31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur margt verið sagt af því sem ég ætlaði að vekja máls á. Ég ætlaði mér alls ekki að taka þátt í þessum umr. og er því ekki efnislega undirbúin. En mér hefur þegar blöskrað svo að hlusta hér á málflutning ráðh. og stuðningsmanna hans að ég fæ ekki orða bundist. Það gengur fram af mér sú lítilsvirðing sem náttúruverndar- og vísindamönnum er sýnd í máli þeirra. Og það gefur kannske einmitt skýringu á því undir hvaða högg rannsóknarstarfsemi hefur almennt átt að sækja hér á landi, högg vanþekkingar og fordóma.

Hvers vegna talar hæstv. ráðh. t.d. um „málamyndarannsóknir“ innan hermimerkja? Ekki hefur hann kynnt sér þessar rannsóknir að eigin sögn. Hvernig getur Ísland haft efni á því að eiga svo fordómafullan og skammsýnan iðnrh. að hann hirðir ekki um að kynna sér náttúruverndarsjónarmið í iðnaðarmálum í þessu vistfræðilega viðkvæma landi?

Nú vill svo til, hæstv. ráðh., að ég hef í engan skóla gengið, hvorki í gær né í nótt, til að beita mér í þessu máli af því að það ætlaði ég ekki að gera. Því dæmi ég eingöngu af því sem ég hef séð og heyrt hér í dag. Og það segja mér öll skynfæri og dómgreind að hroki hæstv. ráðh. og hortugheit bera ekki vott um styrkan málstað né góða samvisku. Þá fannst mér það enn fremur bera vott um halla stöðu ráðh. í málinu að hann skyldi verja löngum tíma af máli sínu til þess að orðlengja smáfrétt úr Þjóðviljanum. Voru hans eigin staðreyndir ekki nógu sterkar? Vinnubrögð hans önnur sýnast mér óvandvirknisleg.

Hæstv. ráðh. gerði gys að bréfi frá landeigendum við Mývatn og afstöðu þeirra, sprottinni af sterkum tilfinningum til átthaga sinna, í þessu tilviki óvanalegra átthaga frá náttúrufræðilegu sjónarmiði, tilfinningum og afstöðu sem fram komu í máli flokksbróður hans, hv. þm. Vigfúsar B. Jónssonar. Þetta finnst mér ómaklegt af hæstv. ráðh.

Hvað varðar væntanlega fjármögnun rannsókna þá býst ég við að vísindamenn séu því fegnir að einhverjar krónur fáist nú til rannsókna á svæðinu. En ég tek undir það með hv. þm. Sigríði Dúnu að þetta er af alröngu tilefni og hefði fyrir löngu átt að koma til af náttúrufræði- og náttúruverndarsjónarmiðum, en ekki sem friðþægingardúsa sprottin af skammtímagróðasjónarmiðum.

Og mér dettur nú í hug: Hvað á að fara að rannsaka? Það sem búið er að skemma? Væri ekki nær að rannsaka áður en röskun er fyrirhuguð? Nei, hæstv. ráðh., okkur ber að hyggja að viðkvæmri náttúru þessa lands og við þurfum að bera gæfu til að varðveita hana, nýta hana með gát og skila henni til afkomenda okkar a.m.k. jafngóðri og við tókum við henni, helst betri. Og það tel ég m.a. vera hlutverk ráðh., honum falið af þjóðinni.

Minnumst þess að það er ekki hægt að gera allt að söluvöru. Og sumt verður aldrei bætt sem einu sinni er skemmt. Það er kannske óviðeigandi, en eitt það fyrsta sem mér datt í hug í þessari umr. var smávísa, sem ég lærði þegar ég var barn, um ógæfumann og hann var kallaður Stebbi í vísunni:

Stebbi stál

stakk sig á nál,

seldi sína sál

fyrir eina grautarskál.