29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. 6. landsk. þm., Karli Steinari Guðnasyni, fyrir að opna umr. um þetta mál og ég vil taka undir það, sem hann hefur hér sagt, með örfáum orðum.

Þegar svarta skýrslan kom fram fyrir rúmu ári opnaði ég umræður utan dagskrár um þau mál og lýsti áhyggjum mínum og kvíða vegna þess ástands sem hlyti að skapast vegna þess samdráttar sem fyrirsjáanlegur væri í sjávarútveginum og spurðist fyrir um viðbrögð stjórnvalda. Við erum nú einmitt að ræða það ástand sem við óttuðumst og hlaut yfir okkur að koma ef ekki væri hart við brugðist.

Ég hlýt að ítreka það, sem þegar hefur komið fram hér og ég hef raunar rætt oftar en einu sinni áður við önnur tækifæri, að það eru einkum konur sem verða að líða fyrir þann samdrátt sem nú er orðinn í atvinnulífinu, einkum úti um land. Og það olli vonbrigðum að hæstv. ráðh. vék ekki neitt að því sérstaka vandamáli. Ástandið á Suðurnesjum, þar sem 70–80% atvinnulausra eru konur, er dæmigert fyrir hið brothætta afkomuöryggi kvenna. Þær hafa löngum verið notaðar sem eins konar sveiflujafnari í atvinnulífinu, verið lokkaðar út af heimilum sínum á þenslutímum, en miskunnarlaust vísað heim aftur á samdráttartímum. Um það eru ótal dæmi frá ýmsum tímum alls staðar í heiminum. En þjóðfélagsgerðin hefur gerbreyst á undanförnum árum þótt ekki verði séð að stjórnvöld og atvinnurekendur eða jafnvel verkalýðsforustan hafi öðlast skilning á því. Það furðulega er nefnilega að ótrúlega margir líta atvinnuleysi misjafnlega alvarlegum augum eftir því hvort í hlut eiga karlar eða konur. Dæmi um slík viðhorf eru ummæli sem höfð voru eftir starfsmanni Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í Alþýðublaðinu fyrir rúmu ári. Eftir að hafa látið í ljós áhyggjur af þáverandi ástandi og horfum í atvinnumálum á Suðurnesjum sagði hann, með leyfi forseta:

„Það sem bjargar dálítið stöðunni hjá okkur er að stærri hluti atvinnulausra eru konur og því ekki fyrirvinnur. Við teljum að um þriðjungur atvinnulausra sé karlar en 2/3 konur, þannig að í sumum tilvikum hefur þetta ekki afgerandi áhrif á afkomu heimilanna þar sem konan er ekki fyrirvinnan.“

Ég hef reyndar áður vitnað til þessara orða sem eru því miður ekkert einsdæmi. Þau voru sögð fyrir rúmu ári, en hvað hefur breyst? Ég vil enn og aftur mótmæla viðhorfum af þessu tagi. Þau eru beinlínis ósæmileg og gersamlega úr takt við raunveruleika nútímans. Atvinnuleysi kvenna er nákvæmlega jafnalvarlegt og atvinnuleysi karla. Konur hafa í sívaxandi mæli tekið að sér fyrirvinnuhlutverkið, ýmist við hlið karla eða einar og óstuddar, ýmist sjálfviljugar eða tilneyddar. Það er til háborinnar skammar hvað þessum konum er boðið upp á. Öryggisleysi og lág laun eru hlutskipti kvenna í þessu þjóðfélagi, ekki síst þeirra sem bera uppi vinnslu útflutningsafurða okkar, og þessu verðum við að breyta.

Það þarf að taka tillit til þess að fiskvinnslufólk er að meiri hluta konur og þessar konur eru að meiri hluta húsmæður sem eru bundnar við heimili og börn. Heildartölur á pappír um atvinnuástand í landinu segja ekki alla söguna. Við megum ekki líta fram hjá því að konum á Suðurnesjum gagnar lítt þótt vanti í nokkur fiskvinnslustörf á Vestfjörðum og Austfjörðum svo að þangað þarf að flytja inn erlent vinnuafl.

Atvinnulíf á Suðurnesjum er því miður fremur einhæft, en þar held ég að ekki sé við heimamenn að sakast sem hafa verið mjög áhugasamir um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Á Suðurnesjum eru óneitanlega geysimiklir möguleikar í atvinnumálum. Fengsæl fiskimið, góðar hafnir, alþjóðlegur flugvöllur, nábýli og greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og síðast en ekki síst jarðvarmi í ríkum mæli eru allt geysiveigamikil atriði í þessu tilliti. Þar er öflugt samstarf sveitarfélaga til fyrirmyndar. Þar er iðnþróunarfélag og iðnráðgjafi sem staðið hefur fyrir námskeiðum og fleiru sem stuðla má að uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífi. Árangur hefur áreiðanlega orðið minni en margir vildu. Þetta landssvæði, sem ætti að hafa hag af nábýli við höfuðborgarsvæðið, hefur í raun goldið þessa nábýlis, a.m.k. til skamms tíma, þar sem Suðurnesin voru ekki viðurkennd landsbyggð og nutu ekki náðar landsbyggðarstefnu. Suðurnesjamenn hafa því ekki notið fyrirgreiðslu til viðhalds og uppbyggingar í atvinnulífi á sama hátt og önnur byggðarlög og eru því á ýmsan hátt verr undir það búin að mæta afleiðingum kvótakerfis í sjávarútvegi og samdráttar í fiskvinnslunni. Það er hart til þess að vita að Suðurnesin, sem í mörgu tilliti bjóða upp á geysigóða möguleika í atvinnuuppbyggingu, hafa ekki getað nýtt þá, að töluverðu leyti vegna skorts á fjármagni og fyrirgreiðslu. Hér þarf aðgerðir og þó fyrr hefði verið. En fyrst og síðast þarf að finna leiðir til að tryggja hið brothætta afkomuöryggi kvenna sem við höfum svo sorgleg dæmi um á Suðurnesjum þessar vikurnar.