30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Með frv. til l. um flutningsjöfnunarsjóð olíu og bensíns, sem hér er mælt fyrir, er stefnt að því að í stað verðjöfnunar á olíu og bensíni verði tekinn upp flutningsjöfnuður. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að áfram gildi hámarksverð á þessum vörum. Breytingin er því fólgin í því að verði frv. að lögum verður ekki lengur óheimili að lækka verð á olíu og bensíni. Þetta gerir það kleift að hagkvæmni í viðskiptum leiði til hagkvæmara verðs. Frv. gerir þó ráð fyrir að söluverðið verði hið sama til sömu notenda og við sömu aðstæður hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans hvar sem er á landinu, þannig að verið er að auka á samkeppni milli olíuinnflytjenda. Við verðákvörðun á olíu og bensíni yrði skv. sérstökum útreikningi Verðlagsstofnunar tekin ákvörðun um flutningsjöfnunargjald sem rynni í svonefndan flutningsjöfnunarsjóð til að mismunandi flutningskostnaður hefði ekki áhrif á skráð útsöluverð eftir landshlutum. Í frv. er því byggt á sömu grundvallaratriðunum og í lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi.

Í verðjöfnunarlögunum er gert ráð fyrir verðjöfnun og hún nemur 1.5% af útsöluverði bensíns, 4.9% af útsöluverði gasolíu og 4.8% af útsöluverði svartolíu. Flutningsjöfnunargjald kæmi í stað verðjöfnunargjalds og gerir frv. ekki ráð fyrir skerðingu á jöfnun frá því sem nú er, en hagkvæmni í viðskiptum, sem ég hef vikið að, getur leitt til lægra verðs á olíu og bensíni.

Að undanförnu hefur verið til athugunar með hvaða hætti unnt væri að koma fram lækkun á verði olíu og bensíns hér innanlands jafnframt verðlagningu sem fæli í sér hvata til lækkunar verðs með hagkvæmni í viðskiptum. Við verðákvörðun á olíu og bensíni í dag er um að ræða ellefu þætti til viðbótar við innkaupsverðið, m.ö.o. verðjöfnunargjald, þóknun banka af gjaldeyrisviðskiptum, innflutningsgjald af gasolíu og svartolíu, magntoll á gasolíu og svartolíu, landsútsvar af bensíni, gasolíu og svartolíu, verðtoll á bílabensíni, tollafgreiðslugjald á bílabensíni, veggjald af bílabensíni, söluskatt og loks vörugjald af bílabensíni, gasolíu og svartolíu. Nær allir þættirnir eru ákvörðunaratriði um tekjur ríkissjóðs, sveitarfélaga og þóknun banka auk verðjöfnunar.

Með frv. þessu er leitast við að hafa áhrif á einn verðlagsþáttinn til lækkunar með því að skapa möguleika til verðsamkeppni á grundvelli aukinnar hagkvæmni í viðskiptum. Í byrjun janúar var fellt niður leyfisgjald bankanna af bensíni, gasolíu og svartolíu og var það ákvörðunaratriði viðskrn. Önnur gjöld, sem hafa áhrif á verð olíuvara, heyra ekki undir viðskrn. Af gjöldum bensíns vegur bensíngjald til vegagerðar þyngst, síðan söluskattur og tollar. Að sjálfsögðu er það innkaupsverð erlendis, svo og skráning hvers gjaldeyris, sem mest áhrif hefur á verðlagningu olíuvara hér á landi og auk þess skattlagning á bensín.

Verðið hefur verið breytilegt og farið hækkandi undanfarna áratugi, auk þess sem mikil breyting hefur verið á dollar sem er sá gjaldmiðill sem olían er keypt fyrir. Frá 1950–1956 var olíu- og bensínverð tiltölulega stöðugt, en í kjölfar svonefndrar Súez-deilu 1956 hækkaði olíuverð um nálægt 50%. T.d. hækkaði tonn af gasolíu þá úr 21 dollar í 32. Um 1960 hafði verðið lækkað verulega á ný og fór áfram lækkandi næstu ár á eftir og var tonnið af gasolíu komið niður í u.þ.b. 18 dollara 1966. Í kjölfar sex daga stríðsins á árinu 1967 fór olíuverð smám saman hækkandi aftur og í lok ársins 1972 var tonnið af gasolíu komið í 33 dollara. Á árinu 1973 fjórfaldaðist olíuverðið og hækkaði tonnið af gasolíu í 122 dollara og hélst síðan allstöðugt til ársloka 1978. Á árinu 1979 þrefaldaðist verð til viðbótar, en þá fór tonnið af gasolíu upp undir 400 dollara. Síðan hefur verðið nokkuð lækkað aftur og um þessar mundir kostar tonnið af gasolíu um það bil 230 dollara.

Þessa dagana hafa farið fram umræður um verð á olíu og bensíni. Tilefni þess er sú hækkunarbeiðni sem liggur fyrir Verðlagsráði frá olíufélögunum. Útreikningar í þessum málum eru allir til í viðskrn., þannig að sú nefnd sem þetta mál fær til meðferðar fær þær upplýsingar allar saman til þess að hún geti vandlega skoðað verðsamsetningu á olíu og bensíni og gert sér grein fyrir þessu máli eins og það liggur fyrir í dag.

Þetta frv., sem ég hér hef mælt fyrir, er flutt til að reyna að ná fram samkeppni á milli þeirra sem flytja inn olíu. Til að tryggja að þeir sem mikið magn kaupa geti fengið hagkvæmari viðskipti, þá tel ég að þetta frv. sé til góðs og geti orðið fyrsti áfangi í því að vinna jákvætt varðandi álagningu á þessari mjög svo umdeildu vöru.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að fjölyrða meir um þetta mál. Ég mun gera ráðstafanir til þess, í samráði við formann þeirrar nefndar sem fær þetta mál til meðferðar, að þeir aðilar sem gerst þekkja komi til viðræðna og þær upplýsingar sem fyrir liggja verði lagðar fram til þess að n. og hv. deildarmenn geti fengið allar þessar upplýsingar.

Ég leyfi mér svo, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.