31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Já, mönnum liggur mikið á að koma skoðunum sínum á framfæri og viðra þær. Hv. 4. landsk. þm. tekur hér til máls utan dagskrár, eins og hann sjálfur sagði, í tilefni af bréfi iðnrh. til Kísiliðju. Í hans sporum hefði ég gengið úr skugga um að viðtakandi bréfsins hefði verið búinn að fá það í hendur áður en ég mætti með það á hinu háa Alþingi til þess að kunngjöra innihald þess. En Náttúruverndarráði eða mönnum úr því má hafa verið það kunnugt að þótt ég teldi ástæðu til að senda þeim afrit af þessu bréfi var viðtakandi ekki búinn að fá það í hendur þar sem samgöngur eru ekki svo greiðar að bréf, sem undirritað er í eftirmiðdag í iðnrn., hafi borist til Mývatns um þetta leyti í dag. En það hefur hver fyrir sig smekk að þessu leyti. Og vík ég nú að því seinna, sérstaklega ef náttúruverndarráðsmenn eiga uppistöðuna í frétt sem birtist á 2. síðu Þjóðviljans í dag, og ætla við það að una, eins og hún er gerð úr garði.

Ég ætla, vegna þess að það er höfuðatriði þessa máls sem nú hefur verið drepið á í fsp. hv. þm., að fara lauslega yfir lagaleg atriði sem snúa að útgáfu námuleyfisins til Kísiliðjunnar. Ég vil aðeins geta þess að ýmislegt af því, sem hv. þm. vitnaði til, í leyfisveitingunni og ákvæðum hennar hefði hann getað tekið til umr. miklu fyrr þar sem þetta er nákvæmlega tekið upp eftir því leyfi sem gefið var út fyrir 20 árum síðan eða nærfellt það.

Þá er það fyrst að um stjórnskipulegt forræði við útgáfu námuleyfis fer skv. lögum nr. 80 frá 15. ágúst 1966, um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn, sbr. og námulög nr. 34 frá 17. apríl 1973. Í 1. gr. laganna nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðjuna segir m.a.:

Ríkisstj. skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju við Mývatn til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju Mývatns.“

Í 9. gr. laganna segir m.a. svo: „Ríkisstj. skal heimilt að veita framleiðslufélagi skv. 1. gr. þau leyfi sem nauðsynleg eru til starfsemi þess hér á landi varðandi framleiðslu og sölu á kísilgúr.“

Með heimild í ofangreindum lögum veitti iðnrh. hinn 13. ágúst 1966 Kísiliðjunni hf. námuleyfi til 20 ára. Skv. lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73 28. maí 1969 og reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96 frá 31. des. 1969, 8. gr., fer iðnrh. með mál er varða námur og námarekstur. Skv. 10. gr. námulaga er iðnrh. rétt að veita sérleyfi til vinnslu jarðefna hér á landi.

Í öðru lagi um náttúruverndarsjónarmið. Bæði námulög og lögin um kísilgúrverksmiðju kveða á um varúðarráðstafanir vegna námurekstursins. T.d. segir m.a. svo í 10. gr. laga nr. 80 frá 15. ágúst 1966 um kísilgúrverksmiðjuna:

„Framleiðslufélagið skal gera allar þær varúðar- og öryggisráðstafanir sem við verður komið til þess að koma í veg fyrir að dýralíf og gróður við Mývatn bíði tjón af starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar.“

Þegar umsókn Kísiliðjunnar hf. um framlengingu námuleyfisins barst rn. var umsóknin því send Náttúruverndarráði til umsagnar. Og það er það sem um er að tefla, umsagnarrétt Náttúruverndarráðs. Umsögn ráðsins barst rn. 18. des. 1984. Í framhaldi af því hafa farið fram viðræður milli rn. og fulltrúa ráðsins um málið. Hefur sú skoðun verið sett fram að Náttúruverndarráð hafi með heimild í lögum nr. 36 frá 2. maí 1974, um verndun Mývatns og Laxár, íhlutunarrétt um útgáfu námuleyfis til Kísiliðjunnar hf. Sú lagagrein, sem ráðið vitnar til, er 3. gr. laganna, en þar segir svo orðrétt:

„Á landsvæði því er um getur í 2. gr. (Skútustaðahreppur og Laxá) er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til.“

Ekki verður hér af mér höfð uppi skoðun um hversu ríkur réttur ráðsins er skv. lagagrein þessari. Útgáfa námuleyfis breytir hins vegar ekki þeim rétti ráðsins hver svo sem hann kann að vera. Eftirlit með svæðinu og þá sérstaklega nýrri mannvirkjagerð er óskylt þeirri stjórnvaldsathöfn að framlengja námuleyfi verksmiðjunnar.

Þá er rétt að minna á að lögin um verndun Mývatns og Laxár voru sett m.a. skv. samningi dags. 18. og 19. maí 1973, um lausn Laxárdeilunnar alkunnu, þar sem ríkisstj. skuldbatt sig til að beita sér fyrir sérstakri löggjöf um verndun Mývatns- og Laxársvæðisins. Lög þessi eru tilkomin vegna virkjunardeilunnar, en ekki sérstaklega vegna starfrækslu Kísiliðjunnar sem var hafin löngu fyrr. Hafa ber í huga að ágreiningur um valdsvið vegna mannvirkjagerðar og jarðrasks á svæðinu sjálfu rís ef Náttúruverndarráð telur ástæðu til að hafa áhrif á einhverjar framkvæmdir Kísiliðjunnar og er slíkur ágreiningur rn. og útgáfu námuleyfisins ekki beint viðkomandi.

Rétt er að geta þess að sett hefur verið fram sú skoðun að ákvæði laganna frá 1974 um verndun Laxár taki einvörðungu til nýrra framkvæmda á svæðinu og að ef löggjafinn hafi ætlað að skerða starfsheimildir Kísiliðjunnar með þeim lögum hefði átt að gera það með berum orðum. En í lögum frá 1974 eru ekki ákvæði er beinlínis taka til starfrækslu Kísiliðjunnar.

Hér túlkaði hv. 4. landsk. þm. þessi lög fram og aftur og er lítið upp úr því leggjandi. En það kom fram hjá honum í áliti sem hann las upp eftir prófessor Gauki Jörundssyni að honum þykja ákvæðin um valdsvið og valdsrétt Náttúruverndarráðs ekki skýrari en svo að hann mælir með því að tekin verði með sérstökum lögum af tvímæli um það efni. Að hafa hér á orði valdníðslu af minni hálfu þegar ég er að gegna skylduverkum mínum er orðaval sem ekki er samboðið löggjafarmönnum.

Lögin frá 1974 eru ekki sett til þess að ganga lengra vegna Kísiliðjunnar. Þetta er misskilningur hv. þm. eða fóður sem honum hefur verið gefið inn af öðrum mönnum, því af öllum fullyrðingum í þessu sambandi virtist mér að hans eigin dómgreind hefði lítið komist að málinu, heldur hafi hann verið mataður og þá líklega fram á nótt á þeim fullyrðingum sem hann hafði hér í frammi, því að það nýtt hlýtur málið að vera fyrir honum að hann hafi a.m.k. ekki fengið þetta ljósrit af bréfi til Kísiliðjunnar fyrr en að áliðnum degi í gær.

En hvað er það svo sem ég hef aðhafst í þessu máli? Það kom fram hjá hv. þm., sem vitanlegt er, að skv. lögum frá 1974 á að stofna og var stofnuð sérstök rannsóknarstöð við Mývatn. En það er líka vitanlegt og af honum játað og hann hefur verið um það upplýstur að sú rannsóknarstofnun hefur lítt enn náð vopnum sínum fyrir fjársvelti. Fyrir því er það sem skortir allar grundvallarrannsóknir sem skera úr um það hvort starfsemi Kísiliðjunnar verður lífríki Mývatns til tjóns eða ekki.

En hvað er það sem ég geri nú með valdníðslu minni nú sem svo er kölluð? Ég hef lagt drög — og raunar meira en drög, ég má fullyrða að sú ráðstöfun er fullgild — að fjárveitingum til þess að framkvæma þær grundvallarrannsóknir sem þarna skortir. Og það er höfuðatriði málsins, að ég veiti Kísiliðjunni starfsleyfið með fyrirvara um að leiði þessar rannsóknir í ljós að starfrækslan verði til tjóns lífríki Mývatns þá verði leyfið endurskoðað. Þetta leyfi þarf þess vegna ekki að standa nema í þrjú ár ef þau ár eru nægjanlega langur tími til þess að niðurstöður fáist sem byggjandi verður á um áhrif kísilgúrnámsins. Og þá, þegar þannig hefur verið staðið að málum, mætti e.t.v. ræða um valdníðslu.

Ég hef fengið samþykki hæstv. fjmrh. fyrir því að því gjaldi sem horfið hefur í ríkissjóð vegna efnistökunnar verði varið til rannsóknarinnar. Þetta hefur verið 1 dollar á tonn og námið hefur numið 25–27 þús. tonnum árlega. Hér er því um rúmlega millj. kr. að tefla á ári. Kísiliðjunni hefur verið gert og hún hefur enda samþykkt að leggja fram jafnháa fjárhæð. Þetta er þess vegna gengistryggt og fjárframlagið er milli 180 og 190 þús. kr. á mánuði til þessarar rannsóknar. Þetta framlag er ekki tímabundið. Eins og þetta leyfi er gefið út gildir þetta ef leyfið stendur í 15 ár vegna þess að ég hef sjálfur mjög mikinn áhuga á því að víðtækar grundvallarrannsóknir fari fram á þessum einstæða dýrðarstað sem Mývatn er. Og þó að ég vegna fjárveitingarinnar setji upp verkefnisstjórn, sem gætir þess að fyrst verði og þegar í stað rannsakað sem kostur er áhrif kísilgúrnámsins sjálfs, þá hef ég ekki hugsað mér að takmarka rannsóknina við það. Ef t.d. þær leiða í ljós að óhætt er að halda náminu áfram yrði fjármagninu áfram veitt til annarra verðmætra rannsókna á þessu svæði sem skammarlega hefur verið svelt af fjárveitingarvaldinu fram á þennan dag.

Ég hefi ákveðið að þetta verkefni verði falið rannsóknastöðinni við Mývatn, en vegna þess að hér er um fjárveitingar á vegum rn. að tefla, að sett verði verkefnisstjórn sem stýri verkefninu. Ég hefi þá ánægju að upplýsa að svo heppinn var ég að ná sambandi við Pétur N. Jónasson og hann tók að sér að veita þessari verkefnisstjórn forustu. Formaður Pétur N. Jónasson gerði rannsóknir á Mývatni og gaf mér dýrmæta bók, Lake Mývatn, á sínum tíma. Hann hefur fallist á vegna fyrri samskipta okkar og vegna þess að ég hef stutt hann með fjárframlögum víða að til rannsókna á Þingvallavatni þá kvaðst hann ekki geta undan því vikist að taka þetta verkefni að sér. Síðan er honum veitt heimild til þess að tilnefna einn fulltrúa Skútustaðahrepps og ég verð nú að segja að það skýtur skökku við ef það er að mistaka sig á tilnefningarrétti að tilnefna sjálfa sveitarstjórnina og það á að heita að ég sé með því að ganga fram hjá landeigendum við vatnið. Þá er Kísiliðjunni, sem beinum aðila að þessu efni, gefinn kostur á tilnefningu og síðan Náttúruverndarráði.

Ég vísa á bug allri gagnrýni um skipan þessarar verkefnisstjórnar og ég er sannfærður um að Pétur Jónasson mun sjá vel fyrir forustu á þessu í góðri samvinnu við rannsóknastofnunina. Og mér er nær að halda að Pétur Jónasson hafi í sínu starfi gætt þess betur að hafa samband og samráð við íbúa þessa svæðis en þeir nýju menn sem hafa fengist við málamyndarannsóknir þar um langa hríð. Ég mun leggja mig í líma um það að ná góðu samkomulagi við heimamenn um þetta mál, hef ekki haft tök á því enn sem komið er en unnið þannig að málum að menn gætu vel við unað. Fyrirvarinn er það strangur að ef í ljós kemur að áhrifin af starfrækslunni reynast hættuleg lífríki þessa svæðis þá verður leyfið þegar í stað tekið til endurskoðunar.

En ég bið menn að því að gá að vegna starfrækslu þessa fyrirtækis er nauðsynlegt vegna ráðstafana, sem það þarf að gera, að það sé a.m.k. viðmiðunin að það geti fengið starfsleyfi til lengri tíma, enda þótt það verði að vera við því búið að það verði stöðvað þegar í stað ef rannsóknir leiða til annarrar niðurstöðu.

Náttúruverndarráð sendi sína umsögn og mælti með fimm ára námuleyfi til ársins 1993 og tekur fram að það geti ekki mælt með lengri framlengingu, í fyrsta lagi vegna þess að sýnt þykir að kísilgúrvinnslan hafi veruleg áhrif á lífríki vatnsins. Vegna þess, segja vísindamennirnir í Náttúruverndarráði, sem við skulum nú vona að hafi forustuna þar þótt leikmenn séu þar í bland, að sýnt þykir að kísilgúrvinnslan hafi verulega áhrif á lífríki í vatninu. Það skortir nefnilega allar rannsóknir til þess að hægt sé að hafa slíka og þvílíka fullyrðingu í frammi. Og það er sú rannsókn sem ég hefi komið til verks að verður framkvæmd.

Í öðru lagi, taka þeir fram, vegna mikilvægis Mývatns í náttúru landsins og Evrópu. Að sjálfsögðu liggur mikilvægi vatnsins alveg ljóst fyrir og það er líka þess vegna sem ég hefi haft forgöngu um fjárútvegun til þess að nauðsynlegar rannsóknir færu fram.

Í þriðja lagi, segja þeir, vegna þess að rannsóknir á Mývatni eru skammt á veg komnar. — Það var og. Þriðja forsenda þeirra strikar að vísu gjörsamlega út hina fyrstu.

Og í fjórða lagi vegna þeirrar alþjóðlegu ábyrgðar á vernd Mývatns sem Íslendingar tóku á sig við undirritun Ramsar-sáttmálans. Þetta er mér vel skiljanlegt. Ég get ekki lagt of þunga áherslu á það að farið verði með fyllstu gát á þessu svæði. Komi þetta í ljós verður allt annað að víkja.

Og hér er spurt um samninga við Manville og hv. þm. Guðmundur Einarsson 4. landsk. þm. spyr: Hafa einhverjir samningar verið gerðir við Manville meðan á viðræðum við Náttúruverndarsamtökin hefur staðið? Þeir hafa tekið illa eftir, Náttúruverndarmenn og starfsmenn þeirra, sem voru hjá mér í gærdag þegar ég skýrði þeim frá framlengingu á aðalsamningnum við Manville. Hann var nefnilega framkvæmdur 1982 og ég á eftir aðeins að minnast á það í sambandi við frétt Þjóðviljans. Þessi samningur var framlengdur af fyrirrennara mínum árið 1982 í tíu ár frá árinu 1986 til 1996. Auðvitað kann að vera að við verðum skaðabótaskyldir ef við verðum að stöðva starfræksluna. Ef að bestu manna yfirsýn komist menn að því að þarna er starfsemi sem er hættuleg lífríki þessa svæðis þá er ekkert um það að tefla að hvorki samningar við Manville eða neitt annað getur hindrað okkur í því að stöðva slíka ósvinnu, ekkert.

En ástæðurnar fyrir þessari framlengingu 1982 á samningi, sem þó rann ekki út fyrr en 13. ágúst 1986, eru þær að eftir náttúruhamfarir þar nyrðra hafði starfræksla verksmiðjunnar gengið afar illa með stórkostlegu tapi. Meðeigandinn vildi gjarnan hverfa frá starfrækslunni og við neyddumst til að kaupa stærri hlut í verksmiðjunni en við áður höfðum haft, taka á okkur meiri ábyrgð hennar vegna. En til þess m.a. að halda áfram samstarfinu við Manville sem er mjög mikilvægur söluaðili afurðarinnar var samningurinn framlengdur árið 1982 af fyrirrennara mínum hv. 5. þm. Austurl., í tíu ár frá árinu 1986 til þess m.a. að fá Manville til áframhaldandi samreksturs fyrirtækisins. Þannig að menn skjóta nú yfir og undir mark í sífellu, enda von þar sem menn hafa ekki lengri námstíma til að setja sig inn í málið en kannske frá því um kvöldmat í gærkvöldi og fram til kl. 3 í dag.

Ég stytti umsóknartíma Kísiliðjunnar úr 20 í 15 ár og m.a. vegna þess að menn vita með vissu að kísilgúrnámið í Ytri-Flóa endist ekki nema í 16–17 ár. Með því að veita leyfi til lengri tíma væri ég e.t.v. að vísa á önnur svæði í landinu, þ. á m. syðri-Flóa, en þar hafa verið ströng mótmæli höfð uppi um að kísilgúrnám yrði framið.

Hér er vitnað í bréf landeigenda og íbúa, 60 manna við Mývatn, og auðvitað ekki sagt frá innihaldi þess. Látið er í það skina og frá því sagt í blaðafréttum að styrjöld sé hótað. En um hvað fjallar svo þetta bréf frá 60 mönnum, konum og körlum, í Mývatnssveit? Ekkert um annað en kísilgúrnám í Syðri-Flóa, um ekkert annað. Engin afstaða er tekin til annars en þess að þeir tilkynna að þeir muni hafa hörð viðbrögð í frammi ef sótt verði út úr Teigasundi í Syðri-Flóa til kísilgúrnáms.

Vegna þess hversu óráðvandlega menn fara með upplýsingar í þessu máli, greinilega í því skyni að efla óvinafagnað, sé ég ástæðu til að lesa þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta. Það er til mín dags. 15. jan. 1985:

„Í tilefni af því að nú standa yfir viðræður milli iðnrn. og Náttúruverndarráðs um endurnýjun námaleyfis til handa Kísiliðjunni við Mývatn vilja undirrituð vara þá aðila, sem þessum málum ráða til lykta, alvarlega við því að haga leyfisveitingunni á þann veg að hún feli í sér möguleika, hvað þá veita þeim heimild til að Kísiliðjan hefji kísilgúrnám í Syðri-Flóa, þ.e. sunnan Teigasunda.“ — En þess má geta að eins og vonandi allir þm. þekkja er Mývatni nærri því skipt í tvennt og Ytri-Flói u.þ.b. 1/5–1/6 af heildarflatarmáli vatnsins.

„Lífríki Mývatns og Laxár er talið einstakt í sinni röð og það á heimsvísu. Sérkenni þess felast ekki síst í því hve vatnið er grunnt og sólarljósið nær að hafa mikil áhrif á lífríki botnsins. Sé Syðri-Flói dýpkaður væru sérkenni þessa lífríkis þurrkuð út.“ — Fullyrðingar auðvitað, óvísindalegar að sjálfsögðu. — “Slíkt má aldrei ske,“ segir áfram í bréfinu.“ Ef koma á til slíkra óhæfuverka munu af því hljótast mikil átök og ófriður sem fleiri munu blanda sér í en aðeins þeir sem búa á Laxár- og Mývatnssvæðinu.“ — Það verður sjálfsagt almennt herútboð í Evrópu. „Við sem skrifum nöfn okkar undir þetta bréf og áreiðanlega fjöldi annarra munum verja Syðri-Flóa fyrir kísilgúrnámi hvað sem það kostar“ — til síðasta manns. — Það voru mín orð.

En eins og menn heyra á þessu bréfi er hér einvörðungu rætt um nýtt kísilgúrnám í Syðri-Flóa en ekkert orð um það kísilgúrnám sem hefur verið framið í Ytri-Flóa og áformað er að halda áfram. Og eins og ég segi, útreikningar sýna að námið muni endast í 16–17 ár og því var það m.a. sem ég stytti umsóttan starfsleyfistíma niður í 15 ár.

Hér voru ýmsar spurningar sem ég hygg að flestum sé svarað. Ég hefi áður upplýst að þetta er stjórnskipulega á mínum vegum og ég þarf þess vegna ekki að leita til hæstv. menntmrh. um leyfi. Ég hefi rætt málið við hæstv. menntmrh. og sýnt honum þær niðurstöður sem ég komst að og hefi ekki fleira um það að segja. Fjmrh. hefur fyrir sitt leyti fallist á að frá 1. júní verði veitt fjármagni til rannsóknanna út árið,'h2 af því sem heilt ár mundi gera. Þetta verður borgað mánaðarlega í staðinn fyrir á einu ári áður eins og gert var vegna námsins.

Ég tel ekki lögin um verndun Laxár og Mývatnssvæðis frá 1974 neitt ómerka löggjöf. Það er út í hött að spyrja með þeim hætti. Ég hef rakið hér í máli mínu hvað ég álít að sé mín lagalega staða í málinu og hef engu sérstöku við það að bæta.

Hér var lesið upp úr leyfisbréfinu og þótti hinum nýja sérfræðingi í þessum málum, hv. 4. landsk. þm., sem ýmis atriði í leyfisbréfinu væru ekki eins og skyldi. En eins og ég segi, flest af því sem hann fetti fingur út í hefði hann getað tekið til umræðu miklu fyrr og með eðlilegri hætti því að það er allt að finna í gamalli leyfisveitingu.

Ég veit að þó að standi þannig á fyrir hæstv. forseta að hann kysi jafnan að hafna því að menn vitni mikið í Þjóðviljann þá fer ég nú samt fram á virðulegt leyfi hans til þess að gera það að þessu sinni. En þar er frétt sem er alveg hörmuleg fyrir blaðamannastéttina í landinu og er dæmi um það hvernig komið er fyrir málefnum þar hjá mörgum hverjum og raunar þessari málafærslu eins og mér sýnist hún ætla að fara af stað. Væri betur að menn á hinu háa Alþingi reyndu heldur að bera klæði á vopnin en að egna til óvinafagnaðar í þessu máli. Ég er hins vegar ekkert hræddur um að til slíks dragi við heimamenn þessa vegna, vegna þess að hér er afgreiðsla málanna með þeim hætti að allir hljóta að fagna því sem hafa vilja augun opin — nema þá þeir sem vilja efna til ófriðar. En hér er í frétt á 2. síðu Þjóðviljans engin einasta setning, að kalla má, sannleikanum samkvæmt og raunar er fréttin í heild gjörsamlega rangfærð. En samt ber hún með sér að hún sé til orðin vegna sambands við fulltrúa úr Náttúruverndarráði. Og eins og ég segi, ég bíð eftir því að sjá viðbrögð þeirra við þessari frétt sem hlýtur að verða til þeirra rakin.

Það segir hér að iðnrh. ætli í málaferli. Hvernig dettur venjulegu fólki, sem eitthvað þekkir til málsins, það í lifandi hug? Af hvaða ástæðu? Mætti ég biðja um að mér yrði nefnd ein ástæða til þess að ég hæfi málaferli á hendur einhverjum í sambandi við þetta mál? Síðan er fljótaskriftin sú að ég hafi veitt kísilgúrverksmiðjunni 10 ára starfsleyfi í gær. Látum það vera. Síðan segir í framhaldi af fyrirsögninni að iðnrh. ætli að láta reyna á þetta mál fyrir dómstólum. Iðnrh. þykist fara nákvæmlega eftir þeim lögum sem í gildi eru. Ef einhver vefengir þau, telur mig misbeita þeim, fara út fyrir mitt valdsvið og telur sig hafa betri rétt — í þessu falli Náttúruverndarráð - þá kann vel að vera að hann kjósi að hefja málsókn á mínar hendur. En að sjálfsögðu hef ég engar ástæður til þess eins og þessar sakir standa.

Hér er sagt að það muni hafa komið fram á fundinum í gær að iðnrh. hafi ekkert ráðfært sig við náttúrufræðinga um þetta mál og virðist lítið sem ekkert vita um þá hlið málsins. Ætlast einhver til þess að ég sé sérfróður um lífríki Mývatns? Það vill þannig til að rannsóknir skortir til þess að ég geti farið til eins eða neins í smiðju um ástæður á þessu svæði. Og það eru þær rannsóknir, sem ég ætla að standa straum af kostnaði við, sem eiga að veita okkur þær upplýsingar.

Hér segir enn, með margföldu leyfi hæstv. forseta: „Aftur á móti hefur hann ráðfært sig við lögfræðinga um lagalega hlið þess“ — þ.e. málsins. Svo segir enn: „Niðurstaða lögfræðinga er sú að náttúruverndarlögin gangi lengra í þessu efni og því geti ráðh. ekki veitt starfsleyfið nema með samþykki Náttúruverndarráðs.“ — Það vill til að það eru þorrablót núna víða þannig að menn geta haft þó þetta með sér á þorrablót og skemmt mönnum ef það skyldi skorta önnur skemmtiatriði. „Stefnir því allt í málaferli,“ segir þar.

Og enn kvað hann: „En nú er svo komið að verksmiðjan verður að fá kísilgúr úr Syðri-Flóanum ef hún á að starfa áfram.“ — Það er nú blaðamennska í lagi, þetta. Nú hefðu þeir sem hann hefur átt viðtal við — sem mér virðist greinilega vera menn á vegum Náttúruverndarráðs eða úr því — átt að vita betur vegna þess að þó hún starfi í öll fimmtán árin þá getur hún sótt sitt hráefni í Ytri-Flóa. Þær rannsóknir liggja alveg óyggjandi fyrir.

Enn segir svo: „Ástæðan fyrir því að iðnrh. er svo umhugað að veita verksmiðjunni tíu ára starfsleyfi er sú að hann hefur gert nýjan samning við Johns Manville, meðeiganda ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn, og er því illa klemmdur.“

Það er ekki í fyrsta skiptið í þessum mánuði t.a.m., janúarmánuði, sem þeim á Þjóðviljanum þykir ástæða til þess að gefa hv. fyrirrennara mínum, hv. 5. þm. Austurl., utan undir. Það hefur nú skeð æ ofan í æ vegna orkumálanna svo rækilega að ef ég hefði haft slíkar dómadagsárásir í frammi á hv. þm. þá hefði eitthvað verið sagt í Þjóðviljanum.

En það vill nú þannig til með þennan samning, sem ég á að vera svona illa klemmdur út af og greinilega brotið af mér, að hann var gerður af fyrirrennara mínum árið 1982 til tíu ára frá því í ágúst 1986 þangað til í ágúst 1996. Það er nú öll klemman sem ég er í að þessu leyti.

Síðan upplýsa þeir um það hér í Þjóðviljanum að það megi búast við því að málið verði tekið fyrir utan dagskrár á Alþingi. En það var seint í gærkvöldi sem hv. 4. landsk. þm. hringdi til mín til þess að biðja mig um að fallast á að þetta yrði tekið fyrir. Svoleiðis að hér eru fréttasamböndin svo sem í góðu lagi.

Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að orðlengja þetta miklu meira nú, enda orðið ærið langt. En ég vona og bið og segi að menn athugi betur sinn gang í máli, sem annars gæti verið mjög viðkvæmt, áður en menn láta senda sig í svona ferðir eins og hv. 4. landsk. þm. hefur látið senda sig í hér, áður en menn gleypa allt hrátt og spúa því svo út yfir hv. þingheim með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er ekki af hinu góða. Ég get hins vegar út af fyrir sig þakkað fyrir það tækifæri sem ég hef fengið til þess að skýra þetta mál. Ég mun kappkosta að fylgja því fram eins og málið er í pottinn búið.

Höfuðatriði málsins er sáraeinfalt. Það er þetta, að veitt er leyfi til 15 ára með fyrirvara, fyrirvaranum sem allt hefur að segja í þessu efni, að rannsóknir fari fram á áhrifum kísilgúrnámsins í Mývatni og ef í ljós kemur að námið hefur ill áhrif á lífríki vatnsins þá gildir ekki leyfið lengur, þá er hægt að endurskoða það. Í för með sér hefur þessi athöfn og þessar ráðagerðir að nú fyrst verða hafnar þær rannsóknir á lífríki vatnsins sem nauðsynlegar eru og ber að standa að en hefur undan dregist að framkvæma.