05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Sjóefnavinnsluna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Um seinustu helgi gaf hæstv. iðnrh. yfirlýsingar um það á opinberum vettvangi að ríkið mundi ekki veita frekara fjármagni til sjóefnavinnslunnar á Reykjanesi. Hann sagði að sú tilraun, sem þarna hefði verið gerð, hefði kostað 400 millj. og það væri nóg.

Það kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir að frétta af þessari yfirlýsingu hæstv. iðnrh. með hliðsjón af því að fyrir tæpum þremur mánuðum óskuðu tíu þm. Alþingis eftir því að fá skýrslu um afkomu og framtíðaráform að því er þetta fyrirtæki varðar. Í þrjá mánuði hefur hæstv. iðnrh. ekki séð ástæðu til að skila þeirri skýrslu sem hér hefur verið samþykkt að hann skilaði til þingsins um afkomu þessa fyrirtækis. Á hinn bóginn standa þm. nú frammi fyrir því að ráðh. gefi einhliða yfirlýsingar um það hvað fyrirtækið kosti og að hann sé hættur við að styðja það. Mér finnst það algjörlega ótæk vinnubrögð að iðnrh. gangi þannig fram hjá þinginu þegar fyrir svo löngu síðan er fram komin krafa um það og samþykkt hér á þinginu að ráðh. skili skýrslu til þingsins.

Það er tekið fram sérstaklega í þessari beiðni um skýrslu að hún eigi að sýna stofnkostnað, rekstrarafkomu og framtíðaráætlanir. Það er tekið fram að hún eigi að sýna samanburð á upprunalegum áætlunum um stofnkostnað og raunverulegum stofnkostnaði og hvort fyrirhugað sé að leggja í frekari stofnkostnað, og hver rekstrarafkoman muni verða á næstu árum. Það er sem sagt óskað eftir því við hæstv. ráðh. að hann geri nákvæma grein fyrir stöðu fyrirtækisins svo að alþm. geti áttað sig á því hvort þeir telji að rétt hafi verið á málunum haldið og hvernig eigi að halda á þessum málum.

En það sem er stórlega ámælisvert að mínum dómi er að ráðh. skuli ekki hafa sinnt þessari beiðni um skýrslu í tæpa þrjá mánuði, beiðnin var lögð fram 6. nóvember s.l., en ganga svo allt í einu fram fyrir skjöldu og gefa einhliða yfirlýsingar um stöðu fyrirtækisins sem eru allt of takmarkaðar og gefa alls ekki nægilega glögga mynd af því hvað sé á ferðinni. Alþingi á kröfu á því að fá afdráttarlaus svör um þetta fyrirtæki. Ríkissjóður er einn aðaleigandinn. Það er hlutverk Alþingis og alþm. að fylgjast með því hvort þessum fjármunum hafi verið rétt varið og taka um það ákvarðanir hvaða stefnu skuli taka í þessum efnum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við þm. óskum eftir skýrslu um þetta fyrirtæki. Þegar áætlanir voru gerðar í upphafi voru uppi margvíslegar efasemdir um það hversu gott þetta fyrirtæki mundi reynast. Þegar málið var afgreitt hér í þinginu eftir að þm. höfðu komið sér saman um að skera niður stærð fyrirtækisins, og ég stóð m.a. fyrir því, þá hafði ég orð á því í ræðu að nauðsyn bæri til þess að menn áttuðu sig á því að hér væri um tilraun að ræða og menn skyldu ekki gera ráð fyrir arðsemi eða ágóða. Af þessum orsökum m.a. báðum við um skýrslu fyrir tveimur árum síðan. Hún barst frá hæstv. þáverandi iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni, ófullkomin mjög. En af sömu ástæðum og ég hef þegar rakið var þessi ósk aftur borin fram og samþykkt hér í þinginu.

En meginatriði málsins er þetta: Eru það viðhlítandi vinnubrögð, herra forseti, að iðnrh. hunsi afgreiðslu á skýrslu með þeim hætti sem hér hefur verið gert, en gangi svo skyndilega fram á völlinn sjálfur til að skýra frá þeim niðurstöðum sem honum hentar og á öðrum vettvangi, nefnilega ekki á Alþingi? Ég tel þetta óviðunandi, herra forseti, og ég spyr hvort það sé ekki skoðun forseta líka.