30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

213. mál, virðisaukaskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Nú er rætt um virðisaukaskatt og hefur verið gert alllengi. Hugmyndir um breytingar á skattkerfinu eru lengi að velkjast í kerfinu og mér býður í grun að svo verði um nokkurt skeið enn. Ég tel hins vegar að það sé mikil ástæða til að breyta skattkerfinu mjög mikið hér á Íslandi og við í Alþfl. viljum gera það á þann hátt að leggja niður tekjuskatt og taka upp virðisaukaskatt. Það hvernig virðisaukaskattur verður er nokkuð sem þingið þarf að ákveða og við þurfum að taka afstöðu til í nefndum. Við eigum ekki að láta ótta við breytingar verða til þess að eyðileggja góð áform eða góð mál. Staðreyndin er sú að umræður um nýja skatta byggjast mikið á því að mönnum er það almennt ljóst hversu gífurlega er svikið undan skatti, hversu mjög götóttur skattur söluskatturinn er sem einstaklingar í kunningjaþjóðfélaginu sjá um að hafa að eigin geðþótta.

Menn hafa óttast að ef virðisaukaskattur verði settur á, flatur skattur á allt, komi það illa við stórar fjölskyldur eða fátækt fólk. Ég tel að hægt sé að sníða þá agnúa af með öðrum ráðstöfunum. Alþingi á ekki að vera hrætt við að skoða þessi mál niður í grunn. Ef menn hafa þá skoðun, sem ég vænti að fleiri hafi en Alþfl.-menn, að gera eigi sérstakar ráðstafanir varðandi stórar fjölskyldur og þá sem hafa litlar tekjur til tekjujöfnunar, þannig að þessi skattur komi ekki sérstaklega illa niður á það fólk, þá er hægt að gera það.

Ég fagna því að þetta mál er komið til umfjöllunar. Ég sé að vísu ekki fyrir mér að þessu verði komið á alveg á næstunni ef miðað er við fyrri reynslu af afgreiðslu skattamála. Það virðist taka ótrúlega langan tíma að koma á breytingum, ég tala nú ekki um ef þær eiga að vera til einhverra bóta. Það er náttúrlega hægt að setja þetta kerfi á í flaustri. En það er ekki af því góða og þá verður ekki séð fyrir því að þau markmið náist fram að skatturinn innheimtist betur og komi ekki sérstaklega illa við stórar fjölskyldur og fátækt fólk.

Hér var rætt um undanþágur frá söluskatti. Það mun nú vera svo komið með þessar undanþágur að menn vita varla hvað þær eru margar. Það eru ekki nema sérfræðingar sem átta sig á því hvað undanþágur eru margar og til hvers þær eru. Ég er almennt þeirrar skoðunar að hvers konar undanþágur bjóði svindli heim. Hversu góð hugsun sem hefur verið að baki veitingu slíkra undanþága þá sé reyndin sú, eins og reyndar hefur komið í ljós af skattaframtölum, að undanþágur hafa komið þeim til góða sem hafa kunnað að spila á kerfið en hinum ekki. Ég tel að það eigi einmitt að forðast undanþágur í svona skattakerfi nema þær allra brýnustu. Það eigi að vera almennar reglur og síðan eigi að koma til löggjöf eða reglugerð um það hvernig með sérstaka hluti eigi að fara, en ekki að nota undanþágur frá skatti nema í allra minnsta mæli.

Ég endurtek að ég tel ástæðu til að skoða þetta mál mjög vel. Við höfum lýst því yfir í Alþfl. að við viljum breyta sköttun, taka upp virðisaukaskatt og afnema tekjuskatt, og við munum vinna að því að svo verði gert. Þetta frv. fer nú til n. Þar munum við láta okkar sjónarmið í ljós. Vissulega getur svo farið að meiri hlutinn vilji hafa virðisaukaskattinn á annan veg en við viljum hafa hann. En við sjáum til og vonum að svo verði ekki.