30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

213. mál, virðisaukaskattur

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð að þessu sinni því að eins og komið hefur hér fram verður þetta mál skoðað í fjh.- og viðskn. og ég mun eiga sæti í þeirri n. Ég mun því ekki fjalla um einstök atriði frv., enda ekki undir það búinn nú. Þetta verða því aðeins almenn orð. Það hefur komið hér fram hjá hv. þm. að verstu gallar söluskattsfyrirkomulagsins eru hinar mörgu undanþágur sem eru frá söluskattinum. Þessar undanþágur gera allt eftirlit erfiðara en ella. Það er fullyrt í almennri umræðu í þjóðfélaginu að stórar upphæðir liggi hjá garði í skattheimtunni einmitt vegna þess hve undanþágurnar frá söluskatti eru margar.

En það er líka rétt, sem fram hefur komið, að þessar undanþágur hafa menn ekki leyft að gamni sínu. Þessar undanþágur hafa verið notaðar til að létta undir með fólki á ýmsan hátt. Þær hafa verið notaðar til að lækka verð matvöru og lækka verð á nauðþurftum almennings. Þær hafa komið til góða fyrir barnmargar fjölskyldur sem þurfa að kaupa mikið af matvörum til heimilisnota. Hv. þm. hafa lýst hér áhyggjum sínum vegna þess að virðisaukaskatturinn er flatur skattur sem leggst á allar vörur. Ég mun í afstöðu minni til þessarar skattheimtu líta mjög til þess hvaða hliðarráðstafanir verði gerðar þegar hún tekur gildi og ef hún tekur gildi til að létta áhrif þessarar skattheimtu fyrir hina verst settu í þjóðfélaginu. Það gefur auga leið að 18–19% hækkun á nauðþurftum heimilanna, þ. á m. öllum matvörum eins og landbúnaðarvörum og öðrum nauðsynjum, er þungur baggi eins og í pottinn er búið nú. Ég mun því líta mjög til þess við meðferð þessa máls þegar þar að kemur. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við 1. umr. málsins en mun að öðru leyti skoða málið þegar það kemur til n. til meðferðar.