31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

Umræður utan dagskrár

Vigfús B. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal virða þau tilmæli að vera ekki langorður hér. Ég harma það að sjálfsögðu að leiðir Náttúruverndarráðs og hæstv. iðnrh. skuli hafa skilið í þessu máli. Ég harma það einnig að þetta mál skuli hafa borið þannig að Mývetningum að þar skuli nú standa maður gegn manni. Það er vond sending hverju sveitarfélagi svo að ekki sé meira sagt.

Hingað til lands koma ár hvert hundruð ef ekki þúsundir erlendra ferðamanna fyrst og fremst til þess að líta lífríki Mývatns og Laxár eigin augum. Þessir ferðamenn hafa gefið Mývatni nýtt nafn. Þeir kalla það drottningu hinna íslensku vatna. Og Mývatn er meira en drottning hinna íslensku vatna. Það er drottning gervallra vatna í Norður-Evrópu hvað lífríki snertir.

Menn þurfa ekkert að undra sig á því þó að bændur í Mývatnssveit séu hræddir um þessa drottningu og vilji ekki láta lífláta hana. Það þarf enginn að undra sig á því því að auk hins sérstaka lífríkis, sem verður auðvitað ekki metið til peninga, hefur Mývatn verið nokkurs konar matmóðir Mývetninga í harðri lífsbaráttu liðinna alda. Og hið mannlega er það að þegar menn lifa á brjóstum hinnar íslensku náttúru, þá hafa þeir sterkar taugar til hennar. Það þarf enginn að undrast á Mývetningum.

Ég skal ekki hafa uppi neinar fullyrðingar um hvað veldur þeim þverbresti sem orðinn er í lífríki Mývatns. Það hefur auðvitað skeð ýmislegt við Mývatn í fyrri Mývatnseldum um 1730 og ég fagna því að nú skuli eiga að fara fram rannsóknir til að skera úr því hvað veldur. Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega að til þessara rannsókna þarf að vanda vel og til þess ætla ég að treysta hæstv. iðnrh. því að ég trúi því engan veginn að hann sitji á fjörráðum við lífríki Mývatns. Það held ég að sé ekki rétt.

Leiði þessar rannsóknir það í ljós að lífríki Mývatns stafi hætta af Kísiliðjunni, þá er það alveg skýrt í mínum huga að það er Kísiliðjan sem á að víkja en ekki lífríkið. Auðvitað er Kísiliðjan ágætis fyrirtæki og hún malaði gull, það er alveg rétt, en við skulum minnast þess nú, og það er ágætt að þetta mál minni á það, að hún er ekkert eilífðarfyrirtæki einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki ótæmandi efni af að taka. Og það er mjög nauðsynlegt, held ég, á þessu stigi málsins að draga það ekki lengi að reyna að gera sér grein fyrir hversu langa framtíð þessi verksmiðja á fyrir höndum. Það er ekki gott ef hún hryndi allt í einu eins og ef kæmi þruma úr heiðskíru lofti. Auðvitað skapast vandamál þegar svona atvinnutæki hverfur úr atvinnulífinu. Það þarf að nota tímann til þess að leysa það vandamál sem eðlilega hlýtur að skapast þegar hún leggst niður. Það þarf að skaffa fólkinu eitthvað annað að gera.

En það er auðvitað fleira gert í Mývatnssveit og fleira hægt að gera en að búa til kísilgúr. Ég hef það fyrir satt að fyrir þremur árum hafi 160 manns haft atvinnu af ferðamannaþjónustunni í Mývatnssveit á ferðamannatímanum. Það er ekkert lítið. Þetta er vaxandi atvinnugrein. Og ef okkur tekst að varðveita lífríki Mývatns, þá skulum við gá að því að við höfum ferðamennina um aldur og ævi, en við höfum ekki verksmiðjuna um aldur og ævi, þó að hún kynni að vera hagstæð í peningaleysinu, en ég vil nú ekki gera peningana að máli í þessu. Ferðamennina höfum við um aldur og ævi ef þetta lífríki fær að vera óskemmt og varðveitt í sinni upphaflegu mynd. En við skulum ekki gleyma því að Kísiliðjan er ekki eilífðarfyrirbæri. Og ég vil undirstrika að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvað hún verður gömul. Fólk verður að fá að vita það. Þá getur það brugðist við vandanum.

Landeigendafélag Laxár og Mývatns er félagsskapur landeigenda á þessu svæði og það er stofnað sérstaklega til þess að vernda þessa sérstæðu náttúru í sinni upphaflegu mynd svo sem við verður komið. Auðvitað verðum við að lifa í þessu landi. Við getum eigi að síður umgengist náttúru þess með fullri varúð.

Ég er formaður þessa félagsskapar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns, og hef þess vegna sérstaka skyldu við fólkið sem þarna býr og við lífríki Mývatns. En ég vil að lokum minna á að við sem hér erum erum öll börn þessa lands og þar af leiðandi höfum við öll skyldur við íslenska náttúru.