29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það væri auðvitað þörf á því að taka miklu lengri tíma í umr. um það mál sem hér er á dagskrá og mörg önnur tengd því. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði en vil aðeins fara örfáum orðum um nokkur atriði.

Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að umræðan hér í dag hafi spunnist um Suðurnes. Þar er kannske ástandið verst eins og er. En það er bara byrjunin. Þetta ástand er að komast á víða og er fyrir hendi víðar en á Suðurnesjum. Það verður meira og meira áberandi að fólk í fiskvinnslunni, sjómennirnir á flotanum eru að fara úr þessum störfum. Ástæðan er sú að stjórnvöld, ekki bara núverandi ríkisstj. heldur og margar fyrri ríkisstj., hafa ekki skapað nægilega góð skilyrði fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðfélagsins svo að það fólk, sem hefur starfað við þetta til þessa, sér nú miklu betri tíð í öðrum störfum. Það er nú orðið svo ástandið á Vestfjörðum — og ég hygg að það sé svo víðar þar sem 70 til 80% vinnandi fólks vinnur við þessa atvinnugrein — að frystihúsin eru að tæmast af því fólki sem hefur unnið við þetta og hefur allt til þess að bera að skapa bestu framleiðsluna. Það skiptir auðvitað miklu máli í þessu dæmi. Sjómennirnir eru að fara af bátunum, það er liðin tíð að nú berjist menn og bíði eftir togaraplássi. Nú er það orðið vandamál að manna skuttogarana vestra.

Allt er þetta vegna þess að stjórnvöld hafa skotið sér undan þeirri skyldu sinni að sjá svo um að þessi undirstöðuatvinnuvegur hafi rekstrarmöguleika. Hæstv. ríkisstj. hefur séð svo um að fyrir öðrum atvinnugreinum — og þá fyrst og fremst hér á þessu svæði — eins og verslun og viðskiptum, byggingariðnaði öllum og svo mætti lengi telja, hefur verið vel séð undangengna mánuði. Og það er engu líkara en að a.m.k. enn sem komið er sé nægilega vinnu að fá í þessum atvinnugreinum hér. Fólkið úr frystihúsunum, mennirnir af bátunum flytja utan af landi frá framleiðslustörfunum í þjónustugreinarnar. Það er þetta ástand sem verið er að innleiða nánast alls staðar á landinu.

Auðvitað getur þetta ekki staðið lengi. Þessar atvinnugreinar hér blómstra ekki ef gullsins er ekki aflað í undirstöðuatvinnugreininni. Þetta ástand, sem nú er komið á Suðurnesjum, komið kannske annars staðar í minna mæli, en er vaxandi mjög víða, verður að skrifast á reikning stjórnvalda. Þau hafa ekki sinnt þeirri skyldu að skapa þau skilyrði fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein að hún geti blómstrað og a.m.k. sé ekki sett til hliðar fyrir öðrum atvinnugreinum sem eru miklu minna virði þó að þær séu út af fyrir sig nauðsynlegar að vissu marki.

Ég vil aðeins benda á það hér auk þessa að með stöðvun rækjuveiða bætast nokkur hundruð manns við á Vestfjörðum sem missa sína atvinnu nú. Kannske verður það ekki lengi og vonandi ekki, um það er ekkert vitað, það ég best veit, enn. Nauðsynlegt hefði verið að taka miklu lengri tíma til umr. um þetta stórmál sem hér um ræðir — (GJG: Það kemur.) Já, en kannske kemur það of seint. En hv. þm. hugsar auðvitað svo að betra er seint en aldrei. En ég vildi aðeins beina þeirri spurningu í lokin til hæstv. sjútvrh. hvort hann hyggst beita sér fyrir því, t.d. varðandi rækjusjómennina við Ísafjarðardjúp, að þeir verði meðhöndlaðir á svipaðan hátt og þeir voru að ég held 1974 þegar þeir fengu greiðslu úr Aflatryggingarsjóði. Lögunum var þá breytt til þess að slíkt gæti átt sér stað. Þau lög standa, það ég best veit, óbreytt enn þannig að þar er möguleikinn. Án þess að ég sé að krefjast neinna svara af hæstv. ráðh. vildi ég gjarnan að hann upplýsti það hér hvort svipuð leið yrði farin varðandi rækjusjómenn við Ísafjarðardjúp og farin var þegar veiði var stöðvuð á sínum tíma og þeir fengu greiðslur úr Aflatryggingarsjóði.