04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru örfá orð á þessu stigi málsins. Ég á sæti í fjh.- og viðskn., þar sem búið er að boða að byltingin verður á miðvikudaginn, og mér þykir rétt að segja 2–3 orð áður en hún skellur á.

Þau lög sem nú eru í gildi um verslun með olíuvörur eru sett á þeim tíma sem olían kostar lítið og var ekki eins stór þáttur í rekstri fyrirtækja, og þá einkum sjávarútvegsfyrirtækja, og nú er. Síðan hafa aðstæður gerbreyst og nú er olía að langmestu leyti notuð í sjávarútveginum, en olíunotkun annarra hefur minnkað að sama skapi. Þess vegna er nauðsynlegt að skoða þessi mál að nýju og setja nýjar reglur um olíusölu. Þær reglur verða að tryggja að allir landsmenn njóti viðunandi kjara og sambærilegra kjara hvað olíuvörur snertir, eins og verið hefur. Ég mun líta á þá hlið málsins þegar það kemur til nefndar. Það stendur ekki á mér að gera breytingar á fyrirkomulagi á olíusölu í landinu ef tryggt er að allir landsmenn sitji við sama borð. Ég mun fjalla um þetta mál þegar það kemur til nefndar og ef hægt er að afnema kerfi og móta annað kerfi í staðinn, sem reynist betur, skal ekki standa á mér að gera það. Hins vegar vil ég ekki lýsa stuðningi við það fyrir fram að taka þátt í byltingunni. Ég mun skoða hvað rís á rústum þessa kerfis sem menn ætla að brjóta niður.

Ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að samkeppni olíufélaganna er víða komin út í öfgar. Menn hafa keppt um bensínsöluna alveg gríðarlega og fjárfest feikilega mikið í tengslum við bensínsölu og alls konar skylda þjónustu. Þetta hefur skapað tortryggni í garð olíufélaganna. Á þeim tíma sem þau hafa beðið um hækkanir á sinni vöru hafa fjárfestingar verið í fullum gangi og með þvílíkum hraða að hvergi hefur annað eins þekkst í öðrum rekstri. T.d. mátti horfa upp á það í mínu sveitarfélagi að þar var byggð bensínstöð á sex mánuðum. Það var unnið dag og nótt. Það var byrjað um áramót og stöðin opnuð 17. júní með rá og reiða. Þetta var einmitt á þeim tíma sem olíufélögin börmuðu sér mikið. Ég held að þetta sé dæmi um hvað m.a. hefur rýrt þessi félög í áliti hjá almenningi. Menn eru því fylgjandi að skoða þennan rekstur vandlega og ég mun ekki víkjast undan því að gera það þegar málið kemur til n. á miðvikudaginn kemur.