04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þar sem þessu máli verður væntanlega vísað til hv. fjh.- og viðskn. Nd. geri ég ráð fyrir að fá tækifæri til þess á þeim vettvangi að fjalla frekar um það. Hér er á ferðinni gamall kunningi. Eins og fram kom í máli hv. frsm. hefur þetta mál áður verið flutt og var þá flutt á 105. löggjafarþingi og voru þá flm., auk hv. frsm., hv. þáv. þm. Magnús H. Magnússon og Karvel Pálmason, en hv. þm. Karvel Pálmason er nú meðflm. ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni.

Þetta frv., eins og hv. frsm. gat um, snýr að því að breyta ákveðinni grein í lögum nr. 13 frá 1979, en þau lög hafa gengið undir nafninu Ólafslög. Til að rifja það upp eru þessi ákvæði ein þeirra ákvæða sem Alþfl. lagði hvað mest upp úr að fá inn í þá löggjöf á sínum tíma til að tryggja rétt sparifjáreigenda. Haustið þetta sama ár gekk Alþfl. úr þáverandi ríkisstj. vegna þess að hann taldi að ekki hefðu náðst fram þau markmið í efnahagsmálum sem þá var stefnt að. Skal sú saga ekki rakin frekar hér, en síðar klofnaði Alþfl., m.a. að því talið er vegna ágreinings um það þingrof sem þá var þetta haust. Það er því ekki skrýtið þótt Alþfl. hafi sérstakan áhuga á því að breyta þessum lögum og þetta mun vera í annað skipti, eins og fram hefur komið, sem Alþfl. gerir tilraun til þess á hv. Alþingi.

Það ber samt að rifja það upp, eins og ég hef gert hér, að ástæðan fyrir þessum ákvæðum Ólafslaga var sú að þar var verið að tryggja rétt sparifjáreigenda, en þannig hagar til með banka og lánastarfsemi í þessu landi að ef ekki kemur fullt verð fyrir þá peninga sem út er lánað þurfa þeir peningar að koma einhvers staðar frá og þá venjulega frá þeim sem leggja fjármuni til hliðar til að standa undir slíkum lánum. Í mörgum tilvikum er þar um að ræða sparifjáreigendur, en auk þess getur ríkið gripið inn í þá þróun og greitt niður lán eins og þekkist sums staðar, t.d. í húsnæðislánakerfinu þar sem lífeyrissjóðirnir, sem eru stærstu lánardrottnar húsnæðiskerfisins, fá hærri vexti en nemur þeim vöxtum sem innheimtir eru í því kerfi. Á þetta vil ég leggja áherslu því að ekki má gleymast sú hlið sem snýr að þeim sem leggja þá peninga til hliðar sem síðan eru notaðir til útlána.

Sem betur fer má áætla að ekki verði jafnmikill munur á svokallaðri kaupgjaldsvísitölu, sem reyndar er ekki reiknuð nú, og á lánskjaravísitölu eins og verið hefur á undanförnum árum. Sá munur sem fram kom á þessum vísitölum var þegar orðinn mjög mikill þegar þetta frv. var fyrst flutt af hv. frsm. á 105. þinginu, eins og hv. frsm. gat um í sinni ræðu. sem betur fer er bjartara fram undan, jafnvel þótt ekki sé á þessu ári ráðgert að fullt jafnvægi náist, eins og kom fram í ræðu hv. frsm. Hins vegar eru allar áætlanir fram í tímann, jafnvel áratugi, þar sem byggt er á nokkrum síðustu árum, alveg út í bláinn þar sem öllum hlýtur að vera ljóst að ef sú þróun, sem hefur átt sér stað á nokkrum undanförnum árum, kemur til með að halda áfram, þá verða áreiðanlega fáir fúsir til búsetu í þessu landi.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. frsm., að á sínum tíma afgreiddi fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar þetta mál. Frsm. meiri hl. var hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, og hann lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstj. á þeim rökum sem hv. frsm. gat um. Þær ástæður voru fyrst og fremst þær að n. taldi að ekki ætti að fara löggjafarleið að þessu marki. Og þegar nál. er lesið kemst maður að því að auðvitað byggir það á þeirri hugsun sem ég hef þegar nefnt í mínu máli, en hún er sú að húsnæðislánakerfið verður að standa skil á þeim fjármunum sem það fær til að standa undir sínum útlánum.

Enn segir á nál. hv. 7. þm. Reykv. Guðmundar J. Guðmundssonar að það þurfi að semja við aðra aðila því að ekki sé haldbært að beita lögum um þessi atriði gagnvart sjóðum, stofnunum, t.d. bönkum og sparisjóðum. Undir þetta sjónarmið hv. 7. þm. Reykv. er hægt að taka í meginatriðum, enda hafa mál ekki breyst sem því nemur frá þeim tíma að hv. 7. þm. Reykv. flutti sitt mál hér á Alþingi, þegar hann var stjórnarþm. og studdi þá ríkisstj. sem sat á undan þeirri sem nú situr.

Eigi að síður held ég að það sé eðlilegt að þessi mál séu til umr. á hv. þingi og ég vil taka undir það með hv. frsm. að auðvitað hlýtur sú n. sem þetta mál fær til meðferðar að skoða það gaumgæfilega. Ég vil þá strax taka fram að hæstv. ríkisstj. hefur að undanförnu kannað leiðir til að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. frsm. lýsti í sínu máli. Það kemur ýmislegt til greina í því sambandi, en fyrst vil ég nefna að það hlýtur að koma til álita að afnema verðtryggingu af lánum eða fjárskuldbindingum til stutts tíma, t.a.m. til þriggja ára. Slíkt hlýtur að koma til álita, ekki síst þegar það er haft í huga að vísitölubindingar tíðkast ekki á öðrum sviðum og afnám vísitölubindingar á laun styðst af lagaákvæði. Þetta tek ég fram. Ég tel afar eðlilegt, svo að ég lýsi minni skoðun, að á meðan ekki er leyft að vísitölutryggja laun sé ekki heldur eðlilegt að vísitölutryggja fjárskuldbindingar til stutts tíma og nefni sem viðmiðun t.d. þrjú ár í því sambandi. En eins og ég sagði áður er þetta mál nú til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum.

Það gegnir hins vegar hugsanlega öðru máli þegar litið er til skuldbindinga til lengri tíma. Ég get vel hugsað mér, þegar rætt er um húsnæðiskerfið, að settar verði reglur varðandi það kerfi, en þar eru skuldbindingar til áratuga, til tveggja, þriggja áratuga, að sérreglur gildi þar um, enda sé litið á þann mun sem þarf að greiða, þ.e. á útlánum og innlánum í þennan sjóð, þannig að ríkisvaldið greiði niður með skattfé með einhverjum hætti þau lán sem húsnæðiskerfið þarf að taka, m.a. hjá lífeyrissjóðunum, enda býst ég við því að lífeyrissjóðirnir í landinu séu vart tilbúnir að slá af sínum kjörum eins og verður að gera ráð fyrir að þeir þurfi að gera ef þeir eiga að standa undir þessu sjálfir. Ég tel líka að óeðlilegt sé að löggjafarvaldið sé að setja lífeyrissjóðakerfinu í landinu reglur með lögum sem stangast á við almenna útlánastarfsemi í landinu. Ég tel að lífeyrissjóðirnir sjálfir eigi að ráða sem mest yfir sínu aflafé. Það er ákaflega nauðsynlegt að höfuðstóll lífeyrisfjárins fái að haldast sem best því að þetta kerfi á að standa undir lífeyri þeirra sem eru félagsmenn í slíkum sjóðum.

Þessi atriði nefni ég hér, herra forseti, vegna þess að ég tel það góðra gjalda vert að endurflytja frv. á borð við þetta. Ég skil vel að Alþfl. skuli leggja á þetta sérstaka áherslu. Það var hans verk að þessi lög voru sett á sínum tíma. Það hefur komið fram í máli manna hér og nú að á sínum tíma þótti ekki rétt að fikta í þessum málum með lögum. Nú hagar málum þannig að eðlilegt er að líta til þessa máls með þeim hætti að kanna hvort ekki megi koma til móts við þá sem harðast verða úti í þessum málum og þá sérstaklega þegar litið er til þeirra skuldbindinga sem gerðar eru til langs tíma. Eins og ég hef sagt áður er það mín skoðun að afnema eigi verðtryggingu á skuldbindingum til skamms tíma. Þetta held ég að sé, herra forseti, aðalatriði málsins.

Ég hef enn fremur lagt áherslu á að við megum ekki gleyma sparifjáreigendahliðinni í þessum málum. Við verðum að viðurkenna þá staðreynd að þannig hafa mál æxlast á undanförnum árum hjá íslensku þjóðinni að verulegur hluti lánsfjárins, sem er í umferð, á rætur að rekja til erlendra lána og því hefur verið haldið fram að u.þ.b. helmingur af lánsfé sem við notum hér á landi eigi rætur til erlendra lána. Þetta verðum við að hafa í huga þegar rætt er um vexti og verðtryggingu því að ef lántakandinn greiðir ekki til baka kostnaðinn við að fá þetta fjármagn að láni verður það ekki gert með öðrum hætti en að taka það í formi skatta eða annarrar gjaldtöku. Þetta mál hefur sem sagt tvær hliðar sem auðvitað verður að taka sérstaklega fram þegar um það er rætt. Og enginn flokkur hefur meira lagt áherslu á þetta en einmitt Alþfl. sem á sínum tíma barðist mjög fyrir hag sparifjáreigenda.

Hv. frsm. minntist á að fram hefðu komið upplýsingar um hinn feikilega verðbólgugróða sem sæist best á því hve miklar eignir hefðu safnast saman hjá nokkrum aðilum hér á landi. Ég held að ef við lítum yfir ákveðið tímabil og skoðum þær upplýsingar sem fyrir liggja komi hið gagnstæða í ljós. Það sem hlýtur að vekja athygli er hve auðnum hér á landi virðist verulega jafnt dreift ef miðað er við aðrar þjóðir, jafnvel þjóðir þar sem jafnaðarmannaflokkar hafa ráðið ríkjum áratugum saman, svo að é nefni dæmi t.d. í Svíþjóð. Það er alveg augljóst að Ísland sker sig úr ef borið er saman við nágrannalöndin í þessu sambandi. Í raun og veru sanna þær upplýsingar, sem Alþfl. hefur veifað hvað mest, ekkert annað en það að miklu meiri jöfnuður ríkir varðandi eignir hér á landi en í nokkru öðru landi vestan járntjalds af þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Ég held að þetta hafi breyst á undanförnum árum.

Breytingin á rætur að rekja til þeirrar stefnu sem tekin var upp á sínum tíma þegar útlán voru verðtryggð. Þar með var kippt fótunum undan því að þeir sem voru skuldakóngar þá gætu tekið lán og borgað niður með miklu minni krónum. Þetta hefur breyst. Nú kann að vera annað ástand og eins og hv. frsm. hefur bent á ber að kanna það. Ég fæ tækifæri til þess, herra forseti, í hv. fjh.- og viðskn. og þar verður þetta mál skoðað, en ég minni á að þetta mál er til meðferðar hjá stjórnarflokkunum um þessar mundir.