31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég skal virða orð forseta og stilla máli mínu í hóf hvað tímalengd varðar. Hér hefur þegar verið margt rætt í þessu máli, nokkur örtröð að komast í ræðustól og margt hefur þegar verið sagt af því sem ég vildi sagt hafa. Til að spara hv. þm. tíma vil ég taka það fram að ég get heils hugar tekið undir hvert einasta orð í upphafsræðu hv. þm. Guðmundar Einarssonar.

Hæstv. iðnrh. er búinn að koma hér í stólinn í tvígang og útlista sín sjónarmið án þess að þingheimur sé miklu nær, trúi ég, um ýmis atriði þessa máls. Eitt hefur verið mjög athyglisvert í máli hæstv. iðnrh. Hann hefur endurtekið það sífellt að verði niðurstöður rannsókna á þá lund að taka kísilgúrs hafi neikvæð áhrif á lífríki Mývatns þá muni starfsleyfið verða afturkallað og það muni jafnvel verða í gildi enn þá skemur en þau fimm ár sem Náttúruverndarráð leggur til að leyfið verði veitt með skilyrðum, jafnvel aðeins þrjú ár. Þetta hefur hæstv. ráðh. sagt hér margoft. Þrátt fyrir óskir hæstv. forseta um að reyna að efna ekki til langrar framhaldsumræðu þá langar mig til að spyrja hæstv. iðnrh. tveggja spurninga og vonast til að hann svari þeim hér á eftir:

Fyrst ráðh. leggur svona gríðarlega áherslu á það að leyfið kunni að vera í aðeins þrjú ár, í mjög skamman tíma, hvers vegna var þá leyfisveitingin ekki við það miðuð? Hvað var þá því til fyrirstöðu að fara að tillögum Náttúruverndarráðs og veita leyfið aðeins til fimm ára? Þetta var fyrsta spurningin.

Önnur spurningin snertir efnistökuna sjálfa. Hæstv. iðnrh. talaði um það einkum í fyrri ræðu sinni að það væri nóg af kísilgúr í Ytri-Flóa. Það væri nóg þar til að sjá verksmiðjunni fyrir efni í 15 ár og þess vegna þyrfti ekki að taka úr Syðri-Flóa. Spurning mín til iðnrh. er því tvíþætt. Í fyrsta lagi: Á þá ekki að taka úr Syðri-Flóa úr því að ráðh. telur að það sé nóg í Ytri- Flóa? Og í öðru lagi: Ef svo er, hvers vegna er það þá ekki tekið fram í leyfisveitingunni að ekki eigi né þurfi að taka úr Syðri-Flóa? Málflutningur hæstv. ráðh. hangir því miður ekki saman. Ef þetta eru rök sem hann færir fyrir máli sínu, þau annars vegar að leyfið geti komið til með að vara mjög skammt, og í öðru lagi að það þurfi ekki að taka úr Syðri-Flóa, hvers vegna er þá ekki gert ráð fyrir þessum sjónarmiðum í leyfisveitingunni sjálfri?

Ráðh. talaði hér áðan um það, og þá í svari við fsp. frá hv. 3. þm. Reykv., að hann mundi afturkalla leyfið ef verulegar breytingar yrðu á gróðri og dýralífi við Mývatn sem rekja mætti til verksmiðjunnar. Þetta er hugsunarháttur sem mér er mjög andstæður. Þ.e. við skulum fyrst sjá hvort við skemmum eitthvað, og svo, ef við skemmum eitthvað, þá skulum við hætta við að gera það. Er ekki betra að byrgja brunnin áður en barnið er dottið ofan í hann? Hvernig ætlar hæstv. ráðh. að laga þá röskun á lífríki og dýralífi sem kann að verða á Mývatni við frekari efnistöku? Hún er óbætanleg. Þar getur engin ráðuneytistilskipun bætt um betur.

Að mínu viti er skammsýni hæstv. núv. iðnrh. með endemum í þessu máli og er það reyndar mat mitt á öðrum þeim málum sem undir hans rn. heyra og komið hafa til umfjöllunar hér á hæstv. Alþingi. Ef við lítum á þau mál öll í heild þá stefna þau öll að sama marki: að stundargróða, að einhverjum ábata sem er fljótfenginn, og aðeins miðað við þá stund sem nú er að líða og sem fram undan er á næstu grösum. Þetta er dýrkeyptur stundargróði. Þegar hefur ýmislegt verið af hendi látið í iðnaðarmálum landsins til að hafa erlenda viðskiptaaðila góða. Ef þessi leyfisveiting hefur það í för með sér að af hendi verði látið lífríki einhverrar fegurstu sveitar landsins og þótt víðar væri leitað, þá get ég sannarlega tekið undir þau orð, sem hér féllu áðan, að þetta er ekki bara svartur dagur í náttúruverndarsögu Íslands, heldur í sögu landsins alls.

Að lokum, herra forseti, vænti ég þess að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans.