur verið misjöfn. Það hefur þrátt fyrir allt tekist að breyta þessu ástandi þannig að aflinn er jafnari yfir árið, en það mun aldrei verða hægt að jafna hann svo að það verði eins og í öðrum iðnaði þar sem menn framleiða vörur með öðrum hætti.

Það hefur verið leitast við á undanförnum árum að jafna þetta sem mest og það kvótakerfi sem tekið hefur verið upp hefur einmitt verkað með þessum hætti. Það hafa e.t.v. einhverjir þm. séð frétt í sjónvarpinu í gær frá Danmörku þar sem var tekið fram að þar væri kvótanum ekki skipt á einstök skip og öll skipin kepptust við að ljúka öllum aflanum á nokkrum dögum. Það yrði til þess að mikið af honum yrði ónýtt og síðan lægju öll skipin bundin í höfn löngu á eftir. Það er að sjálfsögðu kerfi sem hægt er að taka upp, en verður til þess að atvinnan verður enn þá ójafnari. Það er enginn vafi á því að vinnan hefur jafnast mun betur á s.l. ári en hægt var að gera ráð fyrir í upphafi ársins. Hins vegar hefur það ekki komið í veg fyrir vandamál á einstökum stöðum. Það eru ekki aðeins staðir á Suðurnesjum sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum erfiðleikum. heldur einnig staðir annars staðar á landinu.

Ég veit ekki hvort ég hef svarað öllum fsp. hv. þm. nægilega rækilega, en vil að lokum segja að fyllsta ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af sjávarútveginum á Suðurnesjum. Hann hefur alllengi verið nokkuð veikburða. Það var fyrir nokkrum árum reynt að sameina fyrirtæki á Suðurnesjum með hjálp stjórnvalda. Það tókst að litlu leyti, en nokkru eftir að það var gert komu upp margir nýir aðilar að saltfiskverkun og skreiðarverkun. Þessi landshluti er mjög háður skreiðarverkun. Í þeirri framleiðslugrein eru gífurlegir erfiðleikar eins og allir vita. Það liggur í landinu skreið fyrir um að bil 2000 millj. og afurðalán hafa verið veitt út á helminginn af því. Mörg hinna smáu fyrirtækja á Suðurnesjum hafa orðið mjög fyrir barðinu á þessum erfiðleikum og hefur það orðið til þess að nokkrir hafa hreinlega gefist upp á þessum rekstri. Önnur fyrirtæki víða á landinu, sem ekki fóru af jafnmiklum krafti í skreiðarverkun, hafa sloppið betur. Margir hafa sagt með réttu að ef við gætum selt skreið með eðlilegum hætti, eins og var hér fyrr á árum, og hefðum losnað við hana væri sjávarútvegurinn tiltölulega vel staddur. Ég held að þetta sé að mörgu leyti rétt og hygg að ef hið mikla skreiðarvandamál hefði ekki komið upp væri sjávarútvegurinn á Suðurnesjum a.m.k. mun betur staddur en hann er í dag. Það má mikið af þessum vanda rekja til þess ástands sem þar hefur skapast.