30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

213. mál, virðisaukaskattur

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að ég er illa lesinn í þessum fræðum og var t.d. ekki hér á þingi í fyrra þegar umr. fóru fram um málið þá. Fróðleg ræða hæstv. ráðh. nú er vissulega til að upplýsa margt, en einfaldaði ekki málið fyrir mér sem slíkt, svo flókið sem það er og margþætt. En vitanlega er skylt að bæta hér úr og lesa sér ærlega til, en vara sig á því að segja of mikið nú, allra síst um mörkin milli innskatts- og útskattsgreiðslna svo að dæmi sé tekið um ýmis hugtök sem þarna koma fram og eru manni býsna fjarlæg. Mér hefði hins vegar kannske verið nær að líta í þingtíðindi fyrra árs, þegar ég setti á blað í morgun fáein orð um skattamálin í heild, en það er of seint úr því að bæta nú. Hins vegar er rétt að taka það fram strax að hér er um eitthvert stærsta mál þessa þings að ræða sem vissulega þarf nána og vandlega athugun. Eflaust dugar ekki til það sem enn er eftir af þessu þingi til þess að fara ofan í þetta mál sem skyldi svo hægt sé að innleiða eins flókið kerfi um næstu áramót og hæstv. ráðh. var að vísa til áðan.

Skattamál okkar í heild eru vissulega allrar umræðu verð og eitthvert algengasta umræðuefni í þjóðfélaginu. Margt hefur verið sagt um form skatta, réttlæti þeirra og þó fremur ranglæti þeirra. Misferli og undandráttur eru algeng orð í umræðunni og hrópandi dæmi hvarvetna úr þjóðfélaginu vekja athygli og umhugsun.

Ég skal ekki við 1. umr. þessa máls nú, sem er í raun og veru önnur heildarkynning á þessu viðamikla máli, fara náið út í það. Málið fer til nefndar þar sem hv. þm. Ragnar Arnalds á sæti fyrir hönd Alþb. Hann er þessum hnútum gerst kunnugur og umfjöllun málsins og skoðun í n. er þar vitanlega í góðum höndum. Það er hins vegar mikið verk og vandasamt, eins og ég sagði áðan, að koma þessu máli þannig út úr n. að allir geti sæmilega við unað. Síðan er eftir að sjá hvernig framkvæmdin á þessu verður í heild sinni, því það sýnist mér á öllu, þrátt fyrir góðar upplýsingar í ræðu hæstv. ráðh. og í grg. með þessu frv., að það sé vægast sagt óljóst hvernig framkvæmd ýmissa þátta þessarar skattlagningar verði háttað.

Ég vildi aðeins segja nokkur orð um skattamálin í heild. Fyrst kemur upp í hugann spurning um beina skatta og óbeina. Ég get ekki leynt minni skoðun þar. Það liggur fyrir nú að tekjuskattur skuli af lagður í áföngum. Tekjuskatturinn er ágætt tekjujöfnunartæki ef hægt hefði verið að vinna sig frá hinum stóru agnúum. Þetta ágæta tekjujöfnunartæki verður sem sagt ekki til staðar innan fárra ára ef svo fer fram sem horfir. Ég lýsi því enn yfir að tekjuskattsleiðin sé um margt eðlileg leið til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu. Sú leið er farin víðast hvar til að jafna aðstöðu og láta þá hærra launuðu greiða hærra framlag til samfélagsins og jafna um leið út ákveðna tekjutoppa. Hjá okkur hefur þetta farið þannig að gerð hefur verið ein skattalagabreytingin af annarri. Allar hafa þær átt að hafa það að meginmarkmiði að ná betur til þeirra sem undan sleppa, en allt hefur komið fyrir ekki.

Hið háa hlutfall manna með sjálfstæðan atvinnurekstur hér á landi miðað við ýmis önnur þjóðlönd er e.t.v. skýring á vandanum en hvergi fullnægjandi. Brotalamirnar hafa sem sagt hrópað til okkar og nú blasir uppgjöfin ein við. Tekjujöfnunartæki annarra þjóða mun hreinlega verða lagt hér niður. Við höfum gefist upp á því að ná til þessara aðila sem sloppið hafa við eðlilega hlutdeild í greiðslum til samfélagsins, gefist upp á að finna leiðir til úrbóta, til að gera tækið virkt, en erum þess í stað að leggja það niður. Ég tel það miður að mörgu leyti en get þó ekki bent á þær leiðir sem dygðu til að gera þetta tæki svo virkt sem öðrum þjóðum hefur tekist að gera það.

Óbeinir skattar koma þá til sögunnar, eins og hæstv. fjmrh. benti á, í enn ríkara mæli. Neyslu- og þjónustuskattar eru í dag mjög hátt hlutfall hjá okkur en munu verða enn meira áberandi eftir að tekjuskatturinn hefur verið lagður af að fullu. Eignarskattaleiðin hefur líka komið til álita. Hún hefur verið mjög í sviðsljósi að undanförnu og hefur verið leitast við að einfalda tilhögun hennar. Ég tel sjálfsagt að kanna alla þá möguleika sem felast í eignarskattsleiðinni. En mér segja fróðir menn í þessum málum að möguleikar til hagræðingar og undanskots með ýmsum hætti séu þar líka til ekki síður en varðandi tekjuskattinn og að þær leiðir muni hinir raunverulegu stóreignamenn finna til að sleppa við eignarskattinn. Og þó að eignarskattsfyrirkomulagið geri skattsvikurum að sumu leyti erfiðara um vik en tekjuskattsleiðin þá eru margar smugur og leiðir fyrir þá sem einmitt þyrfti að ná til varðandi eignarskattinn. Ég segi því að eignarskattsleiðina þarf að kanna vel. En lausnarorð er sú leið ekki og erfitt verður sem fyrr að draga mörkin á milli eðlilegrar eignar, eðlilegs arðs af vinnu fólks í eignum og þess sem umfram má teljast og ber að leggja á stighækkandi skatthlutfall.

En örfá orð um þessa leið sem hér er verið að leggja til, ágæti hennar og annmarka. Fljótt á litið sé ég ærna annmarka en kostir liggja í betri skilum, betra eftirliti, að sagt er. Vissulega er þetta skattfyrirkomulag þannig í framkvæmd að hver hefur í raun nokkra umsjón með hinum. Ég veit hins vegar ekki annað en ýmsar brotalamir hafi komið á þessari tilhögun fram í innheimtu og skilum í öðrum löndum sem þó eru þekktari fyrir betri skil á sköttum almennt en eru hjá okkur.

Einhvern veginn leggst það svo í mig að okkar litla þjóðfélag kunningsskaparins geti boðið upp á meiri agnúa og verri skil og innheimtu á þessu en gerist annars staðar þar sem þessi skattur hefur verið tekinn upp þrátt fyrir þetta gagnkvæma eftirlit. Grunur minn er nefnilega sá að ekki muni auðvelt að búa svo um hnúta að öllu verði þar til skila haldið og allt verði sem skyldi. En um það er best á þessu stigi að hafa sem minnstar fullyrðingar. Auðvitað fer það eftir því hvernig að þessum málum verður staðið í heild, hvernig framkvæmdinni verður hagað og hvort í alvöru á að ná inn fullum skilum á þessum skatti og að því verði unnið á skipulegan hátt. En dæmi, sem við höfum frá öðrum skattformum hér á landi, m.a. varðandi söluskattsskilin, eiga a.m.k. að verða til þess að við förum að með gát, alhæfum ekkert og teljum okkur ekki trú um að við séum að finna leið til lausnar án allra agnúa af þessu tagi.

Það kom reyndar fram í máli hæstv. fjmrh. hér áðan að því altækari og þyngri sem skatturinn væri, þeim mun meiri viðleitni og þeim mun meiri freisting væri til þess að komast undan fyllstu skilum, t.d. með undanþágum eða á annan hátt.

Aðalhættan, sem ég sé í þessum skatti, er að hann muni að öllu óbreyttu og eins og hann kemur mér fyrir sjónir auka greiðslubyrði hins almenna launamanns þrátt fyrir allt. Það sýnist mér a.m.k. við fljóta skoðun á þessu máli. Ég held að við eigum að hafa það í huga að marggagnrýndar undanþágur frá söluskatti eru þess eðlis að yfirgnæfandi hluta að þær eru til þess að létta af þeim verst settu. Matvælin eru þar gleggst dæma. Ég nefni bara af handahófi ýmis hjálpar- og stoðtæki fatlaðra. Ég nefni einnig ýmsa þjónustu sem reyndar á að hluta til að undanþiggja virðisaukaskatti. En þessar undanþágur einnig á sviði heilsugæslu, menntunar og menningarmála ýmiss konar eru af hinu góða. Hér er um yfirgnæfandi meiri hluta undanþáganna, yfir 90%, að ræða þegar við tökum þær vörur sem undanskildar eru söluskatti einmitt vegna framfærslubyrðar heimilanna. En hitt er rétt að „absúrd dæmi“, sem hafa verið tekin og veifað hér úr ræðustólum á Alþingi, eru auðvitað jafnslæm en þau breyta ekki þessari heildarmynd, að undanþágurnar frá söluskattinum eru að langmestu leyti til þess að létta verulega framfærslubyrði þeirra sem erfiðast eiga.

Mér segja líka þeir menn, sem koma nálægt verslun og reyndar þjónustu einnig, að það séu ekki þessar undanþágur sem séu aðalorsök slæmra söluskattsskila, þar komi allt annað til. Menn fullyrða — og ég býst við að það sé mikið til í því — að það sé þjónustusvið einkageirans sem fyrst og síðast veldur miklu um vanskil þessa skatts. Þar kemur þessi margfrægi kunningsskapur okkar til. Þarna er um þjónustustarfsemi af ýmsu tagi að ræða þar sem nógu miklu eftirliti verður ekki við komið og þar sem kunningsskapurinn blómstrar best.

Ég efa nokkuð að þetta út af fyrir sig leysist með þessu nýja formi — einmitt á því sviði sem vankantar eru mestir í dag — þrátt fyrir það gagnkvæma eftirlit sem gert er ráð fyrir og á að hafa eitthvert aðhald.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. En einmitt við þetta atriði staldra ég fyrst og skal láta nægja sem mín aðvörunarorð nú við 1. umr. Reyndar voru það býsna þung aðvörunarorð sem hæstv. fjmrh. mælti hér í lok sinnar ræðu varðandi ýmsa þá vöru sem nú verður lagður á virðisaukaskattur og mun koma til með að hækka verð þeirrar vöru og einnig þeirrar þjónustu að nokkru sem nú er undanþegin þessum söluskatti. Það er því greinilegt að hæstv. ráðh. hefur býsna miklar áhyggjur af einmitt þessum þætti. Og það er einmitt það sem ég bendi á að virðisaukaskatturinn eirir nær engu, ef svo mætti að orði komast, t.d. í hinum brýnu nauðsynjum að vissu marki í þjónustunni, eins og hæstv. ráðh. kom inn á hér áðan. Á brýnustu nauðsynjar mundi hann leggjast af fullum þunga og á sumt af þeirri þjónustu sem fólk verður óhjákvæmilega að nota sér.

Ég endurtek það að margnefnt undanþágufargan söluskattsins, sem hæstv. ráðh. minntist einnig á, snertir fyrst og fremst hinar óhjákvæmilegu tegundir vöru og þjónustu sem fólkið með framfærslubyrðina, með litlu tekjurnar, nýtur framar öllum öðrum. Ég hlýt því að hafa uppi býsna miklar efasemdir um ágæti þessa skatts en vil að allt verði sem vendilegast skoðað ef verða mætti til þess að við kæmumst út úr þeirri sjálfheldu skattamála, mismununar og undandráttar, sem við erum í í dag. En máske eru það ekki ný tæki eða nýjar aðferðir sem vantar, máske er það fyrst og síðast að okkur vanti viljann til upprætingar og aðgerða gegn skattsvikum og undandrætti á eðlilegum skilum til samfélagslegra þarfa. Kannske er það einmitt þennan vilja sem okkur vantar í of ríkum mæli.