04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektirnar við þetta frv. og hreinskiptnar umr. um þessi mál.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að frv. gengi ekki nógu langt. Hann benti á hverjar breytingar væri lagt til að gera með frv. og vísaði til 4. gr. og athugasemda við 1. gr., taldi sig ekki skilja lok grg. um 1. gr. þar sem stendur: „Hver innflytjandi og útsölumenn hans, sem fara niður fyrir hámarksverðið. skulu þó hafa sama söluverð um land allt, sbr. 4. gr. frv.“ Ég þóttist heyra á máli hans að hann skildi, en hefði kosið að þetta væri öðruvísi.

Frv. gengur einmitt út á að skapa á milli olíufélaganna þá samkeppni sem hv. 5. landsk. þm. kom inn á. Hann spurði hvort rétt væri að ef olíufélag A kaupir olíufarm á hagstæðara verði en olíufélag B og C sé jafnað á milli þessara olíufélaga, þannig að viðskiptavinur olíufélags A njóti ekki hagstæðari innkaupa þess olíufélags, heldur nái áhrifin til allra. Ég er ekki svo fróður að ég geti svarað þessu, en ég hygg að í flestum tilfellum sé dæmið þannig, að þegar hingað kemur olíuskip eigi öll olíufélögin nokkurn hluta í farmi þess olíuskips. Til þess að koma í veg fyrir það sem hv. þm. vék að er þetta frv. flutt, en ég hefði gjarnan viljað sjá það ganga þó nokkuð lengra. Það er að mínum dómi mjög eðlilegt að sú n. sem fjallar um þetta mál fái allar þær upplýsingar sem beðið hefur verið um og geti gert sér grein fyrir með hvaða hætti skynsamlegast er að haga þessu.

Hv. 4. þm. Vesturl. vék að því að hér mætti e.t.v. finna fjármuni til lausnar á vandamálum þeim sem við er að glíma í samningum milli útgerðarmanna og sjómanna. Ekki skal ég dæma um það. Ég þekki ekki nægjanlega vel til þess. En sé einhvers staðar möguleiki á að lagfæra og leiðrétta til að koma fram lækkun skal ég verða fyrstur manna til þess að fallast á slíkt.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. vék að olíuviðskiptum og ræddi um hversu þýðingarmikið væri að frelsi gilti í olíuviðskiptum. Mig langar til að rifja upp að af bensíni eru um 70% keypt frá Sovétríkjunum, en olíufélögin hafa keypt 30% annars staðar frá og þá verið á þeirra valdi hvers konar samningum þeim hefur tekist að ná. Þannig hefur ekki verið samið fyrir fram um bensínverðið. Af gasolíu kemur u.þ.b. helmingur frá Sovétríkjunum, en helmingur annars staðar frá. Er þá olíufélögunum heimilt að semja um annað en sá samningur sem gerður hefur verið við Sovétríkin í sambandi við sölu á frystum fiskafurðum þangað og saltsíld gerir ráð fyrir.

Ég met svo að hér hafi þm. gagnrýnt fyrirkomulagið, einstaka þætti. Hv. 3. þm. Vesturl. rakti hér samsetningu verðs, ef ég man rétt, á gasolíu. Vissulega eru þar margir póstar sem ástæða væri til að sú þingnefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, skoðaði. En það er ekki allsendis alveg rétt að alltaf hafi olían hækkað þó að hún hafi jafnvel lækkað erlendis. Það gerðist þó síðla árs 1983 vegna þróunar olíuverðsins að hér tókst í fyrsta og jafnvel kannske í eina skiptið að lækka verð á olíuvörum. Það sem hefur hins vegar valdið erfiðleikum á að halda stöðugu verðinu á þessum vörum eru breytingar á þeim gjaldmiðli sem við kaupum fyrir olíu og bensín, þ.e. dollar. Það hefur oftast verið svo, að á þeim tíma sem liðið hefur frá olíu- og bensínverðshækkun þar til aftur hefur komið að hækkun og hafi þá átt sér stað lækkun á markaðnum hefur gengið gert strik í reikninginn.

Í sambandi við innkaupajöfnunarsjóðinn, sem ekki er annað en verðjöfnun á milli olíufarma, er staðan sú að á s.l. ári hefði verð olíu og bensíns þurft að vera eilítið hærra til þess að sá reikningur væri í jafnvægi, en það gerðist ekki m.a. vegna þess hve örum breytingum dollarinn tók. Nú hefur það gerst frá því í nóvembermánuði að cif-verð þeirra bensínbirgða sem eru í landinu hefur lækkað úr 8 kr. og 1 eyri í 7 kr. 51 eyri. Það þýðir að hærri upphæð rennur til innkaupajöfnunarreiknings sem er ekki annað en skuld olíufélaganna í bönkunum, en það tekur fjóra og hálfan mánuð að jafna þann halla sem er á innkaupajöfnunarreikningi bensíns, um 30 millj. Meðalverð á þeirri gasolíu sem í landinu er hefur hækkað um 4 aura frá því í nóvember, úr 8,28 kr. í 8,32. Þá dragast 4 aurar frá þeirri upphæð sem hefur runnið til innkaupajöfnunarreikningsins. Á svartolíunni er um að ræða 300 kr. hækkun á meðalverði, á þeirri svartolíu sem til er, og því lækkun á því framlagi sem gert er ráð fyrir á innkaupajöfnunarreikning sem því nemur, þ.e. úr 500 kr. í 200. Því tæki hátt í tvö ár, miðað við það verð sem er í dag, að greiða þá skuld niður.

Eins og ég sagði áðan met ég það að ræðumenn, sem hér hafa komið, eru þeirrar skoðunar að það sem hér er lagt til sé af hinu rétta og hinu góða og vilja ganga lengra. Ekki stendur á mér að taka við tillögum sem þingið næði saman um varðandi hvernig við getum hagað verðákvörðun á olíu og bensíni hér innanlands.