30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

213. mál, virðisaukaskattur

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þá er frv. til l. um virðisaukaskatt aftur komið á borð hjá hv. þm. Og eins og hæstv. ráðh. sagði í framsögu sinni þá er þetta umfangsmikið mál og það þarf gaumgæfilega umfjöllun í n. Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar mun ég ekki hafa mörg orð hér um nú. Í n. mun okkur m.a. gefast færi á að meta kosti og galla þess skattheimtukerfis sem hér er mælt fyrir samanborið við núverandi söluskattskerfi og mun ég geyma mér umfjöllun þar um þar til nefndarstörfum er lokið.

Það er einkum tvennt sem ég vil minnast á við 1. umr. málsins. Það er annars vegar umrædd og gífurleg verðhækkun á matvörum sem virðisaukaskatturinn virðist munu hafa í för með sér, en eins og fram kemur á töflu I á bls. 32 í grg. er áætlað að matvæli muni hækka um 18–18.9% við upptöku skattsins. Þetta er e.t.v. ofætlað að einhverju leyti, eins og ráðh. kom inn á í framsöguræðu sinni, þar sem framleiðslukostnaður matvörunnar gæti lækkað eitthvað en sennilega er ofætlunin ekki mjög mikil.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt eru matvæli stærsti neysluþáttur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Ég tel það gersamlega óverjanlegt nú á tímum stórfelldra kjaraskerðinga að setja á skatt sem hefur þvílíka hækkun á nauðsynjavörum í för með sér. Það eru einfaldlega stórir hópar fólks í þjóðfélaginu sem ekki geta axlað þessa hækkun og mér þykir það vera óhæfa ef Alþingi samþykkir álögur af þessu tagi eins og málum er nú háttað. Hæstv. ráðh. kom inn á þessi atriði í framsögu sinni áðan og var ljóst af orðum hans að hann er vakandi fyrir þessu atriði og ég vænti þess að við getum öll verið sammála um að að þessu þurfi að huga sérstaklega vel.

Eitt langar mig til að nefna í þessu sambandi og það er að eftir því sem ég best veit gilda fleiri en eitt skatthlutfall víða í þeim löndum Evrópu sem tekið hafa upp virðisaukaskatt. Ég fæ í fljótu bragði ekki séð hvers vegna við getum ekki gert það hér líka þótt það kosti okkur sýnilega einhverja fyrirhöfn. Með mismunandi skatthlutföllum gætum við haldið verðhækkun matvæla og annarra nauðsynja niðri - og ég tel ákaflega brýnt að svo verði — eða þá að leita einhverra annarra leiða reynist þingmeirihluti fyrir því að taka upp virðisaukaskatt.

Hitt atriðið, sem ég vil vekja máls á hér við þessa umr., er að ógjörningur er að skoða þetta mál eitt og sér. Það verður að skoðast í samhengi við aðra skatta og gjöld sem lögð eru á landsmenn. Frv. kveður á um að virðisaukaskattur skuli nema 21% og áhrif hans á verðlag sjáum við að einhverju leyti til á töflunum á bls. 32. Þetta skatthlutfall verður að meta í samræmi við aðrar álögur, skatthlutfall tekjuskatts, tolla o.s.frv. og einnig í samræmi við þróun kaupgjalds og verðlags í landinu.

Að svo komnu máli er því að mínu viti lítið annað að gera en að bíða með málið og sjá hvað ríkisstj. hyggst gera í þeim málum sem þetta mál er angi af, í skattamálum, í tollamálum, í kjaramálum, í efnahagsmálum almennt. Þá fyrst er hægt að skoða þetta mál í samhengi og meta með framtíðarhorfur í huga áhrif þess á efnahag landsmanna og hvernig hagkvæmast og réttmætast er að haga þeirri skattheimtu sem hér um ræðir.