31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Aðeins til glöggvunar á því lagalega deiluefni, sem menn eru hér að ræða, vil ég vekja athygli á grg. þeirri sem fylgdi frv. til l. um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi á 94. löggjafarþinginu 1973. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í almennri grg.:

„Við meðferð máls þessa í Náttúruverndarráði kom til álita hvort náttúruverndarlög nr. 47/1971 fælu ekki í sér nægar heimildir til þeirrar sérstöku verndunar eða friðunar sem frv. gerir ráð fyrir

Um það atriði var leitað álits dr. Gauks Jörundssonar prófessors. Taldi hann að enda þótt ákvæði náttúruverndarlaga nr. 47/1971 ættu að öllu jöfnu að nægja til þess að koma á með friðlýsingu svipaðri vernd og frv. gerir ráð fyrir, þá hefðu hins vegar sérstök lög æðra gildi en reglur og ákvarðanir stjórnvalds og gætu því m.a. þjónað þrenns konar tilgangi.

Í fyrsta lagi hefðu ákvæði þeirra sjálfstæða þýðingu að því leyti að þau settu reglur sem handhafar framkvæmdavalds hefðu ekki tök á hrófla við.“

Í þessu tilfelli, herra forseti, er iðnrh. handhafi framkvæmdavalds og þess vegna álitamál hvort hans leyfi er gilt með tilliti til þessara laga.

Síðan segir áfram hér í grg.: „Í öðru lagi gætu slík lög veitt náttúruverndaryfirvöldum ótvíræða heimild til að breyta reglum og öðrum ákvörðunum annarra stjórnvalda sem þegar kynnu að vera fyrir hendi. Og í þriðja lagi gætu sérstök lög haft sjálfstætt gildi að því leyti að með þeim mætti tryggja að ákvarðanir náttúruverndaryfirvalda yrðu taldar rétthærri en ákvarðanir annarra stjórnvalda.“

1. málsgr. 3. gr. hljóðar svo: „Á landsvæði því, er um getur í 32. gr., er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til.“ Um þetta segir í athugasemdum við 3. gr.: „Samkvæmt þessari grein er almenna reglan sú að hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask, t.d. vegagerð eða taka jarðefnis, er óheimilt án samþykkis Náttúruverndarráðs.“ Ætli þetta nái nú ekki alveg örugglega til botnsins í Mývatni, taka jarðefnis? Getur verið nokkur vafi á því? Og síðan segir: „Hins vegar eru heimilar nauðsynlegar og eðlilegar framkvæmdir vegna búskapar á lögbýlum. Slíkar framkvæmdir geta þó verið óheimilar ef þær að dómi Náttúruverndarráðs valda spjöllum á náttúruverðmætum.“

M.ö.o., það er hafið yfir allan vafa að þessi lög taka einnig til jarðefnis og þar með botnsvæðisins sem hér er um að ræða og þeirrar leyfisveitingar þá sem iðnrh. hefur framkvæmt. Það er hafið yfir allan vafa. Lögin ganga meira að segja svo langt að þau segja: „Náttúruverndarráð getur bannað framkvæmdir á lögbýlum.“ Það stendur hér ótvírætt í þessu plaggi sem lagt er fyrir löggjafann. Löggjafinn er þeirrar skoðunar. Það er alveg sama þó að einstakir þm. í dag telji þetta vitlaust. Það breytir engu vegna þess að löggjafinn hefur talað í þessu máli og hann hefur sagt: „Náttúruverndarráð getur stöðvað framkvæmdir á lögbýlum ef þær að dómi Náttúruverndarráðs valda spjöllum á náttúruverðmætum.“

Ég held þess vegna að það sé hafið yfir allan vafa að það er útilokað fyrir iðnrh. að ganga fram með þeim hætti sem hann hefur gert, án þess að hann reyni mjög á þolrifin í þessum lögum, að ekki sé meira sagt. Og ég fullyrði héðan úr þessum stól að menntmrh. gæti, ef hún vildi, stöðvað þessa leyfisveitingu. Ákvæði laganna um verndun Laxár-og Mývatnssvæðisins eru það ótvíræð í þessu efni. Það hefur hins vegar komið fram að húsbóndi Náttúruverndarráðs, menntmrh., hafi ekki hreyft athugasemdum við þessum gjörningi. Og þá er komið að sjálfstæðri stöðu Náttúruverndarráðs sem slíks. Á það að beygja sig undir pólitískt vald þeirra sem að þessu standa? Eða á það að reyna að tryggja rétt sinn með skírskotun til þessara laga en heita ómerkt ella?

Ég heyrði það sem hv. þm. Björn Dagbjartsson sagði hér áðan, að Náttúruverndarráð væri nú misjafnlega mikils metið í þjóðfélaginu. Það er bersýnilegt að verið er að reyna að grafa undan tiltrú fólks á þessa stofnun og það er mjög alvarlegur hlutur þegar það er gert. sérstaklega þegar það er gert af mönnum sem hafa aðstöðu til þess, ef þeir vilja, að flytja tillögu og ná þeim fram um breytingar á stöðu Náttúruverndarráðs, þannig að það geti gegnt hlutverki sínu sem best. Þegar menn tala úr stjórnarmeirihluta á Alþingi með þessum hætti þá er eftir því tekið. Það er eftir því tekið þegar slíkir menn eru að dreifa óhróðri um þessa stofnun.

Ég held að hér sé komið að kjarna málsins. Og spurningin stendur þá eftir: Mun Náttúruverndarráð tilnefna menn í þá nefnd sem iðnrh. óskar eftir skv. 7. tölul. í starfsleyfinu? Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert. Mun Náttúruverndarráð gera það og þar með samþykkja vinnubrögð iðnrh.? Það verður athyglisvert hvort það í raun og veru gerist.

Iðnrh. gerir mikið úr því að hér séu ítarleg endurskoðunarákvæði. En hver er það sem á að meta endurskoðunina eftir allt það sem á undan er gengið? Hver er það sem á að dæma um það og ákveða hvort hlutirnir eru í lagi? Er það Náttúruverndarráð? Hver er það? Það er iðnrh. Hann einn hefur alræðisvald til að meta niðurstöður þeirra rannsókna sem verið er að tala um. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð af stjórnvöldum. Þarna ætti auðvitað að tryggja að til skjalanna kæmi annar aðili en iðnrh. sem á fyrir hönd íslenska ríkisins fjárhagslegra hagsmuna að gæta við rekstur Kísiliðjunnar hf. við Mývatn. Með því að fela iðnrh. að meta rannsóknaniðurstöður er í raun og veru verið að vísa valdinu, úrslitavaldinu í þessu máli á aðila sem hefur ríkari hagsmuni af því á hverri stundu að tryggja stöðu Kísiliðjunnar heldur en náttúruverndarsjónarmið í landinu. Þarna rekast á tvö sjónarmið, tvenns konar grundvallarhagsmunir. Af þeirri ástæðu einnig eru vinnubrögð iðnrh. í þessu efni algerlega óeðlileg.

Ég skildi iðnrh. svo í seinni ræðu hans hér í dag að út af fyrir sig vefengi hann ekki rétt Náttúruverndarráðs. En hann vísi Náttúruverndarráði á dómstólana vegna þess að það sé eina leiðin fyrir Náttúruverndarráð til að sækja rétt sinn. Ég held að hæstv. ráðh. þurfi að átta sig á því að það eru ekki einstakir þingmenn hér sem eru að hvetja til ófriðar í þessu efni. Það er hæstv. ráðh. sem með vinnubrögðum sínum er að stofna til ófriðar, ekki aðeins hér á hv. Alþingi heldur sérstaklega í þeirri sveit og því byggðarlagi sem hér á hlut að máli. Ég minni á að Alþingi hefur áður tekið ákvarðanir varðandi þetta hérað og byggðarlag, ákvarðanir sem hafa reynst orka tvímælis gagnvart íbúum þess. Ég held að reynslan af Laxárdeilunni ætti að kenna okkur öllum að umgangast ekki hagsmuni og viðkvæm sjónarmið fólks með þeim hætti sem þá var gert og hér er verið að endurtaka. Því miður virðast menn hafa gleymt þeim lærdómi sem menn áttu að draga af Laxárdeilunni.

Svo er spurningin að lokum, herra forseti: Norðurlandskjördæmi eystra á sex þm. kjörna á Alþingi. Þrír þeirra eru kosnir fyrir Framsfl. Hann hefur ekki mætt hér í ræðustólinn í dag. Ég spyr því hv. þm. Guðmund Bjarnason sem einn af fyrirmönnum Framsfl. og hv. þm. Stefán Valgeirsson líka, — einn af forustumönnum Framsfl. m.a. í bankamálum: Hefur þingflokkur Framsfl. fjallað um þetta mál? Samþykkti Framsfl. þessi vinnubrögð? Ég óska eftir svari við þessari spurningu.

Svo mundi ég spyrja annarrar spurningar ef það væri hægt. En ég ætla að segja ykkur áður en ég fer héðan hver hún var. Hún er þessi: Hvar eru fulltrúar flokksins sem spyr þessa dagana: Hverjir eiga Ísland? Mér finnst þessi umr. í dag vera innlegg í svar við þeirri spurningu: Hverjir eiga Ísland?