31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þessi þáltill. fær hér í umr. Hér er, eins og fram hefur komið, um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Ég vil vekja athygli á því að þegar lögin um málefni fatlaðra voru til meðferðar hér á hv. Alþingi var einmitt þetta atriði, 16. gr. laganna, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, talið mjög umfangsmikið mál. Það var margt þar sem átti eftir að skoða nánar, þannig að það var sammála álit þm., bæði félmn. og eins Alþingis, að eðlilegt væri að það mál kæmi aftur til meðferðar hér á hv. Alþingi. Þess vegna var ákvæði til bráðabirgða sett í lögin um að skipuð yrði sérstök nefnd til að fjalla um málið og gera tillögur til Alþingis um hvernig að skyldi staðið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara ofan í álit nefndarinnar, tillögur og greinargerð, en vísa til framsöguræðu minnar sem ég flutti hér þegar ég mælti fyrir málinu í des. s.l. Þar koma fram öll meginatriði. Að sjálfsögðu hefur nefndin vissar hugmyndir um í sínum rökstuðningi hvernig hún telur að eigi að standa að þessu, en ég legg áherslu á að það er algerlega á valdi Alþingis hvernig menn vilja skipa þessum málum og þess vegna er það hér til sérstakrar meðferðar.

Hv. 2. landsk. þm. gerði athugasemdir við 1. tölul. þessarar till. að því er varðar samvinnu félmrn. og menntmrn. um að beita sér fyrir því að athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi við Sæbraut á seltjarnarnesi verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Um það mál er það að segja að eðlilegt er að það sé, eins og málið stendur, samvinna um þetta. Það er eðlilegt framhald af því að um leið og málið er komið í höfn færist stjórnun á þessu verkefni til félmrn. Um það er ekki ágreiningur núna milli rn. Hins vegar var dálítill ágreiningur um með hvaða hætti menntmrn. gæti afhent til þessarar starfsemi áfram Kjarvalshúsið sjálft þar sem ákveðnir samningar voru um notkun á því húsi gerðir þegar það var keypt. Það var fyrir listamenn. Þurfti að skoða það nákvæmlega. Ég hef lagt á það áherslu, og ég held að ekki sé ágreiningur um það, að húsið verði áfram leigt undir þessa starfsemi þangað til búið er að fá viðbótarhúsnæði til viðbótar við það sem keypt var við Sæbraut á Seltjarnarnesi því að það er alveg ljóst að uppbygging nýrrar greiningarstöðvar, eins og hér er lagt til, tekur það mörg ár að viðbótarhúsnæðið nægir ekki þegar grannt er skoðað. Því verður að vinna að því að reyna að útvega leiguhúsnæði í viðbót og hefur þegar verið gengið úr skugga um að það mun vera hægt að fá það á þessu sama svæði.

Það var gagnrýnt hér nokkuð að ekki væri hér um nákvæma kostnaðaráætlun að ræða. Kostnaðaráætlun er að vísu til. Miðað við framreikning á þeim áætlunum sem fyrir lágu þegar málið var til meðferðar á Alþingi liggur fyrir að heildarkostnaður verður upp á 102 millj. kr., þ.e. fokhelt hús 30 millj., tilbúið undir tréverk 18.4 millj., lokafrágangur hússins 36.1 millj., lóðarfrágangur 4.4 millj. og laus búnaður 13.1 millj. Hins vegar kom fram í meðferð þingsins, bæði í félmn. og eins á hv. Alþingi, að menn töldu víst að teikningunni sem hér um ræðir þyrfti að breyta því að húsið væri of stórt, eins og oft hefur komið fram, og fyrirkomulagið kannske ekki nógu hentugt. Þetta þarf að athuga. Ég geri ráð fyrir að ekki sé óeðlilegt að ætla að Alþingi muni vilja láta gera á því athugun hvort ekki væri rétt að setja þarna einhver skilyrði um að þetta verði tekið til endurskoðunar. Mér finnst það ekki óeðlilegt.

Það hefur einnig verið komið inn á fjáröflun og ég vil um leið svara hv. 2. þm. Austurl. varðandi afstöðu stjórnarnefndar. Þessi till. var send stjórnarnefnd til umfjöllunar og mér er kunnugt um að nefndin hefur fjallað um till. Hún hefur ekki gert neinar aths. við ráðh. um till. Ég veit ekki til þess að sú stefna sem fram kemur í lögunum um Greiningarstöð ríkisins hafi mætt andstöðu í stjórnarnefnd fatlaðra, enda væri í hæsta máta óeðlilegt ef svo væri.

Eins og Framkvæmdasjóður fatlaðra er uppbyggður er fyrirhugað að fjáröflun til hans standi aðeins í fimm ár. Því er alveg ljóst að þetta verkefni verður Alþingi að fjármagna á fjárlögum. Það er ekkert vafaatriði.

Ég skal ekki segja um það á þessu stigi, ég hef ekki farið grannt ofan í það, hvort um verður að ræða tilflutning að hluta á starfsemi sem nú fer fram á Kópavogshæli þegar starfsemi í Kjarvalshúsi og við Sæbraut verður formlega hafin. Ég skal ekki fullyrða það. Ég held að það þurfi að skoða nánar.

Eins og ég tók fram áðan eru ábendingar um menntun forstöðumanns væntanlegrar greiningarstöðvar, sem komu fram í áliti þessarar nefndar, hennar sjónarmið, en ekki bein túlkun á ákvæði laganna. Ákvæði laganna er skýrt og greinilegt, eins og hv. 2. landsk. þm. las upp, en það er atriði sem þarf að skoða nánar. g vil segja það, ef menn hafa ekki áttað sig á því hvað þetta er mikilvægt mál, að hægt er að vísa til upplýsinga um starfsemi Kjarvalshúss. Ég hygg að of fáir þm. hafi því miður kynnt sér við hvaða skilyrði þar er unnið og hversu þörfin er gífurlega mikil. Ég er með nákvæmar töflur um fjölda þeirra barna sem á hverju ári eru til meðferðar við þessar ófullkomnu aðstæður. T.d. voru á árinu 1981 144 börn í fastri meðferð þar og fjöldi heimsókna var 848, þannig að biðlisti er gífurlega langur. Það er því löngu orðið tímabært að koma þessum málum í viðunandi horf.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr., herra forseti. Ég vil að lokum þakka þann áhuga sem hér kemur fram og legg áherslu á að ég vonast til þess að fyrst Alþingi tók þá ákvörðun að fá þetta mál til frekari umfjöllunar hér og afskipta um leið og lögin voru samþykkt verði tekið í alvöru á þessum málum og reynt að hraða því að þessi þáltill., í aðalatriðum eins og hún er lögð fram, verði samþykkt sem allra fyrst. Það er alveg ótækt að það verði ekki gert á yfirstandandi þingi.