22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

4. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem ég flyt um jarðhitaréttindi, en það er 4. mál þessa þings. Frv. er endurflutt óbreytt frá því sem það var lagt fyrir á síðasta þingi að öðru leyti en því að breytt er í 8. gr. dagsetningum varðandi heimildir til þess að byrja hagnýtingu jarðhita. Þar var áður dagsetningin 1. janúar 1983, að ég hygg, en hefur nú verið breytt í 1. janúar 1985.

Með frv. þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um umráðarétt og hagnýtingarrétt jarðhita. Gert er ráð fyrir að landeigendur hafi umráð jarðhita á yfirborði landsins og undir því að 100 metra dýpi, en umráð alls annars jarðhita, hvort sem er á landssvæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti eða eru undir yfirborði einkaeignarlands á meira en 100 metra dýpi, verði í höndum ríkisins, þ.e.almannaeign, sameign þjóðarinnar.

Frv. þetta tekur til alls jarðhita, hvort sem um er að ræða svonefnd lághita- eða háhitasvæði. Það tek ég fram sérstaklega vegna þess að stundum hafa verið flutt hér mál sem aðeins snerta háhitasvæði og eignarrétt á jarðhita á slíkum jarðhitasvæðum.

Í 6. gr. þessa frv. segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareignar samkv. 1. málsgr. 1. gr.

Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna samkv. 1. málsgr. 1. gr.“ 1. gr. frv. er þannig:

„Landareign hverri sem háð er einkaeignarrétti fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði í allt að 100 metra dýpi.

Landeiganda er rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina.“

Í þessum tilvitnuðu greinum, herra forseti, felst meginstefnumörkun frv., þ.e.að mörkin milli einkaeignarréttar á jarðhita og almannaeignar eru dregin við 100 metra undir yfirborði, en til þessa hefur í löggjöf verið byggt á þeirri meginstefnu að landeigendur hefðu umráða- og eignarrétt á jarðhita bæði á og í jörðu. Þótt þessum rétti hafi verið sett ýmis takmörk er enga reglu eða ábendingu að finna í löggjöf um það hversu djúpt í jörðu niður forræði landeigenda á jarðhita nær né heldur er í íslenskum rétti að finna reglu sem kveður á um takmörk eignarráða landeigenda niður á við. Fræðimenn hafa talið að þau nái svo langt niður sem nauðsynlegt er að leyfa til að landeigandinn geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á landi.

Ákvæði þessa frv. snerta stórfelld hagsmunamál og eflaust í margra huga álitamál varðandi eignarréttarviðhorf. Ég minni á það að um þessi efni, eignarrétt á auðlindum landsins og náttúrugæðum, hafa fjallað fyrr á árum merkir menn, löglærðir, sem ég vitnaði sérstaklega til þegar ég mælti fyrir þessu frv. á síðasta þingi, — menn eins og prófessor Ólafur Jóhannesson, fyrrv. hæstv. ráðh. og lærdómsmaður í lögum, og einnig dr. Bjarni Benediktsson sem ekki þarf að kynna sem fræðimann eða þingmann. Þessir aðilar studdu sjónarmið svipuð þeim er sett eru fram í þessu frv. og má lesa sér til bæði í tilvitnaðri ræðu minni á síðasta þingi 24. febr. hér í hv. Nd. svo og í tilvitnunum, sem þar er vísað til, í rit lögfræðinga.

Ég ætla, herra forseti, ekki að fjölyrða frekar um þetta mál nú. Ég hef getið um meginstefnumið frv. Ég tel það afar brýnt að mál þetta fái þinglega meðferð og ég tel að það sé mjög mikið undir því komið að löggjafinn marki stefnu um það geysilega þýðingarmikla mál sem varðar almannahagsmuni og möguleika okkar í reynd á að hagnýta þessa miklu auðlind, sem við væntum að sé, jarðhitann í landinu. Því hef ég flutt þetta frv. hér aftur í upphafi þings og vænti að það fái afgreiðslu á þessu þingi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.