30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

213. mál, virðisaukaskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa til máls fyrir þær góðu undirtektir sem framlagning þessa frv. um virðisaukaskatt fær hér. Þær góðu undirtektir lofa vonandi því að rækilega og fljótt verði unnið, en þó með gætni, að framgangi þessa máls. Frv. hefur verið í undirbúningi í fjmrn. nokkuð lengi og öðru hverju hafa þm. gert athugasemdir við að það væri ekki lagt fram. En sú mikla vinna sem forveri minn, fyrrv. fjmrh., Ragnar Arnalds, lagði í þetta til þess að skila verkinu var svo vel á veg komin að tiltölulega lítið átak var fyrir mig sem fjmrh. að leggja það fram. Frv. var lagt fram snemma á þessu þingi og hefur legið frammi það lengi að þm. hafa haft góðan tíma til að lesa það og kynna sér. Ef þeir ekki hafa gert það, þá er það ekki af tímaskorti, það er af einhverjum öðrum ástæðum. En það gæti náttúrlega leitt til tímaskorts við afgreiðslu málsins miðað við það að frv. nái fram að ganga fyrir næstu áramót. En ég vona að svo sé ekki.

Til að svara hv. 9. þm. Reykv. vil ég vitna í ræðu mína áðan og endurtaka, með leyfi forseta, það sem ég sagði um prósentuálagninguna á virðisaukaskattinum: „Í frv. er gengið út frá því að virðisaukaskattur skili jafnmiklum tekjum og gjöld byggð á söluskattsgrunni gera nú. Hefur verið áætlað að til þess að ná þessu marki þurfi virðisaukaskattur að vera 21%. Er í aths. með frv. gerð rækileg grein fyrir því hvernig þetta skatthlutfall er áætlað.“ Þess vegna vísa ég til þess sem kemur fram í grg. með frv. Hitt er svo annað mál að nefnd verður að skoða hvort þessar áætlanir fjmrn. eru réttar eða ekki réttar. Frekara svar hef ég ekki á reiðum höndum hér. Þetta eru allt áætlanir sem þar koma fram.

Þá er talað um innheimtukostnaðinn. Gert er ráð fyrir því að fjölga starfsmönnum skattrannsóknarstjóra nú um 20 nýjar stöður. Það er ekki með öllu vitað hvað mikið þarf að fjölga starfsmönnum, en þeim þarf að fjölga nokkuð. Ég gæti vel trúað því að það séu a.m.k. 10 stöðugildi sem þarf að bæta við þegar virðisaukaskattur er tekinn upp.

Þá vil ég taka það fram í sambandi við fsp. um það hvort auka eigi niðurgreiðslur eða með hvaða öðrum hætti eigi að mæta þeirri hækkun á neysluvöru sem um getur í minni framsöguræðu, til þess að það fari ekkert á milli mála, að ríkisstj. gerir sér fulla grein fyrir þeim ábendingum sem koma fram hjá öllum þeim sem tekið hafa til máls á þessu stigi. Ég ætla líka að lesa niðurlagsorð ræðu minnar. Ég valdi þau sem niðurlagsorð til þess að reyna að stimpla þá mynd sem ljósasta á þessu stigi í hugum alþm. Þau hljóða þannig, með leyfi forseta:

„Ég vil einnig ítreka það, sem áður hefur komið fram í ræðu minni, að það er mitt mat og ríkisstj. að gera þurfi sérstakar hliðarráðstafanir, m.a. í tryggingamálum, samhliða því að virðisaukaskattur er tekinn upp til að bæta hag þeirra sem ætla má að þessi skattur bitni harðar á en núverandi söluskattur. Er þar ekki síst átt við tekjulægri hópa í þjóðfélaginu, sem verja stærri hluta tekna en aðrir til kaupa á matvælum, sem nú eru undanþegin söluskatti en virðisaukaskattur mundi leggjast á.

Þetta vildi ég leggja sérstaka áherslu á áður en umr. hefjast um málið á hv. Alþingi, en ríkisstj. mun síðar við meðferð málsins gera nánari tillögur um slíkar ráðstafanir.“ Og þessar ráðstafanir, ég undirstrika það, eru ekki endilega niðurgreiðslur heldur gætu allt eins orðið í gegnum tryggingakerfið eða á annan hátt.

Ég vil svo aftur þakka virðulegum ræðumönnum fyrir góðar undirtektir og ég vona að málið fái skjóta en góða meðferð í nefnd.