22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Við höfum nú í höndum enn eitt þskj. sem á að stuðla að bættri stöðu kvenna og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum, eins og segir í 1. gr. frv.

Ég kveð mér hljóðs af tvennu. Annars vegar vil ég eindregið taka undir þá skoðun hæstv. félmrh. að hin svokallaða jákvæða mismunun sé ekki æskileg og ekki líkleg til framdráttar jafnrétti karla og kvenna. Ég tel að hin jákvæða mismunun geti einmitt verið mjög neikvæð fyrir jafnrétti karla og kvenna. Hún getur leitt til þess að kona sé sett í starf einungis vegna þess að hún er kona en ekki vegna hæfni hennar að öðru leyti til starfsins. Það sem vitanlega verður fyrst og fremst til að bæta stöðu kvenna í þjóðfélaginu er að þeim sé gert kleift að sinna því starfi sem hugur stendur til og þá vissulega hvort heldur þær velja það sem kallað hefur verið kvennastarf eða hasla sér völl á þeim vettvangi þar sem karlmenn eru í meiri hluta. Það sem máli skiptir er hæfni hvers einstaklings og frelsi hans til að velja sér starfsvettvang. Það eitt getur leitt til jafnréttis.

Þá er spurning: Hvernig á svo að tryggja þessa möguleika? Með stjórnvaldsaðgerðum, segir í þessu lagafrv. Vissulega eru mörg lagaákvæði sem eiga að tryggja þessa möguleika og vinna gegn mismunun milli karla og kvenna. Það er alveg rétt, því miður, að því er ég tel, að fjöldi starfa, sem að meiri hluta til eru skipuð konum, hefur oft verið vanmetinn og er að mörgu leyti vanmetinn. Þetta hygg ég að sé af þeim ástæðum, sem oft hafa komið fram í máli kvenna hér á Alþingi, hinum mörgu hefðbundnu ástæðum sem hafa áhrif á aðstöðu kvenna. Ég hygg að með þessari löggjöf og með ákvæðinu um menntun, sem tekur mið af þessari aðstöðu og sem tekur mið af jafnréttinu, sé einmitt stuðlað að því að breyta þessu, einmitt stuðlað að því að ýmis þau störf sem nú eru kvennastörf vegna þess að konur eru þar í meiri hluta og ýmis þau störf sem konur hafa jafnan sinnt körlum fremur vegna hins eðlilega hlutverks síns verði hér eftir metin sambærileg ýmsum öðrum störfum sem karlastörf eru án þess að þau séu sömu störfin. Þess vegna er áherslan á það í 4. gr. frv., þar sem talað er um jafnverðmæt og sambærileg störf, að kvennastörfin séu ekki lægra metin en karlastörfin.

Að því er varðar 10. gr. frv., um menntun, sé ég ástæðu til að gera eina athugasemd. Í 2. málsgr. 10. gr. í frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við náms- og starfsfræðslu í skólum skal leitast við að breyta hinu venjubundna starfs- og námsvali kvenna og karla til samræmis við tilgang laga þessara.“

Ég er ekki viss um að allt sé fengið með þessu því það er engin ástæða til þess að vinna gegn því ef stúlka vill velja sér hjúkrunarfræði sem námsgrein og hjúkrun sem starfsgrein. Ég sé ekki að það sé ástæða til að vinna endilega gegn því og beina henni til náms í járnsmíði einungis vegna þess að svo fáar konur eru járnsmiðir. Fleiri svipuð dæmi mætti taka. Aðalatriðið er að skilningur sé á báða bóga á mikilvægi þessara starfa og ef áhugi og hæfni stendur til hamli það ekki vali á starfsgrein að viðkomandi sé kona eða þá karlmaður, ef hann vildi snúa sér að hjúkrun eða einhverju öðru starfi sem aðallega hefur verið sinnt af konum, þá verði það honum ekki að fótakefli að hann sé karlkyns.

Það er hins vegar annað atriði sem ég tel mjög mikilvægt í sambandi við menntun barna og unglinga og ég held að stuðli, þegar til lengdar lætur, að jafnrétti kynjanna. Það er menntun á því sviði sem fyrst og fremst varðar fjölskylduna, líf hennar og starf á heimilinu. Á þessu sviði held ég að séu mjög miklir möguleikar til að efla sameiginlegan og gagnkvæman skilning stúlkna og pilta á þann veg að leiði til þess að auðveldara sé um vik fyrir konur að sinna störfum sem þær hafa e.t.v. ekki í svo ríkum mæli gert áður og slíkt stuðli að því, eins og hv. þm. Kvennalistans segja, að það verði ekki forsendur karla einar sem ráði á vinnumarkaðinum.

Mér finnst stundum sumt af þessu með forsendurnar hjá þeim svolítið torskilið, en hvað um það. Vissulega er það rétt að karlarnir hafa ráðið miklu meira um það hvernig vinnutíma og aðstöðu á vinnumarkaði hefur verið hagað og vissulega hefur það orðið konum oft og tíðum fjötur um fót. Vinnutími í þjóðfélaginu, tími sem varið er til félagsstarfa og fleira mætti til tína hefur gert konum erfiðara um vik að taka þátt í margvíslegum störfum.

Ég hygg að mikilvægasta atriðið í öllu skólastarfinu í þessu sambandi sé að veita drengjunum meiri menntun á sviði heimilisfræða, á sviði fjölskyldufræða, um fjölskyldulíf, um umönnun barna, til þess að auka einmitt þennan skilning á báða bóga. Þetta hefur verið aukið á síðustu árum og um nægilega langt skeið til þess að þeir sem eru nú ungir heimilisfeður hafa fengið allt annars konar menntun að þessu leyti en næsta kynslóð þar á undan. Við sjáum þess stað nú að það er miklu algengara nú á dögum að karlar og konur séu samhent í heimilishaldi og skiptist þar á verkefnum og störfum. Það er eitt af því sem stuðlar að því sem þessum lögum er ætlað. Án slíks hugarfars, sem fæst með uppeldi og menntun, ná lög sem þessi vitanlega ekki tilgangi sínum.

Þessi þáttur mála hefur mjög verið til umfjöllunar í menntmrn. og það er með þetta í huga ekki síst sem að því hefur verið horfið að auka kennslu í heimilisfræðum í grunnskólunum. Það var í framhaldi af tillögugerð hv. núverandi forseta Ed. á sínum tíma sem unnið var að því máli og einmitt með það atriði í huga að stuðla að skilningi allra heimilismanna á þörfum heimilisins og hvernig karlar og konur geta unnið saman að þörfum fjölskyldunnar utan heimilis sem innan.

Ég sá ástæðu til þess, herra forseti, að taka þetta fram hér vegna þess að kvennalið þess þingflokks sem ég er í er nú of fámennt. Það viðhorf, sem ég hef hér lýst í sambandi við jákvæða mismunun, er viðhorf kvenna í sjálfstfl. upp til hópa. Við teljum að konum væri nokkur vanvirða sýnd með því að setja sérstök lagaákvæði um að þær skuli skipaðar í tiltekin störf vegna þess eins að þær séu konur. Við erum þeirrar skoðunar að bæði konur og karlar komi jafnt til greina við skipun í störf, eftir hæfni og þekkingu, og það sé það sem eigi að leggja til grundvallar. Við teljum að það sé frelsi einstaklinganna og möguleikar til þess að velja sér störf eftir hæfni og þekkingu sem ráði jafnréttinu.

Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða til að ég fjölyrði meira um þetta frv., sem er stjfrv. og á sviði annars hæstv. ráðh., en þessi atriði vildi ég taka fram.