04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get hafið mál mitt svipað og hv. 2. þm. Reykv. Þetta mál mun ég ræða betur við 2. umr., þegar það kemur frá nefnd, þó að ég hafi ekki aðstöðu til að ræða það í nefnd.

Ég vil í upphafi minna á þau ummæli og skýringar sem komu fram þegar þessar tillögur komu fram á þskj. 2 á þinginu 1982–83. Þá kom það fram í fjh.- og viðskn. að efnislega var ég flm. alveg sammála. Hins vegar náðist um það samkomulag í nefndinni að málinu yrði vísað til ríkisstj. Ég tel mig hafa haft um það nokkuð góð orð frá fleiri en einum ráðh. og fleiri en einum flokki að tekið yrði mjög jákvætt á þessari tillögu. Ég held að mín afstaða til þessa máls hafi komið ákaflega skýrt fram. Það var samkomulag milli mín og þáverandi formanns fjh.- og viðskn. Nd. og núv. hæstv. sjútvrh. að ég hefði framsögu um þetta mál og tjáði þinginu mína afstöðu sem jafnframt væri afstaða n. þó að viss blæbrigðamunur væri á okkar skoðunum. Það fór nú svo að forseti, réttlátur og virðulegur og indæll í sínu starfi, tók þetta mál ekki fyrir til afgreiðslu. Ég verð nú að segja að það er líklega í eina skiptið sem mér mislíkaði verulega við þáv. forseta, núv. hæstv. iðnrh., sem var skörungur í forsetastól. En lítið tjóar að ræða liðin atvik.

Hvað er það sem skeð hefur síðan? Það sem var vandamál 1982 og 1983 voru erfiðleikar vegna mikillar verðbólgu og vísitölutryggingar á húsnæðismálalánum og bankalánum öllum sem voru orðnar drápsklyfjar á almennu launafólki. Nú er þetta orðið að algeru ófremdarástandi, þannig að ef ekki verður eitthvað að gert ríður yfir stórfelldur eignamissir, ekki einungis þeirra sem hafa staðið í byggingum, heldur líka þeirra sem hafa keypt yfir sig, en í mörgum tilfellum er það að hluta gert fyrir almenn bankalán, og þetta grípur til miklu fleiri atriða.

Það sem hefur breyst síðan 1982 og 1983 og gerir það að verkum að allt stefnir nú til verri vegar er að nú er búið að afnema vísitölu á laun. En eingöngu á laun. Við getum deilt um réttmæti gömlu vísitölunnar á laun eða ekki, en úr því að jafnróttæk aðgerð var gerð og að afnema hana varð að afnema lánskjaravísitölu líka. Það varð að gera ráðstafanir í sambandi við byggingarvísitölu. Landbúnaðurinn er meira og minna vísitölutryggður. Það er vísitala alls staðar nema á almennum launum. Sá sem ekki hefur vísitölutryggð laun verður þó að borga vísitölutryggða hluti. Það veldur ekki hvað síst því að það er jafnmikið ófremdarástand í þessum málum og við nú stöndum frammi fyrir. Ég minnist þess að í samningum í haust, þó að það væru ekki löggjafar sem ræddust við þar, lagði Verkamannasambandið áherslu á við Vinnuveitendasambandið hvort samningsaðilarnir ættu ekki að beita sér fyrir því að hafa sameiginleg áhrif á að vísitölur væru yfirleitt afnumdar. Ég minnist þess að hv. 1. þm. Suðurl. sagði í viðræðum sem við áttum við stjórnarflokkana að ríkisstj. mundi vera reiðubúin að íhuga afnám vísitölu á fjárfestingarlánum til skemmri tíma, svipað og kom fram hjá 2. þm. Reykv. áðan. Þetta voru að vísu almennar samningaviðræður. En þarna eru ákaflega mikil þyngsli og ákaflega mikil festa fyrir. Að vísu er málið vandasamt. Hitt sér hver maður, að fólk á lágum launum, sem ekki eru vísitölutryggð, getur ekki borgað vísitölutryggð lán eða hvers konar hluti sem það verður að kaupa, hvort sem um er að ræða byggingarvísitölu eða óbeina vísitölu á landbúnaðarafurðum o.s.frv. Þessi hefur breytingin orðið. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þeim háska að það verði hér stórfelld eignaupptaka, ekki einungis á nýjum íbúðum, sem fólk er að berjast við að greiða af, heldur á íbúðum sem það hefur keypt að undanförnu. Á þessu verður að verða breyting.

Hvað liður eignaskiptingu eða jafnræði í Svíþjóð og á Íslandi skal ég ekki fara út í hér, en gangi þessi mál óhindrað áfram sem horfir á eignaskipting eftir að breytast mjög í landinu. Ég styð þetta frv. og ég tel óhjákvæmilegt að á verði breyting og það nái fram að ganga.