04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það var aðeins út af því sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði, að hér væru gullkálfar Framsfl. og ríkisvaldsins, síðan Framsfl. og Sjálfstfl.

Alþb. er þá í ríkisvaldinu því að ég man ekki betur en formaður Alþb. hafi verið ráðh. þessara mála í nokkurt árabil. Þá hefur hann haft eitthvað með þetta að gera og sjálfsagt haldið hlífiskildi yfir þessum málum úr því að ekkert var að gert. Ef menn aðeins hugleiða að í 30 ár hefur þessum málum ekki verið hreyft og í þessi 30 ár hafa menn úr öllum stjórnmálaflokkum setið í ríkisstj. þá geta menn séð hverjir bera ábyrgðina á því hvernig þessir hlutir eru, hvort þeir eru góðir eða slæmir.

Hv. 9. þm. Reykv. vék hér að mér spurningu varðandi samanburð. Svar við henni hef ég ekki hér og nú, en eins og ég sagði þegar ég talaði fyrir þessu frv. mun ég gera allt til þess að þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru, komi til nefndarinnar sem fjallar um þetta mál. Hún fái það sem til er í þeim efnum og geti gert sér grein fyrir þessum málum eins og hægt er og tekið síðan ákvarðanir sínar að þeim fengnum, hvort sem þær leiða svo til byltingar eða ekki.