04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 445, um breyting á lögum um stjórn efnahagsmála frá 1979, sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og Karvel Pálmasyni. Markmið þessa frv. er að fyrirbyggja að versnandi lífskjör auki greiðslubyrði verðtryggðra lána langt umfram eðlilega greiðslugetu fólks, m.ö.o. að tillit sé tekið til þess við útreikning verðtryggðra lána ef lífskjör fara versnandi og verðmæti vinnulauna fylgja ekki verðgildi annarra verðmæta í þjóðfélaginu.

Hugmyndin, sem að baki liggur, er sú að fresta greiðslu á þeim hluta verðtryggingar sem er umfram almennar launahækkanir í landinu. Þetta verði gert með lengingu lánstímans þannig að hækkun árlegrar greiðslubyrði sé ekki meiri en sem nemur hækkun almennra launa á sama tíma.

Þetta frv. er nú flutt í annað sinn, lítillega breytt. Í grg. er einkum tölulegum upplýsingum breytt til samræmis við þróun kaupgjalds og lánskjaravísitölu, svo og greiðslubyrði lána fram til 1. jan. 1985.

Frv. þetta var fyrst lagt fram á Alþingi árið 1982. Það var þá afgreitt frá hv. fjh.- og viðskn. Nd. og komu fram tvö nál. frá nefndinni. Málið komst þó ekki til 2. umr. í deildinni og voru nál. því ekki rædd.

Ég tel rétt, herra forseti, að greina frá þessum nefndarálitum sem varpa nokkru ljósi á álit fjh.- og viðskn. í þessu máli þegar hún hafði málið til meðferðar á sínum tíma.

Fram kom annars vegar meirihlutaálit frá fjh.- og viðskn. Undir það skrifuðu Halldór Ásgrímsson, sem þá var formaður nefndarinnar, Ingólfur Guðnason, Guðmundur J. Guðmundsson, Matthías Bjarnason, Matthías Á. Mathiesen og Albert Guðmundsson.

Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. á nokkrum fundum og rætt það við Seðlabankann, húsnæðismálastjórn og fulltrúa Sambands almennra lífeyrissjóða og Landssambands lífeyrissjóða.

Einnig hefur nefndin fengið meðfylgjandi umsögn frá Sambandi ísl. viðskiptabanka og Sambandi ísl. sparisjóða.

Nefndin er sammála um það, að jafna beri greiðslubyrði fullverðtryggðra fasteignaveðslána einstaklinga í samvinnu við og með samþykki þeirra sjóða og stofnana er hlut eiga að máli. Vísast í því sambandi til stefnumörkunar í bráðabirgðaákvæðum 33. gr. laga nr. 13/1979, að samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur.

Ber einnig í þessu sambandi að stuðla að samræmingu verðtryggðra lánskjara þannig að skuldarar njóti „annuitets“-kjara við endurgreiðslu lána sinna, einnig í þeim skuldasamningum sem þegar er búið að stofna til.

Nefndin telur ekki fært að fara löggjafarleið að greindu marki. Hún leggur til að ríkisstj., í samráði við húsnæðismálastjórn, setji reglur um þetta efni um þegar veitt lán og ný lán við Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Jafnframt er vísað í 4. mgr. 33. gr. laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins, um fjölgun gjalddaga lána, og lögð áhersla á það að því ákvæði sé framfylgt.

Gagnvart öðrum skuldabréfaeigendum, sjóðum, stofnunum, þ.m.t. bönkum og sparisjóðum, þarf að fara samkomulagsleið, eins og áður greinir. Hefur nefndin þegar beint tilmælum í þessa átt til fulltrúa sambanda lífeyrissjóða og mjög jákvæð viðhorf koma fram í umsögn bankanna. Þarf ríkisstj. að fylgja því eftir.

Tillögur nefndarinnar eru þessar:

1. Að einstaklingum sem skuldurum þegar útgefinna veðskuldabréfa með fullri verðtryggingu verði gefinn kostur á frestun á greiðslu a.m.k. tíunda hluta þeirra greiðslna, sem þeir eiga eftir að inna af höndum á 12 mánaða tímabili frá byrjun þessa árs að telja eða frá 1. júní n.k. að telja. Verði fjárhæðin færð á sérstakan reikning til endurgreiðslu eftir lok lánstímans eða með álagi á næstu 3–5 árum þegar umsamins lánstíma, eftir vali skuldara, er kostur er. Skilmálar um verðtryggingu og vexti breytist ekki að öðru leyti.

2. Sjóðir og stofnanir séu hvött til lengingar lánstíma á nýjum lánum er veitt verða.

3. Þá er lögð áhersla á að fjölgun greiðsludaga getur verið þýðingarmikil hagsbót fyrir skuldara, m.a. hjá Húsnæðisstofnun.

4. Áríðandi er að sjóðir og stofnanir sem eigendur og umráðamenn þeirra veðskuldabréfa, er falla undir lið 1, gefi skuldurum kost á umræddri frestun með auglýsingu.

Með vísun til þess, sem að ofan greinir, leggur meiri hl. n. til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Sighvatur Björgvinsson skilar séráliti.“

Í nál. minni hl., sem undirritað er af Sighvati Björgvinssyni, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur haft frv. þetta til skoðunar í allan vetur, enda er það eitt af fyrstu málum þingsins. Lengi var beðið eftir umsögnum opinberra aðila og fengust þær ekki fyrr en eftir ítrekaðan eftirrekstur. Af þessum ástæðum var það fyrst nú fyrir fáum vikum sem raunveruleg skoðun málsins gat hafist í nefndinni. Við þá athugun kom í ljós að áhugi og vilji var fyrir því hjá mörgum nm. að afgreiða málið, enda var hér um að ræða mál, sem skipta mun sköpum fyrir fjölmarga aðila, einkum húsbyggjendur sem eru að kikna undan greiðslubyrði lána þar eð lánskjaravísitala hefur hækkað talsvert umfram kaupgjald og allar greiðsluáætlanir húsbyggjenda og annarra lántakenda hafa þar með farið úr skorðum.

Eins og vænta mátti höfðu lánastofnanir og fulltrúar þeirra ýmsar úrtölur fram að færa um efni frv. við nefndina. Allir voru þeir sammála um að sjálft úrlausnarefnið væri brýnt og knýjandi og sú hugmynd um lausn, sem í frv. er gerð till. um, sé skynsamleg. Úrtölurnar beindust hins vegar að framkvæmdinni — á henni væru tæknilegir örðugleikar, vafasamt sé hvort hægt sé að ráða slíkum málum til lykta með löggjöf o.s.frv. Urðu þessar úrtölur til þess að hafa þau áhrif á nm., sem áður höfðu lýst sig fylgjandi ákvæðum frv., að þeir treystu sér ekki til þess lengur, en vilja afgreiða málið með vísun til ríkisstj. með ýmsum yfirlýsingum og vilyrðum um skilning og góðan vilja.

Þótt ekki sé efast um þann skilning og góðan vilja, sem fram kom í þessari afgreiðslu og látinn hefur verið í ljós af ýmsum fulltrúum lánastofnana, þá er hætt við að á framkvæmdinni geti orðið bið komi ekki til atbeina Alþingis, sem lögin setti um verðtryggingu fjárskuldbindinga og ætlaðist til við þá afgreiðslu að greiðslubyrði færi ekki fram úr launaþróun í landinu. Vart eru meiri framkvæmdaörðugleikar á máli því, sem frv. fjallar um, en voru á verðtryggingunni skv. lánskjaravísitölu þegar hún var upp tekin, og er ekki vitað að lánastofnanir hafi kvartað mjög undan tæknilegum örðugleikum í því sambandi. Þá fellst minni hl. n. ekki heldur á þær röksemdir, að með samþykkt frv. væri verið að skerða réttmæta verðtryggingu útlánakrafna lánastofnana, þar sem aðeins er um að ræða tiltekna lengingu lánstíma að hluta til, en enga skerðingu verðtryggingar.

Minni hl. n. leggur því til að frv. verði samþykki óbreytt.“

Og undir nál. ritar Sighvatur Björgvinsson, eins og áður sagði.

Þó að frv. þetta hafi ekki náð fram að ganga er ljóst að það hefur þau áhrif að til vissra aðgerða var gripið í þessu máli. Þær aðgerðir voru þó aðeins tímabundnar. Hinn 27. maí 1983 voru sett brbl. sem hljóða svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. getur að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og Seðlabanka Íslands ákveðið að fresta skuli greiðslu á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingarþátta og vaxta verðtryggðra lána Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og verðtryggðra íbúðarlána banka og annarra lánastofnana er gjaldfalla á tilteknu tímabili hér eftir, ef lántaki óskar.

Þeim greiðslum, sem frestað er skv. framansögðu, skal bætt við höfuðstól lánsins og lánstíminn lengdur eftir þörfum þannig að greiðslubyrði lánsins á hverjum tíma aukist ekki af þeim sökum og lánið sé með óbreyttum kjörum að öðru leyti svo og með hliðstæðum áfangagreiðslum og ella hefði verið.“

Þessi lög giltu um lán sem gjaldféllu á tímabilinu 1. maí 1983 til aprílloka 1984. Á þessu tímabili voru það, að því er byggingarsjóðina varðar, 2850 einstaklingar sem nýttu sér þessa heimild og var heildarupphæð, sem frestað var, 4.7 millj. Eftir apríl 1984 hafa þessir möguleikar ekki verið fyrir hendi fyrir lántakendur, jafnvel þó að á þeim tíma sem á eftir kom hafi enn verið mikið misvægi milli lánskjara og launa.

Á töflu sem er að finna í grg. frv. á bls. 3 kemur í ljós að frá 1. júní 1979 til 1. jan. 1985 hefur byggingarvísitala hækkað um 820% og lánskjaravísitala um 906%. Á sama tímabili hefur meðalvísitala launa hækkað um 606%, en það meðaltal er byggt á kauptöxtum verkamanna, verkakvenna, iðnaðarmanna, verslunarmanna, landverkafólks og opinberra starfsmanna. Á þessu tímabili hefur því greiðslubyrði tengd lánskjaravísitölu aukist um 42.5% miðað við meðallaun frá útreikningi lánskjaravísitölu 1. júní 1979 til 1. janúar 1985. Miðað við byggingarvísitölu hefur greiðslubyrðin aukist um 30.3% .

Þegar almennt var tekin upp verðtrygging 1979 átti samhliða verðtryggingunni að lengja lánstímann til að mæta greiðslubyrði sem leiddi af verðtryggingunni. Segja má að stjórnvöld hafi að verulegu leyti heykst á að framkvæma þetta þó að einstakir lífeyrissjóðir hafi lengt lánstímann eitthvað. Það segir sig sjálft að í þeirri miklu verðbólgu sem við höfum þurft að búa við er ógerningur að gera langtímaáætlanir um fjárskuldbindingar. Sá sem tekur verðtryggt lán til langs tíma veit í raun og veru lítið um hvaða skuldbindingar hann er að leggja á sínar herðar, nema honum séu tryggð jafnverðmæt laun á lánstímanum, því að þá verður lánið ávallt sama hlutfall af árstekjum hans. Á sama hátt og það er sjálfsagt réttlætismál að menn endurgreiði jafnmikil verðmæti og þeir fá að láni ásamt sanngjarnri þóknun þá er það líka sanngirniskrafa að lántakendur geti treyst á að greiðslubyrðin fari ekki langt fram úr hækkun launa. Ef lífskjör fara versnandi í þjóðfélaginu um lengri eða skemmri tíma þá er sanngjarnt að skuldabyrði almennings sé dreift á lengri tímabil fremur en að hætta á greiðsluþrot fólks með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir margar fjölskyldur í landinu.

Það er ljóst að almennt hefur fólk ekki gert sér nægilega góða grein fyrir áhrifum verðtryggingar veðskuldbindinga. Margir hafa því teflt á tæpasta vað með fjármögnun íbúðarhúsnæðis, enda hefur komið á daginn að sú langvarandi kjararýrnun sem fólk hefur þurft að búa við. ekki síst eftir að hætt var að reikna verðbætur á laun en verðbólgan fær samt sem áður að æða óheft áfram, hefur leitt til þess að lántakendur geta ekki staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.

Í grg. með þessu frv. er tekið dæmi um hver þróunin hefur orðið. Tekið er dæmi af ungum hjónum sem keyptu sér tveggja herbergja íbúð 1. júní 1979. Þá var íbúðarverð 180 þús. kr. og sjálf áttu þau þriðjung kaupverðs, þ.e. 60 þús. kr. sem jafngilti þá rúmum 21/2 árslaunum skv. 8. launaflokki Verkamannasambands Íslands, en mánaðarlaun voru þá 1955 kr. skv. þessum launaflokki. Í þessu dæmi er gert ráð fyrir að þau hafi tekið 120 þús. kr. að láni og lánið sé verðtryggt með lánskjaravísitölu til 20 ára og beri breytilega vexti skv. ákvörðun Seðlabankans.

Það sem er athyglisvert í þessu dæmi er að 120 þús. kr. lán jafngilti 1979 rúmlega 61 mánaðarlaunum verkamanns en á fimmta gjalddaga, eða fimm árum síðar, árið 1984 skulda þau enn tæplega 800 þús. eftir greiðslu, sem eru uppfærðar eftirstöðvar lánsins með lánskjaravísitölu og er það ígildi tæplega 64 mánaðarlauna verkamannsins. Þetta þýðir í raun að þessi hjón skulda á fimmta gjalddaga, eða fimm árum eftir töku lánsins, meira að raungildi en þegar lánið er tekið, þrátt fyrir að hafa greitt fimm sinnum af láninu.

Á fyrsta gjalddaga 1980 samsvarar greiðslubyrðin 4.5 mánaðarlaunum verkamannsins. Á fimmta gjalddaga árið 1984 samsvarar greiðslubyrðin 6.6 mánaðarlaunum og ef gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á þessu ári mun greiðslubyrðin vegna þessa láns á árinu 1985 samsvara 8.6 mánaðarlaunum.

Ef litið er á hver þróunin hefði orðið ef ákvæði þessa frv. hefðu verið í gildi þá kemur eftirfarandi í ljós:

Í ákvæðum frv. er gert ráð fyrir að ef samanlögð upphæð afborgunar, verðtryggingarþátta og vaxta af verðtryggðu láni til einstaklings hefur hækkað meira hlutfallslega en ákveðin kaupgreiðsluvísitala, sem skilgreind er í frv., á tímabilinu frá því að lánveiting átti sér stað, þá skal einungis sá hluti fjárhæðarinnar sem samsvarar hækkun kaupgreiðsluvísitölu teljast gjaldfallinn. Mismunurinn sem eftir stendur myndar síðan sérstakan viðauka á höfuðstól sem verðtryggist með sama hætti og hið upphaflega lán og lýtur sömu vaxtakjörum en byrjar að gjaldfalla þá fyrst er upphaflegum lánstíma lýkur og þá með sömu gjalddögum og hið upphaflega lán.

Hér er í raun um framlengdan lánstíma að ræða en sú grundvallarforsenda sem gengið er út frá er að greiðslubyrði lána hverju sinni hækki ekki meira en nemur hækkun launa. Hefði þetta ákvæði verið í gildi, sem frv. kveður á um, þegar áðurgreint 120 þús. kr. lán var tekið 1. júní 1979 hefðu áhrif þess orðið þau að á fimmta gjalddaga er uppsafnað og uppfært viðaukalán komið í tæp 72 þús. og verður, ef að líkum lætur, eftir greiðslu 1985 orðið tæp 157 þús. Hér er um umtalsverða fjárhæð að ræða. Síðastliðið ár hefði upphæðin eða viðaukahöfuðstóllinn, sem greiðist á framlengdum lánstíma, samsvarað 5.7 mánaðarlaunum verkamanns og eftir gjalddaga 1985 jafngildir þessi upphæð, sem frestað hefur verið frá því að lánið var tekið 1979 vegna þess að greiðslubyrðin hefur verið meiri en hækkun launa, um 10.5 mánaðarlaunum verkamanns.

Fyrir nokkru var dregin upp í sjónvarpsþætti mjög dökk mynd af stöðu húsbyggjenda. Þar komu kynslóðaskiptin í húsnæðismálum mjög skýrt fram. Dregin var upp sú mynd að sá sem keypti sér íbúð á 1 800 þús. kr. árið 1974 borgaði í raun ekki nema 990 þús. kr. fyrir hana, eða 55% af kaupverði, en sá sem keypti sér samsvarandi íbúð árið 1984 mun greiða fyrir hana 2.2 millj., eða 122% af kaupverði, eða 1.2 millj. kr. meira en sá sem grætt gat á verðbólgunni á sínum tíma.

Það vakti vissulega athygli í þessum þætti og sýnir hvað hér er um gífurlega mikinn vanda að ræða, sem getur haft í för með sér mikil félagsleg vandamál og upplausn heimila, að í þessum þætti, sem fjallaði um húsnæðismál og mikla greiðslubyrði húsbyggjenda, var ekki síst leitað álits geðlækna og uppboðshaldara á stöðu mála. Það hlýtur að vera umhugsunarefni og ábyrgð stjórnvalda mikil ef ekki verður gripið til raunhæfra aðgerða í þessu máli því að þessi þróun eykur á félagsleg vandamál í þjóðfélaginu og upplausn fjölskyldna. Og þegar upp er staðið er þetta ekki bara dýrkeypt fyrir margar fjölskyldur í landinu heldur kostar þetta þjóðfélagið í heild mikið.

Það er auðvitað ljóst að margir hafa áður en verðtryggingin tók gildi hagnast verulega í skjóli verðbólgugróða. En við Alþfl.-menn höfum bent ítrekað á að meðan ungt fólk berst í bökkum og vinnur myrkranna á milli við að koma sér upp húsnæði er upplýst að í skjóli verðbólgu og óverðtryggðra lána hafi mikill gróði safnast á fárra manna hendur sem best sést á því að 2–3 tugir einstaklinga eiga eignir sem metnar eru á 600 millj. kr. og sumir þeirra skattlausir.

Í þeim sjónvarpsþætti sem ég nefndi og fjallaði um húsnæðismálin var dregin upp mynd af þróun lánskjaravísitölu og hvert stefndi ef sú þróun sem verið hefur á kaupgjalds- og lánskjaravísitölu héldi áfram næstu árin. Þar var tekið dæmi af manni sem keypti sér íbúð 1982 og hafði reiknað út að 25% af launum hans færu í að greiða afborganir og vexti af lánum. Ef sú forsenda er gefin að sama þróun varðandi launa- og lánskjaravísitölu haldi áfram næstu árin kemur í ljós að greiðslubyrðin, sem var 25% af launum 1982, verður orðin 50% á árinu 1986 og 74% af launum árið 1988. Og árið 1990 fer greiðslubyrðin í 100%, þ.e. öll launin hrökkva ekki fyrir afborgunum og vöxtum af lánum.

Það er auðvitað deginum ljósara að við blasir greiðsluþrot hjá íbúðarkaupendum og húsbyggjendum meðan við búum við það ástand að vísitalan sem mælir launafólki launahækkanir er rifin úr sambandi en lánskjaravísitalan fær að vaða óheft áfram, enda hefur komið fram að á árinu 1983 voru 20 þúsund beiðnir um nauðungaruppboð frá veðdeild Landsbankans vegna vangoldinna lána húsbyggjenda og íbúðarkaupenda. Ég tel að ákvæði þess frv. sem hér er til umr. geti skipt sköpum að því er greiðslubyrði lántakenda varðar. Er sú þróun og misgengi sem orðið hefur á kaupgjalds- og lánskjaraviðmiðun eftir að verðbætur á laun voru afnumdar 1. maí 1983 þar órækast vitni.

Ef við tökum dæmi frá 1. mars 1983, en þá var síðasti útreikningur verðbóta á laun, og athugum hver þróunin hefur orðið til 1. jan. 1985 þá kemur í ljós að greiðslubyrði vegna afborgana af láni hefur þyngst um 28% á þessu tímabili. Og að auki má nefna að vextir hafa hækkað verulega og hefur það enn aukið á þessa óhagstæðu þróun.

Ef reynt er að gera sér grein fyrir þróuninni frá upphafi til loka árs 1985, miðað við spá um þróun lánskjaravísitölu og þróun kauptaxtavísitölu sem fylgir með grg. frv., þá kemur í ljós að lánskjörin hækka frá upphafi til loka árs um 25% en kauptaxtar hækka frá upphafi til loka árs um 7.4%. Þetta þýðir að greiðslubyrði miðað við launin mun þyngjast á þessu ári um 17%.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um það að kaupgreiðsluvísitala sú, sem miða skal við skv. ákvæðum 1. mgr., skuli leidd af taxta verkamanna í fiskvinnslu, elsta starfsaldursþrepi, og taki sömu breytingum og viðmiðunartaxti atvinnuleysisbóta, og að sá viðmiðunargrunnur skuli endurskoðast reglulega. Ástæðan fyrir því að þessi kaupgreiðsluvísitala er notuð er í fyrsta lagi sú að þessi viðmiðun er notuð við útreikning atvinnuleysistryggingabóta og við ákvörðun fæðingarorlofs og verður því að ætla að þessi viðmiðunargrundvöllur hafi verið talinn nokkuð eðlilegur sem viðmiðun meðaltaxtakaups í landinu. Eini munurinn er sá að atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur fylgja hækkun 8. launaflokks Verkamannasambands Íslands en kaupgreiðsluvísitala frv. fylgir launum starfsheitisins Verkamenn í fiskvinnu.

Í öðru lagi felur þessi viðmiðun í sér starfsaldurshækkanir og launaflokkatilfærslur þar sem hún er bundin við starfsheiti en ekki launaflokk. Þetta er mjög mikilvægt því að alltaf er nokkur launahækkun bundin við starfsaldurshækkanir og launaflokkatilfærslur sem grunnkaupshækkanir mæla ekki.

Í þriðja lagi er ein launaviðmiðun miklu auðveldari í útreikningi en meðallaun þar sem tillit þarf að taka til fjölda í hverjum launaflokki og áætla vægi starfsaldurshækkana í launaflokki.

Á það skal einnig bent hér að sú leið sem lögð er til í þessu frv., þ.e. frestun á greiðslu þess hluta lánsins sem nemur mismun ákveðinnar kaupgreiðsluvísitölu og lánskjaravísitölu, er ekki óþekkt annars staðar á Norðurlöndum. Svipuð leið hefur verið farin t.d. í Danmörku og Noregi. Í Danmörku er um að ræða lengingu lánstímans sem svarar þeim mismun sem verður þegar launin eru skert í hlutfalli við lánakjörin. Í Noregi miðast húsnæðislánin við að greiðslan fari ekki fram úr 20% af dagvinnutekjum iðnverkamanna og mismunurinn, sem hugsanlega skapast milli þeirra greiðslna og lánskjara, greiðist á framlengdum lánstíma.

Um þetta mál, herra forseti, mætti vissulega hafa mörg fleiri orð til að sýna fram á hve brýnt er að Alþingi taki þegar í stað á þessum málum. Sú þróun sem orðið hefur á launum og lánskjaravísitölu allt frá því að verðtryggingin var tekin upp 1979 staðfestir ótvírætt að nauðsynlegt er að grípa til ákveðinna aðgerða til að létta þá þungu greiðslubyrði sem hvílir á mörgum húsbyggjendum og íbúðarkaupendum. Það mikilvægasta við ákvæði þessa frv. er að þeir sem tekið hafa á sig fjárhagslegar skuldbindingar geti treyst því að árleg greiðslubyrði lána á hverjum tíma verði ekki meiri en nemur hækkun almennra launa. Það veitir lántakendum það öryggi að geta gert fjárhagsáætlanir um skuldbindingar sínar fram í tímann sem hægt er að byggja á. Sú breyting sem frv. gerir ráð fyrir er því ekki síst mjög mikilvæg fyrir lántakendur þegar kjaraskerðingar skella fyrirvaralaust á og mikið misgengi skapast milli lánskjara og kaupgjalds.

Herra forseti. Við Alþfl.-menn leggjum mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Hér er um brýnt hagsmunamál húsbyggjenda og íbúðarkaupenda að ræða sem stjórnvöldum ber skylda til að greiða fyrir að nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.