30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

210. mál, selveiðar við Ísland

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Eins og hér kemur fram í grg. var þetta frv. flutt á síðasta þingi og er flutt að nýju núna óbreytt. Mig langar til að rifja aðeins upp það sem tími vannst til að fjalla um þetta mál á síðasta þingi vegna þess að það hjálpar mönnum kannske til að rifja upp hvar málin stóðu. Það urðu talsverðar umr. um breytingu sem ráðh. eða rn. gerði á frv. frá því sem nefnd, sem skipuð hafði verið til að semja þetta frv., lagði til. Þar var um að ræða breytingar á 3. gr. frv.

Í umræddri nefnd áttu sæti Björn Dagbjartsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Agnar Ingólfsson prófessor, tilnefndur af Náttúruverndarráði, Árni G. Pétursson hlunnindaráðunautur, tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, og Jón B. Jónasson, skrifstofustjóri í sjútvrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði frv.-drögum til rn. Þar var lagt til að 3. gr. frv. hljóðaði svo:

„Til aðstoðar sjútvrn. við stjórn og skipulagningu selveiða skipar ráðh. nefnd til tveggja ára í senn og skal hún skipuð fimm mönnum. Skal einn nm. skipaður skv. tilnefningu Náttúruverndarráðs, einn skv. tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn skv. tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, einn skv. tilnefningu Fiskifélags Íslands en einn án tilnefningar. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi þessara fimm manna. Tillagna nefndarinnar skal leitað vegna setningar reglna og annarra ákvarðana er varða selveiðar og ber nefndinni að gera tillögur til sjútvrn. um hvað eina er hún telur ástæðu til í sambandi við stjórn og skipulagningu selveiða.“

Í frv.-drögum þessarar stjórnskipuðu nefndar var svohljóðandi aths. við 3. gr.:

„Í 3. gr. er gert ráð fyrir stofnun nefndar sem sé rn. til aðstoðar um skipulag og stjórn selveiða. Nefnd þessi er hugsuð þannig að í henni séu aðilar frá samtökum og stofnunum sem selveiðar snerta með mismunandi hætti. Er ljóst að sjútvrn. þyrfti fyrir allar veigameiri ákvarðanir varðandi selveiðar að hafa samráð við þau samtök og stofnanir, sem nefndar eru í þessari grein, og því heppilegast að setja á laggirnar nefnd skipaða fulltrúum þessara aðila þannig að samráð og samstarf allra viðkomandi aðila yrði sem best tryggt. Rn. mundi leita umsagnar nefndar þessarar varðandi ákvarðanir, sem það tæki um selveiðar, og eins mundi nefndin að eigin frumkvæði koma með tillögur og ábendingar um atriði sem að þessum málum lytu.“

Síðan gerist það að í frv. sem sjútvrh. lagði fyrir þingið var gerð breyting á 3. gr. til þess vegar sem er í frv. sem nú liggur fyrir, þ.e. að sjútvrn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórn og skipulagningu selveiða eftir því sem við á hverju sinni: Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands. Þarna er sem sagt gerð nokkuð veigamikil breyting um samráðsskyldu eða þá aðstoð sem ráðh. á að hafa í sambandi við setningu reglugerða og aðrar aðgerðir varðandi þessi lög. Ég tel að það sé ástæða til að veita því athygli.

Nú er ég alls ekki neinn talsmaður þess að settar séu á laggirnar nefndir í öllum tilvikum. Það fer eftir eðli máls hverju sinni hvernig stjórn er skynsamlegt að setja yfir það. Ég held hins vegar að hér sé rangt að staðið. Hér er verið að leita sátta í löngu og stundum ströngu ágreiningsmáli milli fjölmargra aðila í samfélaginu. Við höfum fordæmi fyrir því og kunnugir telja ágæta reynslu af formlegri ráðgjafarnefnd, þar sem um er að ræða ráðgjafarnefnd um fiskveiðistefnu, þ.e. nefnd sem hefur verið ráðh. formlega til ráðuneytis og raunar á ýmsum sviðum haft forgöngu um mótun fiskveiðistefnu sem við þekkjum af undanförnum misserum. Ég tel að í selveiðimálinu sé skynsamlegt að leita þessarar leiðar um samráð og sættir, sem augljóst er af tillögum hinnar stjórnskipuðu nefndar að hugur allra þeirra aðila stóð til, enda kemur í ljós að þessi veigamikla breyting, sem ráðh. hefur gert frá drögum nefndarinnar, fær misjafnar undirtektir. Þegar málið var sent út til umsagnar á síðasta þingi kom umsögn frá Náttúruverndarráði þar sem tekið var þannig til orða, með leyfi forseta:

„Náttúruverndarráð leggur eindregið til að 3. gr. frv. verði færð í fyrra horf og er þá samþykk frv., en nái sú breyting ekki fram að ganga telur ráðið að endurskoða verði ýmsar greinar þess, t.d. 6. og 8. gr.

Það er sömuleiðis gerð athugasemd í umsögn Búnaðarfélags Íslands. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Með því að málefni er varða selveiðar hafa verið undir stjórn landbrn. og athugasemdir hafa ekki verið við það gerðar, þá getur stjórn Búnaðarfélags Íslands ekki fallist á þá breytingu sem 1. gr. frv. fjallar um.“ síðan kemur: „Þá er það álit stjórnarinnar að heppilegra sé að til staðar sé ráðgefandi nefnd sem fjalli um mál er varða selveiðar, svo sem lagt er til í 3. gr. frv. þess er hin stjórnskipaða nefnd samdi.“

Þarna kemur aftur þetta sama sjónarmið frá veigamiklum aðila í þessu máli, aðila sem full ástæða er til að leita sáttar og samstöðu með. Því tel ég að menn eigi að hugsa sig mjög vandlega um varðandi þessa 3. gr.

Í umsögn hringormanefndar, þar sem fjallað er um drög að frv. um selveiðar, er ekki tekin afstaða til 3. gr. Þar er henni lýst á ýmsan hátt og spjallað um hana almennum orðum, en það er ekki tekin afstaða til þessarar veigamiklu breytingar sem gerð er frá drögum hinnar stjórnskipuðu nefndar. Það vekur athygli þar sem formaður hringormanefndar og sá sem undirritar bréfið er raunar einn nefndarmanna úr þessari margumtöluðu nefnd og stendur sem slíkur að þeirri tillögu að formleg samráðsnefnd sé sett á fót.

Af þessum ástæðum og ýmsum fleiri tel ég að það þurfi að skoða þetta mál betur, afla óyggjandi afstöðu t.d. hringormanefndar um þetta veigamikla atriði og freista þess að færa frv. til þess horfs sem hin stjórnskipaða nefnd samþykkti.

Þetta leiðir hugann að ýmsum atriðum öðrum. Þetta leiðir t.d. hugann að því hvar Náttúruverndarráð stendur í raun þegar á döfinni eru átakamál í íslensku samfélagi. Mönnum þykir ágætt að hafa Náttúruverndarráð og minnast þess í hátíðarræðum og 17. júnísamkomum ef verið er að bjarga einhverju eða vernda eitthvað sem ekki er í neinni hættu. En síðan gerist það hverju sinni sem hagsmunir rekast á, að þrátt fyrir löggjöf og reglugerðir á þessu sviði virðist Náttúruverndarráð eiga mjög undir högg að sækja. Sjónarmið Náttúruverndarráðs og sjónarmið náttúruverndar og verndar lífríkisins virðist þrátt fyrir alla góðsemina í hátíðarræðunum eiga mjög undir högg að sækja. Það er spurning, sem menn verða að velta fyrir sér líka í þessu sambandi, hvaða þunga álit Náttúruverndarráðs eigi að hafa í þessu máli. Í Náttúruverndarráði er saman komin umtalsverð þekking í þessum efnum og þar eru þegar túlkuð sjónarmið mjög margra mismunandi aðila þannig að ég held að menn hljóti að taka afstöðu Náttúruverndarráðs mjög sterklega til athugunar.

Ég ætla ekki að gera þetta mál lengra. Það er margt um þetta hægt að segja. Það er hægt að ræða um hvernig staðið hefur verið að þessum málum hingað til og á því hafa menn mismunandi skoðanir. Ég ætla að láta mér nægja að gera þessa athugasemd við frv. sem slíkt en mun síðan eiga aðild að umfjöllun þess í hv. sjútvn. og væntanlega fjalla þá nánar um þetta mál við 2. umr.