30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

213. mál, virðisaukaskattur

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál, virðisaukaskattur, er hér til umr. Það er tvímælalaust tími til kominn að endurskoða söluskattskerfið sem við búum við. Hyggja þarf að í hvaða formi er hægt að komast hjá undandrætti undan söluskatti. Það hefur verið á allra vitorði um alllanga tíð að skattsvik væru gífurleg hér á landi. Virðisaukaskattur er sú leið sem nágrannaþjóðir okkar hafa valið til innheimtu óbeinna skatta. Þessi skattheimtuaðferð hefur reynst þung í vöfum, t.d. í Noregi, en heldur betur annars staðar, eins og t.d. nú er orðið í Danmörku eftir að agnúar hafa verið sniðnir af upphaflegu fyrirkomulagi. Ég get því miður ekki gert mér grein fyrir eftir hvaða kerfi þetta frv. er unnið eða hvort það tekur einhver mið af göllum sem fram hafa komið annars staðar en í nágrannalöndum okkar. En það veldur manni miklum áhyggjum samt sem áður að þetta kerfi skuli hafa svona gífurlega mikla hækkun í för með sér á matvælum, um 18.9%, en lækkun á drykkjarvörum og tóbaki. Það er íhugunarefni til hvers þarf að lækka tóbak. Fatnaður o. fl. mun lækka. Húsnæði, ljós og hiti mun hækka.

Það er því ekki hægt að taka afstöðu til þessa frv. á þessu stigi vegna þess að þær leiðir, sem stjórnvöld ætla að kynna, hafa ekki komið fyrir okkar sjónir enn. Þess vegna er ekki hægt að taka afstöðu til þess nú hvort þetta er það kerfi sem velja skal, því að við verðum að koma til móts við þá sem hafa vart fyrir nauðsynjavörum nú í dag, hvað þá heldur ef þær mundu hækka um 18.9%, og húsbyggjendur sem vart standa undir afborgunum af sínu húsnæði. Ef á að fara að breyta lánakerfinu, þá þarf samt sem áður að borga þessi lán, svo að ég sé enga ástæðu til þess að hækka byggingarkostnað á íbúðarhúsnæði. Við erum í hærri kantinum, eða hæst á Norðurlöndum alla vega að því er varðar kostnað við eigið húsnæði og þyrftum því að velja leið sem yrði til þess að draga úr þeim kostnaði en ekki að auka hann. Hér kemur fram að það muni vera um 3.1% sem húsnæði, ljós og hiti hækkar við þessa breytingu. Þá er miðað við 21% virðisaukaskatt.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh. að virðisaukaskattur muni ekki auka tekjur ríkissjóðs heldur muni dreifast öðruvísi en nú er niður á neytendur. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta því að ég er ekki í þeirri n. sem var með þetta mál til umfjöllunar fyrir ári síðan og hef því ekki getað kynnt mér þetta nægilega rækilega. Engu að síður fagna ég því að málið skuli vera komið hér til umr. og mun kynna mér það mjög ítarlega.

Ef á að breyta úr launaskatti yfir í óbeina skatta er þörfin enn meiri á öruggu innheimtukerfi. Mér finnst aðalatriðið að það sé öruggt í innheimtu, það séu færri undankomuleiðir til skattsvika, því að þá mun það afla ríkissjóði nægra tekna til þess að standa undir fjölskyldubótum eða öðrum ráðstöfunum til þess að létta undir með þeim sem þetta þyngir skattbyrðina á.