31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það má nú með sanni segja að oft hefur hv. 3. þm. Reykv. ætt á veggina með innihaldslausar og rakalausar upphrópanir, en ég minnist þess tæplega að hafa heyrt viðlíka fjargviðri eins og hann leyfði sér að viðhafa og útúrsnúninga frá upphafi til enda. Það heitir, þegar mönnum er svarað með rökum og ítarlegu máli, eins og ég gerði við fsp. hv. 4. landsk. þm., að svara með skætingi.

Enn fremur var því haldið fram í upphafi máls hv. þm. að ég hefði verið með árásir á fjarstadda þm. Ég hafði engar árásir uppi í garð hv. 5. þm. Austurl., ásakaði hann ekki um eitt né neitt. Ég sagði að ef menn ætluðu að kalla mig til ábyrgðar um gerninginn frá 1982 um framlengingu starfrækslu Kísiliðjunnar til 1996, þá yrði að fara annað og kalla annan til þeirrar ábyrgðar. Ég ásakaði engan, hafði ekki í frammi ásakanir í garð eins eða neins vegna þess gernings. En hann var framinn af fyrrv. ríkisstj. sem hv. 3. þm. Reykv. átti sæti í.

Ég hafði enga lítilsvirðingu í frammi í garð vísindamanna. Ég minnti bara á og rakti það, sem þeir sjálfir hafa viðurkennt og upplýst, að rannsóknir hvað snertir áhrif starfsrækslu Kísiliðjunnar við Mývatn hafa ekki verið framkvæmdar og það liggur ekkert fyrir um áhrifin. Það er um það sem málið snýst en ekki það hvort mér hafi verið kunnugt um að umfangsmiklar rannsóknir á margháttuðum sviðum á lífríki Mývatns hefðu farið fram á liðnum árum og áratugum. Málið snýst um það, sem ég er hér að flytja, um Kísiliðjuna við Mývatn og áhrif starfrækslu hennar á lífríki svæðisins, og þar liggur það sem sagt fyrir að skortir grundvallarrannsóknir.

Ég lýsti því ekki yfir að þetta leyfi, sem ég gaf út, væri eins og leyfið frá 1966, eins og hv. þm. fullyrti. Ég sagði að ýmsar tilvitnanir, sem hv. 4. landsk. þm. hafði uppi í greinar leyfisins, væru óbreyttar frá fyrra leyfi. Það er augljóst að hv. 3. þm. Reykv. hefur hlustað ákaflega illa á mál mitt hér. Hann las upp úr bréfi Náttúruverndarráða nákvæmlega sama kaflann sem ég hafði lesið hér upp og hann gerði það vegna þess sem hann sagði að það mundi ekki hafa komið hér fram það sem í því stæði. Þess vegna hefur hann ekkert fylgst með umr. og hann kemur hér og upplýsir vanþekkingu sína að öllu leyti, enda mun hann hafa verið í ani í síma eða upp um áheyrendapalla að afla sér vitneskju til að geta tekið þátt í þessari umr. og er þá ekki að undra þótt brestur verði í málflutningnum.

Hv. þm. sagði að ég hefði fullyrt að lögin um verndun Laxár og Mývatnssvæðisins tækju aðeins til nýrra framkvæmda og nýrra mannvirkja. Með leyfi forseta les ég upp og það fer að verða þannig að maður verður að hafa allt nákvæmlega skrifað niður þegar slíkir útúrsnúningar eru tíðkaðir eins og hér ber raun vitni um. Hvað sagði ég um þetta efni?

„Rétt er að geta þess“, sagði ég svo orðrétt, „að sett hefur verið fram sú skoðun,“ ekki af mér, „að ákvæði laganna frá 1974 um verndun Laxár taki einvörðungu til nýrra framkvæmda á svæðinu“ o.s.frv.

Það má sjá málatilbúnaðinn og málafærsluna af þessum orðum. (SvG: Er þetta skoðun ráðh., ef ég má spyrja til að svara ræðunni?) Það er ekki skoðun mín. Ég varð aðeins að taka það fram að þetta hefði m.a. s. komið fram til þess að upplýsa um hvernig menn litu á þessi lög. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég álít að þessi lög séu víðtækari en það. En ég rakti hér ítarlega afstöðu mína til valdsviðs míns í þessu efni, og las það og hef það uppskrifað nákvæmlega frá upphafi til enda, þar sem ég vísa á bug að ég fremji valdníðslu hér, þar sem ég leiði að því lagaleg rök að ég sé að gegna skyldum mínum í þessu máli. Menn spyrja hér um það hvers vegna leyfið sé gefið út nú. Menn hefðu kannske átt að rannsaka hvers vegna var sótt um framlengingu þess á liðnu ári, í júnímánuði. Svona mundi fólk ekki spyrja sem vill hafa eitthvert vit á rekstri fyrirtækja. En það eru hér sumir of fínir til þess nokkru sinni að vilja setja sig nokkurn tíma inn í slík mál, virðist vera.

Fyrrv. ríkisstj. ætti kannske að svara okkur því hvers vegna hún framlengdi leyfið við John Manville-samsteypuna þegar á árinu 1982, sem gengur þó ekki í gildi fyrr en 13. ágúst 1986. Við bíðum eftir upplýsingum um það. Raunar get ég sagt mér það sjálfur og þykist hafa kynnt mér það og tók það reyndar fram í frumræðu minni hér, að þannig var ástatt fyrir fyrirtækinu að því hélt við stöðvun. Það lá við að það legði upp laupana af ýmsum ástæðum sem ég rakti og því var það að menn töldu nauðsynlegt vegna framtíðarreksturs fyrirtækisins að endurnýja þennan samstarfsamning, þennan aðalsamning milli íslensku ríkisstjórnarinnar og Manville-fyrirtækisins. En um þetta getur hæstv. fyrrv. félmrh. upplýst okkar af því sem þetta var allt saman framkvæmt af fyrri ríkisstj. Með því að upplýsa það er ég ekki að ásaka einn eða neinn og ekkert það hafði ég í frammi í garð fjarstadds þm. í frumræðu minni sem ástæða er til að fetta fingur út í nema þá með útúrsnúningum. Og auðvitað hef ég borið þessa niðurstöðu mína undir ríkisstj. og flutt málið og lagt fyrir ríkisstjórnarfund og fengið samþykki við því athugasemdalaust. (SvG: Var menntmrh. á þeim fundi?) Ekki vil ég fullyrða um það, en á þingflokksfundi Sjálfstfl. útlistaði ég þessa afstöðu mína nákvæmlega og gaf menntmrh. í framhaldi af því frekari upplýsingar og sýndi henni rökstuðning minn fyrir málinu, þar sem hún var stödd á þeim fundi, og gerði hún ekki við mig aths. um málið. En ég vil ekki tala og svara í hennar orðastað, það gefast tækifæri til þess að leita um það svara. En ég gegni ekki störfum hæstv. menntmrh.

Hér var spurt um hvernig skilja bæri endurskoðun sem fram er tekið í 3. tölulið námaleyfisins. Og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnrh. er heimilt að endurskoða skilmála leyfis þessa.“

Hverjir eru þeir? Hverjir eru skilmálar í leyfisveitingu? Og hvernig dettur mönnum í hug að spyrja um svo sjálfsagðan hlut eins og það að það hlýtur fyrst og fremst að beinast að því að stöðva og svipta leyfisveitingu ef í ljós kemur að um skaðvænleg áhrif starfrækslunnar er að tefla? Um þetta snýst allt málið. Það er beinlínis tekið fram, að leiði rannsókn í ljós áhrif til hins verra á dýralíf og gróður í Mývatni skuli skilmálarnir endurskoðaðir. En úr því sem spurt er, þótt barnalega sé spurt, þá er sjálfsagt að svara þessu til að taka af tvímæli.

Hv. 4. landsk. þm. tók það fram í upphafi máls síns að tilefni þess að hann kvaddi sér hljóðs utan dagskrár væri bréf sem ég í gær undirritaði fyrir Kísiliðjuna við Mývatn. Það hefur auðvitað hver sinn smekk í þessu, eins og svalan sagði þegar hún bauð Trítli ánamaðkinn sem hann vildi ekki. Það er dálítið annað mál hvort ég, vegna þess að fjölmiðlar hafa fengið upplýsingar um að ég hafi afgreitt leyfisveitingu sem þessa, upplýsi um innihaldið aðspurður eða hvort menn taka með sér afrit af bréfi til ákveðins fyrirtækis, sem ætla má að hafi ekki enn fengið það í hendur, og leggi sérstaklega út af því. (SvG: Er Morgunblaðið æðra Alþingi sem sagt?) Þetta er enn einn útúrsnúningurinn og ekki svaraverður. Þetta skilja allir þeir sem heiðarlega fara höndum um málsskjöl og vilja hafa það í heiðri. Ég benti aðeins á þetta án þess að ég kippi mér neitt sérstaklega upp við það: Málið mátti taka upp fyrir löngu því að það hefur verið til umr., en ég benti bara á hinar beinu forsendur þar sem veifað var ljósriti af bréfi sem ég hafði fengið í hendur Náttúruverndarráði til þess að það gæti kynnt sér innihald alls málsins frá upphafi. Það er kannske smekklegust aðferð Náttúruverndarráðs að fá þetta í hendur hv. þm. vitandi það að það hafði ekki náð á leiðarenda, til þess sem taka átti við bréfinu. En hér er ekkert mál sem ég hirði að orðfæra frekar, en óþarft að vera með eitthvert vængjabusl þess vegna.

Kjarni málsins er auðvitað sá að góður friður náist um þetta mál. Kjarni málsins er ekki sá, sem hv. 3. þm. Reykv. leggur til, að hafin verði málaferli, eins og hann telur alveg nauðsynlegt að framið verði, til þess að fá úr því skorið hvort valdsvið í þessu falli Náttúruverndarráðs er. Undirstöðuatriði þessa máls er það að eins og að því er staðið, leyfisveitingunni og skilyrðum fyrir henni, má ætla að þær rannsóknir sem menn hafa ekki framkvæmt enn þrátt fyrir yfirlýst markmið í lögum meira að segja, þær rannsóknir verði nú framkvæmdar og á grundvelli þeirra fæst væntanlega úr því skorið hvort óhætt er að halda þessari starfrækslu áfram eða ekki.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara neinum orðum um mál hv. 7. landsk. þm. Hv. þm. hafði greinilega skrifað niður sína ræðu áður en ég gaf skýringar mínar og er ég þess raunar sannfærður að ýmislegt af því sem hún flutti þar hefði hún látið ósagt ef svo hefði ekki staðið á að ræðan hafði verið samin fyrir fram, vegna þess að það segir sig sjálft að hér erum við loks að fá fangs á að ganga úr skugga um eftir 20 ára starfrækslu, hvort okkur er óhætt að reka verksmiðjuna þarna eða ekki. Og það eru líkur á, eftir því sem vísindamenn telja, og Pétur M. Jónasson er þeirrar skoðunar líka, að það þurfi ekki að taka fimm ár að fá niðurstöður í því máli, þannig að þetta starfsleyfi kynni þess vegna að verða skemmra en það sem Náttúruverndarráð leggur til til fimm ára.

Ég mun leggja það til við verkefnisstjórnina undir forustu Péturs M. Jónassonar að kvaddir verði til óhlutdrægir sérfræðingar af öðrum löndum, ef þess þykir þurfa, hlutlausir vísindamenn, til þess að meta niðurstöður rannsóknanna. Það er að mínum dómi nauðsynlegt þannig að það verði ekki í efa dregið að fullkomlega vísindalega sé staðið að allri rannsókninni og mati á þeim niðurstöðum sem hún gefur. Þetta virðast hv. ræðumenn hér flestir ekki vilja skeyta neitt um. Þeir orðfæra varla að kalla þessa ráðabreytni um að verja fjármagni til þess loks að stunda grundvallarrannsóknir og nauðsynlegar rannsóknir á svæðinu. Hér er allt saman tínt til af aukaatriðum og flest sem kalla má fullkominn útúrsnúning. Ég endurtek það að ég trúi því að gott samkomulag náist um þá meðferð málsins sem ég hef hér staðið fyrir.

Ég ætla að lokum að nefna enn eitt dæmi um það að ég hafi haldið því fram, eftir því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að bréf landeigendanna vikju ekki að kísilgúrnáminu og starfrækslu kísiliðjunnar. Þetta sagði auðvitað ekkert. Ég er ekkert að tala um það bréf. Ég var að tala um 60-menningana sem undirrituðu bréfið. Þeirra bréf snýst einvörðungu um kísilgúrnám við Syðri-Flóa, alveg einvörðungu, og ég las það hér upp frá orði til orðs. Þetta var enn eitt dæmið um hinn ótrúlega óvandaða málflutning hv. 3. þm. Reykv. Þótt maður sé ýmsu vanur úr þeim herbúðum man ég varla til þess að hafa heyrt annað eins upplok á einum hv. þm. og mátti heyra á hans máli.