30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

211. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli nú fyrir er flutt hér þriðja sinni á Alþingi. Þetta mál er þess vegna þekkt hér og ástæðulaust að hafa um það langa framsöguræðu. Þetta mál hefur þegar hlotið mikinn stuðning samtaka fatlaðra í landinu vegna þess að hér er hreyft stóru réttinda- og hagsmunamáli þeirra.

Frv. felur í sér breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum og er flutt af mér og þm. Guðrúnu Helgadóttur og Steingrími J. Sigfússyni.

Í 1. gr. segir: „Úrskurður tryggingayfirlæknis,“ en frv. fjallar einkum um úrskurði hans og vinnubrögð, „tekur gildi strax og hann liggur fyrir og frá þeim tíma er örorka skapaðist.

Nú er viðkomandi öryrki óánægður með úrskurð tryggingayfirlæknis og getur þá óskað eftir skriflegri greinargerð læknis um forsendur matsins. Þeirri greinargerð ásamt athugasemdum skal öryrkinn síðan vísa skriflega til úrskurðar örorkumatsnefndar.

Í örorkumatsnefnd eiga sæti þrír menn, en auk þeirra skulu tilnefndir þrír varamenn. Þessir skipa fulltrúa í örorkumatsnefnd: 1. Samtök öryrkja tilnefna einn mann. 2. Hæstiréttur tilnefnir einn mann. Hann skal vera læknir og vera formaður matsnefndarinnar. 3. Heilbr.- og trmrn. tilnefnir einn mann. Allir þessir aðilar tilnefna og varamenn auk aðalmanna.

Nefndin skal í störfum sínum taka tillit til sömu þátta og tryggingayfirlæknir við úrskurð örorkumats. Þá skal nefndin einnig taka tillit til félagslegra sjónarmiða við úrskurði sína. Ráðherra setur nánari ákvæði um starfssvið nefndarinnar í reglugerð.“

Nýmæli þau, sem felast í greininni, eru einkum tvö. Í fyrsta lagi það að tryggingayfirlæknir skuli ekki vera einvaldur um úrskurði á örorku. Eins og þetta er nú í lögum um almannatryggingar hefur tryggingayfirlæknir einn alfarið þetta vald og það er ekki hægt að áfrýja úrskurði tryggingayfirlæknis til eins eða neins. Sá öryrki, sem hefur verið metinn af tryggingayfirlækni, við skulum segja, 65% öryrki og er óánægður með matið, getur undir engum kringumstæðum leitað réttar síns nema til endurmats hjá sama tryggingayfirlækni eftir eitt ár.

Hér er um að ræða algerlega óvenjulega málsmeðferð í okkar þjóðfélagi. Þess vegna er það sérkennilega ákvæði í lögum um almannatryggingar að Alþingi skal setja lög um tryggingadómstól. Þetta lagaákvæði hefur aldrei verið framkvæmt. Alþingi hefur ekki sett lög um tryggingadómstól né heldur fjallað um þann möguleika að setja hér upp tryggingadómstól. Af þeim ástæðum er hér lagt til að þegar öryrki er óánægður með úrskurð tryggingayfirlæknis geti hann leitað til örorkumatsnefndar skv. 1. gr. þessa frv. Þetta er í raun nýmæli nr. 1 í þessu frv.

Annað nýmæli er það að gert er ráð fyrir því í frv. að ekki einasta skuli framkvæma læknisfræðilegt mat á ástandi öryrkjans, heldur skuli einnig taka tillit til félagslegra sjónarmiða við úrskurði örorkumatsnefndar.

Hér er um að ræða nýmæli sem er í samræmi við tryggingalöggjöf grannlanda okkar. Í rauninni er það fráleitt miðað við allar venjur í okkar félagslegu þjónustu að takmarka mat á möguleikum öryrkja og fötlun hans einvörðungu við læknisfræðilegt sjónarhorn.

Í grg. með frv., eins og það var á 106. löggjafarþinginu, segir svo, með leyfi forseta:

„Á 105. löggjafarþinginu var flutt stjfrv. sem gerði ráð fyrir því að breyting yrði gerð á ákvæðum almannatrygginga um örorkumat. í frv. var miðað við að örorkumat væri alltaf framkvæmt af örorkumatsnefnd þriggja starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins. Við umr. um málið á Alþingi kom fram að þm. töldu óeðlilegt að láta nefnd annast þetta verk í öllum tilvikum, — eðlilegra væri að setja á laggirnar áfrýjunarnefnd, en úrskurður væri áfram í höndum tryggingayfirlæknis. Þetta frv., sem hér er nú flutt, tekur tillit til þessara sjónarmiða.

Í núgildandi lögum er tryggingayfirlæknir einvaldur um úrskurði örorkumats. Það verður að teljast óeðlilegt fyrirkomulag, annars vegar frá sjónarmiði viðskiptamanna trygginganna og hins vegar frá því sjónarmiði að enginn einn maður getur sem skyldi borið ábyrgð á svo þýðingarmiklum þætti í tryggingakerfinu. Því er hér lagt til að skipuð verði úrskurðarnefnd þriggja manna.“

Þetta mál var upphaflega flutt fyrir þremur þingum og þá sem stjfrv. með stuðningi þáv. aðila að ríkisstj. Í grg. með málinu á því þingi sagði m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxandi óánægju hefur gætt á undanförnum árum með fyrirkomulag og ákvörðun örorkumats hjá Tryggingastofnun ríkisins. Bent hefur verið á ýmsar leiðir til úrbóta, m.a. þá sem hér er lagt til að reynd verði.

Endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar kannaði fyrir nokkrum árum afstöðu yfirmanna stofnunarinnar, þ. á m. flestra deildarstjóra og tryggingayfirlæknis, til þessa atriðis. Meðal þeirra, sem tjáðu sig um þetta, var tryggingayfirlæknir. Taldi hann, eins og allir sem tjáðu sig um fyrirkomulag örorkumats, að eðlilegt væri að taka tillit til fleiri atriða en læknisfræðilegra þegar örorkustig væri ákveðið. Menn virtust almennt séð sammála um að við slíkt mat yrði að taka mið af a.m.k. þremur ákvarðandi atriðum, þ.e.a.s. 1) líkamlegri eða andlegri heilbrigði, 2) tekjuöflunarfærni við óbreytt ástand skv. tölul. 1 og loks 3) félagslegum aðstæðum einstaklinga, þ. á m. fjárhagslegri þörf miðað við fjölskyldubyrði, heimilisástæður o. fl.

Þar eð segir í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971 að tryggingayfirlæknir meti örorku þeirra, sem sæki um örorkubætur er lagabreyting í þá veru, sem hér er lögð til, nauðsynleg eigi að reyna hér nýjar leiðir.“

Frvgr. skýrir sig að öðru leyti sjálf, herra forseti, og ekki þörf á því að setja á um þetta mál langar ræður. En að lokum vil ég segja þetta:

Ég tel að það sé ekkert óeðlilegt við það þó að það þurfi að endurflytja mál einu sinni eða tvisvar hér á hv. Alþingi til þess að þingheimi gefist kostur á því að virða málið fyrir sér og meta allar aðstæður. Ég tel hins vegar að þetta mál sé orðið svo rætt hér á hv. Alþingi, m.a. í hv. heilbr.- og trn., að það sé ástæða til að fara fram á það við nefndina að hún afgreiði málið. Ef nefndin er á móti því fyrirkomulagi sem hér er lagt til á nefndin að leggja til að frv. verði fellt. Ef nefndin vill fara aðra leið í þessu efni á nefndin að gera tillögu um aðra leið. Það er óþarft og óeðlilegt að láta þetta mál liggja óafgreitt á þessu þingi eina ferðina til. Ég skora þess vegna á hv. heilbr.- og trn. að taka afstöðu til þessa atriðis því að það er óþolandi frá sjónarmiði Alþingis, en þó sérstaklega frá sjónarmiði samtaka fatlaðra, að mál af þessu tagi liggi hér óafgreitt þing eftir þing, þriðja þingið í röð. Þessari áskorum minni beini ég til hv. heilbr.- og trn. sem ég legg til að fái málið til meðferðar og að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.