29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal draga saman mál mitt. Ég vil fyrst skjóta því að hæstv. viðskrh. að ekki er furða þó útgerð sé sein af stað ef ekki er farið að veita krónu í afurðalán, en á að byrja á því í fyrramálið. Ég hef ekki reynt hæstv. viðskrh. að ósannsögli, en ég vil einnig upplýsa að ég þekki tvo menn sem selja fisk til útflutnings í gámum og hefur aldrei verið spurt að því hvernig fisksins hafi verið aflað. Ég er reiðubúinn að spjalla um þetta við hæstv. viðskrh. síðar, en þetta er eiginlega utan dagskrár.

Ég get tekið undir með hæstv. sjútvrh. að vissulega verða aðalumræður um frekari rétt verkafólks með kauptryggingu þegar tekið verður til umr. það frv. sem nú liggur fyrir á þskj. 428 og við flytjum fjögur.

Hins vegar skil ég ákaflega vel helsta forsvarsmann verkafólks á Suðurnesjum, að hann sé nokkuð órólegur þegar á sjötta hundrað manns í verkalýðsfélögunum á Suðurnesjum, sem hann er helsti forsvarsmaður fyrir, eru atvinnulaus og þegar sumt af þessu fólki hefur verið atvinnulaust kannske tvo mánuði, einstaka lengur en tvo mánuði. Ég er út af fyrir sig ekki undrandi þó að á öðrum degi Alþingis á þessu ári óski hann eftir að segja nokkur orð utan dagskrár um það mál.

Ég skal reyna, eins og ég lofaði í upphafi, að tempra umr. og gera það við síðari umr. En við skulum leggja eitt á minnið. Ef athugað er mannafli og vinnuafl Íslendinga koma ákaflega sérstæðir hlutir í ljós. 75% giftra kvenna vinna utan heimilis. Ekkert land í Evrópu kemst nálægt þessari tölu. Ég held að Danmörk komi næst. Ég man ekki hvort það eru 60%, 65% eða eitthvað svoleiðis þar. Í fiskiðnaði eru tæplega 75% vinnuafls konur. Ef þessara kvenna nyti ekki við og þátttaka þeirra væri ekki slík í íslensku atvinnulífi mundi íslenskt atvinnulíf hrynja saman. Sama er að segja um íslenskan iðnað, rösk 70% eru konur. Ef þessi mikla þátttaka kvenna væri ekki þar mundi íslenskur iðnaður hrynja niður. Menn skulu þess vegna átta sig fullkomlega á því að þegar verið er að ræða þessi mál er ekki verið að ræða um neitt aukavinnuafl. Það er verið að ræða um kjarnann í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar en ekkert aukavinnuafl — fyrir nú utan það að þau eru fá heimilin á almennum tekjum sem komast af með því að bara einn úr fjölskyldunni hafi tekjur og fyrir utan einstæðar mæður og aðra sem erfitt eiga. Ég held að með þessar staðreyndir í huga þurfi að líta á þessi mál.

Hæstv. sjútvrh. gefur engar yfirlýsingar út, og ég er ekkert að krefjast þess, um afstöðu til þess frv. sem hér liggur fyrir og ég minntist á áðan. En hann dregur í efa að það mál verði leyst með lögum. Það er nú svo. Það var vitnað hér áðan í sjómenn. Ég man þegar samningar náðust 1974 um kauptryggingu verkafólks, þ.e. viku uppsagnarfrest. Áður var fólki sagt að kvöldi hvort það ætti að mæta í vinnu að morgni eða ekki. Svo var auglýst í útvarpinu hvort fólk á stór-Reykjavíkursvæðinu ætti að mæta í vinnu eða ekki. Þá voru rökin þau að þetta yrði ekki leyst með lögum eða samningum. Þó breytti þessi kauptryggingarsamningur verulega, þannig að fólk hafði þó þessa viku, og reglugerð sem síðar var gefin út. Hæstv. sjútvrh. er ekki alveg bláókunnugur þessu. Formaður Landssambands útvegsmanna lýsti því yfir u.þ.b. tveimur árum seinna að þessi kauptryggingarákvæði hefðu gert vinnslu í frystihúsunum mun samfelldari.

Ég held að þegar fólk fer að verða frá vinnu svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir verði afleiðingarnar ákaflega skýrar. Nálægt 70% af skráðu atvinnuleysi á árinu 1984 eru í sambandi við fiskvinnslu. Atvinnuleysistryggingar eru upp á 583 kr. á dag og 23 kr. röskar á hvert barn þar til viðbótar. Ef við ætlum að gera vel við það fólk og ekki síst þær konur sem vinna í þessum undirstöðuatvinnuvegi, og hann mundi hrynja saman ef það legði ekki þetta vinnuafl fram, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að þjóðfélagið hefur við það ákveðnar skyldur, hvort sem það er karl eða kona, að það reyni að tryggja þeim sem öruggasta vinnu. Það verður ekki til lengdar hægt að hafa fiskverkunarfólk eitt utangarðs og hafa sérstök undanþáguákvæði um það. Mér er sem ég sjái, hvort sem það væri í Bandaríkjunum eða Sovétríkjunum, að þeir tækju stáliðnaðarverkamenn, sem þeir telja nú eitt sitt þýðingarmesta fólk, og létu þá hafa minni réttindi en aðra. Í báðum þessum ríkjum, svo ólík sem þau eru, er þetta forgangsfólk, bæði í kaupi og öðru.

Ég hirði nú ekki að ræða hér um siglingar og gámaútflutning, en hitt er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði um erlent vinnuafl sem verið er að flytja inn á sama tíma og mikið atvinnuleysi er á einum stað eða í einum landshluta, og þarf ekki landshluta til. Ég vil aðeins benda á t.d. Seyðisfjörð, kjördæmi hæstv. ráðh. Það er atvinnuleysi. Á sama tíma er óskað eftir erlendu fiskvinnslufólki á Djúpavogi. Neskaupstaðar vitnaði hann til. (Gripið fram í: Líka á Seyðisfirði núna, því miður.) Á Seyðisfirði núna? Já ég get vel trúað því. Á Norðfirði, og er Norðfjörður ekki einn um það, er til þess vitnað að ekki sé hægt að pakka fiski í dýrustu neytendaumbúðir, sem markaður sé fyrir, vegna skorts á vinnuafli.

Ég held því að það þurfi nú að lita verulega á þessi mál. En hitt er rétt að þau eru engan veginn einföld og auðleyst. Hins vegar er meginhlutinn af þeim konum sem í frystihúsum vinna konur sem ekki eiga heimangengt. Þetta eru konur sem halda heimili. Þetta eru ekki ungar stúlkur — að hluta til er það að vísu — sem væru reiðubúnar að skreppa í annan landshluta, eins og í síldarverkun hér áður fyrr. Ef svo væri væri ekki þessi mikli vinnuaflsskortur til staðar. Þetta eru húsmæður. Þær hafa enga möguleika á flutningum til og frá.

En ég vil aðeins benda á, sem hér hefur komið fram í umr., en mun ræða það síðar, og skal svo ljúka máli mínu, flóttann úr fiskvinnslunni á Reykjavíkursvæðinu. Þar leita allir, sem eiga þess kost, í aðra vinnu. Það er áberandi víða úti á landsbyggðinni að fólk flytur m.a. vegna þess hvað vinna í fiskvinnslu er ótrygg og kjör á ýmsan hátt léleg. Ég vil láta þetta koma fram og að við verðum að hugsa um í þessu tilfelli að þarna er um lifandi fólk að ræða, lifandi fólk sem lendir í erfiðleikum og þrengingum og við verðum að bæta úr fyrir.