31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

Umræður utan dagskrár

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Þessa umr. ber að með mjög skyndilegum hætti. Þegar ég kom hér í þingsali áðan vissi ég ekkert að þetta stæði til. Ég veit ekki hvað vakir fyrir hv. málshefjanda. Það er sjálfsagt svo að það eru öll meðul leyfileg til að vekja á sér athygli og ekki verra þá að aðrir séu því óviðbúnir.

Ég stend hér upp til þess að segja frá því að ég er, ef aðrir vita það ekki, fæddur og uppalinn á vatnsbökkum Mývatns. Ég hef frá upphafi fylgst með Kísiliðjunni, stofnun þess fyrirtækis og starfrækslu. Ég varð tortrygginn í fyrstu, ég viðurkenni það. Það þyrmdi yfir mig í fyrsta sinn sem ég kom upp í Námaskarð eftir að hafa verið erlendis og Kísiliðjan var risin. Hún er Ijótt fyrirtæki. Það er slæmt að hv. arkitekt okkar, þm. Stefán Benediktsson, skuli ekki vera hér því að þetta eru ljótar byggingar og það hefði vissulega mátt gera mikið betur í hönnun, rykmengunarvörnum og þess háttar við byggingu verksmiðjunnar.

Það er þarflaust að rekja aðdraganda þessa máls. Það hefur hæstv. ráðh. gert. Ég styð ákvörðun ráðh. eindregið í þessu máli og hef lagt mig töluvert fram um það núna eftir áramót að kynna mér það. Ég hefði að sjálfsögðu viljað lesa þessar lagagreinar og hefði gert það ef ég hefði haft tíma til þess áður en fundur hófst.

Ég fylgdist mjög vel með málaferlum sem stóðu út af botni Mývatns. Það er nefnilega ekki ljóst hver á botna vatna þó að vitað sé hverjir eigi landið. Þar kom í ljós í dómi Hæstaréttar að landeigendur áttu ekkert í botninum. Þó að ég sé ekki nema í meðallagi lögfróður maður hefði ég gaman af að vita hvernig er með rétt Náttúruverndarráðs á botnum vatna og sjávarbotnum. Ég veit það ekki. Sjálfsagt eru hér mér aðrir fróðari um það.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson talaði mikið um náttúru Mývatns. Ég þarf ekki að láta hann lýsa henni fyrir mér. Ég veit um fuglafæð í Ytri-Flóa. Ég veit að fuglum fækkaði þar mjög mikið áður en Kísiliðjan hóf starfsemi. Þeim fækkaði fyrst og fremst vegna komu minksins í Slútnes. Eins og vitað er er minkurinn sérstakt verndardýr Náttúruverndarráðs. Það var ekki af því að vatnið dýpkaði. Eins vildi ég vekja athygli þeirra hv. þm. sem tala um að skafa botn á því hvað er þarna um að ræða. Það er 7–10 metra gúrdýpi sums staðar. Hvergi er nú dýpra held ég að ég megi segja, en hugsanlega 8 m þegar nýlega er búið að dæla, og það fyllist mjög fljótt, 8–9 m kannske, eða 10 m djúpar gjár. Allir vita að við náttúruhamfarirnar reis botninn á Ytri-Flóanum mjög skarpt. Hann reis um líklega 40–50 cm á tímabili og það svo að nú er ekki bátgengt í Slútnes lengur, þannig að Ytri-Flói hefði þá ekki lengur verið það vatn sem nú er umdeilt a.m.k.

Minnst var hér á svokallaða Ramsar-samþykkt. Einhvern tíma las ég þessa dæmalausu samþykkt. Ramsar mun vera, held ég, staður í Persíu sem UNESCO hélt fund á. Ef ég man rétt er það sem stendur upp úr í þessari samþykkt tilefni til þess að UNESCO geti haldið marga fundi og ráðstefnur sem víðast. Það er ákaflega loðið, ef ég man rétt, hvaða skyldur lönd hafa sem skrifa undir þetta samkomulag. Mér þykir leitt að geta ekki haft tíma til að ná mér í þetta plagg því að einhvers staðar á ég það. Svo mikið er víst að Mývatn var tilnefnt sem eitt af þeim svæðum sem Íslendingar ætluðu að sjá til að ekki yrði eyðilagt, ekki yrði eytt og væri skjól fyrir vatnafugla sem fljúga á milli landa. Það held ég að hafi verið inntakið. En hvort Íslendingar hafa gert eitthvað til þess að uppfylla þessar skyldur sínar veit ég ekki til.

Ég sagði áðan að ég styddi þessar rannsóknir og ég styddi tillögur hæstv. ráðh. Ég styð þær ekki síst vegna þess að nú er í fyrsta sinn tryggt að fram fari rannsóknir á þessu svæði, þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru, ekki aðeins til þess að athuga hvort óhætt er að nema kísilgúr úr vatninu heldur einnig til þess að rannsaka ýmislegt annað sem ekki hefur verið skýrt enn þá, fyrir mér a.m.k., í náttúru vatnsins.

Það kom hér fram að dr. Pétur Jónasson hefur verið beðinn að veita forstöðu þeirri nefnd sem um þessar rannsóknir á að fjalla. Ég fagna því alveg sérstaklega. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi fyrir nokkrum árum að stunda nokkuð í sjálfboðaliðavinnu sýnatöku og fleira fyrir dr. Pétur meðan hann vann að þessum rannsóknum og m.a. vann bróðir minn að þeim og fleiri úr fjölskyldunni. Ég veit það vel að honum er vel treystandi til þess að vinna þar vel, samviskusamlega og vísindalega og án allra fordóma. Síðan hafa nokkrir gæðingar Háskólans verið þarna í sumarfríum sínum í kofa Náttúruverndarstöðvarinnar við Rif og sinnt sínum hugðarefnum án alls yfirlits og án nokkurs skipulags, hvort sem það hefur verið kúluskítur eða ástalíf húsanda. Það fer bara eftir smekk þeirra. Það hefur ekki verið neinn heildarsvipur á þeim rannsóknum. Nú koma þessir menn og telja sig geta bent á að lífríkinu stafi hætta af einu eða öðru. Þeir vita ekkert um það. Þetta er þessi gamla tilhneiging að nota stimpilinn og segja já eða nei.

Að lokum vildi ég segja þetta: Undirskriftasöfnun í tiltölulega litlu sveitarfélagi er alvarlegt mál. Þarna er þó 600 manna byggð og ég veit ekki hvort menn meta 60 manns mikið eða lítið. Það var vitnað hér af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur í meiri hluta landeigenda. Hver veit það? Það var enginn fundur boðaður. Það er í mesta lagi meiri hluti stjórnar sem skrifaði undir þetta. Enginn fundur var boðaður í Landeigendafélagi Mývatns og Laxár. Það veit ég fullvel. Og ég veit það fullvel að þeir sem skrifa á þennan lista eru ekki meiri hluti landeigenda við Mývatn, það er fráleitt.

Svona undirskriftasöfnun skilur eftir sár, sár sem er alger óþarfi að vera að ýfa upp. Þau gróa ekki fyrr fyrir það. Fyrir mér er aðalatriðið að það verða nú hafnar öflugar og skipulegar rannsóknir á þessu svæði. Ég er sannfærður um að áhrif Kísiliðjunnar eru ekki síður til góðs en til ills. Það kemur þá annað í ljós. Það er fráleitt að nokkur vilji tefla framtíð lífríkis Mývatns í hættu. Ég frábið mér þann áburð a.m.k.

Ég vona að hv. þm. Guðmundur Einarsson hafi með þessu friðþægt sínum yfirmönnum við líffræðideild Háskóla Íslands- en Mývatnssveit, hvorki íbúum þar né náttúru, hefur hann varla gert nokkuð gott með þessu. Það er mitt mat á þeim hlutum.

Herra forseti. Ég gæti þurft að segja fleira. Það var ekki ég sem leyfði þessar umr. Yfirleitt hef ég ekki tafið þingheim mjög mikið á löngum ræðum, en ég vil samt vona að það verði ekki fleiri upphlaup af þessu tagi um þetta mál.