04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það ber að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma eða tækifæri til að kynna mér þetta mál til hlítar og skal því vera fáorður um frv. sem slíkt, en sjálfsagt má ýmislegt finna því til ágætis. Og þar sem ég á sæti í þeirri n. sem um málið fjallar gefst mér tækifæri þar til að afla þeirra upplýsinga sem ég tel að hljóti að þurfa að koma fram við umfjöllun þessa máls.

En ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs við þessa umr. er kannske fyrst og fremst sú að benda á að það kerfi sem nú ríkir í olíuviðskiptum á ekki minnsta rétt á sér lengur. Hér hefur ríkið milligöngu um mjög verulegan hluta olíuinnflutningsins sem síðan er skipt á milli hinna þriggja olíufélaga sem bróðurlega skipta markaðnum á milli sín. Ég sé ekki betur en að þessi olíufélög í núverandi mynd séu orðin óþörf. Eðlilegasta fyrirkomulagið væri að hugsanlega ríkið sæi um þessi innkaup og síðan væru það bara einstaklingar sem ættu olíu- og bensínstöðvar og sæju um rekstur þeirra en ekki þessi þríeini þurs einokunarinnar sem þessi félög eru orðin.

Það má ýmislegt tiltaka í þessu sambandi. Hv. 3. þm. Vesturl. minntist á dæmi sem kom upp hér s.l. sumar þegar einn dreifingaraðili, Botnsskálinn í Hvalfirði, seldi ódýrara bensín en aðrir, þ.e. sleppti álagningunni. Það ætlaði allt um koll að keyra. Þetta vakti ekki vinsældir hjá olíufélögunum, svo mikið veit ég, þó að neytendum þætti þetta að sjálfsögðu gott.

Og það er annað sem er merkilegt í sambandi við þessi olíufélög. Í hvert einasta skipti sem verð á gasolíu og bensíni lækkar úti í heimi eru þau spurð af fjölmiðlum hvort þessi lækkun hafi ekki áhrif hér og hvort ekki megi búast við bensínverðslækkun. Þá er svarið jafnan það að það taki nú svo langan tíma að það sé með öllu óvíst. Hins vegar ef það verða hækkanir þá stendur ekki á þessum sömu félögum að mælast til þess að þær komi fram nær samstundis í verðinu. Nei, það er áreiðanlega kominn tími til að endurskoða þetta kerfi, þetta vitlausa kerfi vil ég segja, sem nú er við lýði hér.

Mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh. einnar spurningar. Hugsum okkur þessi þrjú olíufélög hér. Þau annast hluta af sínum innkaupum milliliðalaust. Olíufélag A kaupir gasolíu skulum við segja á tiltölulega hagstæðu verði. Síðan gera félögin B og C samninga um gasolíufarma sem eru aftur á hærra verði. Viðskiptavinir félags A, sem samdi um farminn á lægsta verðinu, njóta þess í engu vegna þess að þetta er allt jafnað út. Og félögunum er það ekkert kappsmál að ná hagkvæmum samningum því að það tapast um leið og þetta er allt jafnað út. Það kemur m.ö.o. engum til góða, nema þá kannske keppinautunum sem keyptu dýru olíuna, þegar tekið er meðaltalsverð af þessu.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort þetta sé í rauninni svona. Ég er ekki að fullyrða að svo sé. En ég hef vissan grun um að svo sé og spyr hæstv. ráðh. hvort hann telji þetta eðlilega viðskiptahætti. Ég held að svo sé ekki.

Samtrygging þessara þriggja félaga virðist nefnilega vera algjör. Samkeppnin, í hverju birtist hún? Hún birtist í því hverjir selja bestu útigrillin með strompi eða eitthvað svoleiðis. Það er býsna hlálegt þegar olíufélög eru farin að stunda þann atvinnurekstur að dreifa framhaldssjónvarpsþáttum á myndböndum. Ég sé ekki að slíkt eigi að vera hlutverk olíufélaganna. Það eru nógir aðrir til að sjá um það. En ég vildi gjarnan fá að vita hvað almenningur borgar í hækkuðu bensínverði fyrir svona verslun. Eða er svo mikill hagnaður af þessu, sem ég efast um, að það horfi kannske til lækkunar? Ég held að það þurfi að skoða allan rekstur þessara félaga mjög gaumgæfilega. Þau hafa með tímanum orðið eins konar ríki í ríkinu. Ég sé ekki hvers vegna þau eigi að standa í dreifingu á Dallas (Gripið fram í: Þetta er olíukóngur.) þó svo olía komi nokkuð við sögu í þeim þáttum, eins og hér er réttilega bent á. Það má vera að það sé röksemd þeirra Olís-manna fyrir þessum viðskiptum.

Það er líka alkunna að olíufélögin stunda umfangsmikinn verslunarrekstur. Ég hygg að þess séu dæmi að þau reki matvöruverslanir í tengslum við sínar dreifingarstöðvar. Þetta er auðvitað komið langt út fyrir alla skynsemi.

Ég vil hvetja hæstv. viðskrh. til þess að láta nú fara fram alvarlega, ítarlega og nákvæma athugun á þessum þríeina samkeppnislausa rekstri. Það ríkir engin samkeppni að því er varðar sölu á bensíni og olíu. Samkeppnin ríkir kannske helst á smávörusviðinu, í skrúfjárna- og skiptilyklasölunni. Ég held að þessi félög séu komin langt út fyrir sitt hlutverk þegar þetta eru orðnar útleigur fyrir sjónvarpsefni á myndböndum, sjónvarpsefni sem nýtur vissulega mikilla vinsælda. Ég vil gjarnan fá að heyra hvað hæstv. ráðh. segir um það hvernig þessi mál hafa þróast núna hin síðari árin. Jafnframt óska ég eftir því að hann geri ráðstafanir til þess að ítarlega verði skoðaður rekstur þessara fyrirtækja með það fyrir augum að finna leiðir til þess að lækka dreifingarkostnað og gera olíu og bensín þar með ódýrara.