05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

193. mál, framkvæmd höfundalaga

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég á tvær fsp. á dagskrá þessa fundar sem eru nátengdar eins og þm. geta séð á þskj. Sú sem nú er til umr. á þskj. 213 er til dómsmrh. um framkvæmd höfundalaga, höfundarrétt o.fl.

Þegar höfundalögunum var breytt í maímánuði s.l. með lögum nr. 78/1984 var um að ræða þá meginreglu að öll brot á lögunum skyldu sæta opinberri ákæru. Gefur auga leið að búast má við að framkvæmd á ákvæði þessu krefjist aukins álags á menn Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknara þar sem ný tegund refsimála bætist nú við á verkefnalista þeirra. Því vaknar í fyrsta lagi sú spurning hvort auknu fjármagni hafi ekki verið varið til framangreindra embætta með tilkomu þessa nýja ákvæðis til þess að unnt verði að framfylgja því með eðlilegum hætti.

Komist menn upp með lögbrot án lögsóknar slævir það að sjálfsögðu réttarvitund almennings sem hefur í för með sér aukna brotastarfsemi á því sviði. Slíkt er vitaskuld ótækt og sé um refsivert athæfi að ræða ber ákæruvaldinu strax að grípa inn í með viðhlítandi aðgerðum. Þetta er því miður staðreynd á hinum íslenska myndbandamarkaði. Sumir rekstraraðilar myndbandaleiga hér hafa óáreittir komist upp með að brjóta gegn rétti höfunda og rétthafa. Lögbönn hafa verið lögð við ólöglegum útleigum, en þau jafnvel verið brotin þrátt fyrir aðstoð lögreglu. Af þessum sökum bundu menn miklar vonir við hin nýju lög nr. 78/1984. Þær vonir hafa ekki ræst enn og virðast fyrstu málin, sem skotið hefur verið til lögregluyfirvalda, hafa stöðvast hjá ákæruvaldinu vegna mjög strangra krafna um framlagningu gagna. Ekki er látið nægja að rétthafi sanni rétt sinn með samningi, sem almennir dómstólar viðurkenna þó sem lögfullt sönnunargagn, heldur er krafist gagna sem tæki að öllum jafnaði um tvo mánuði að fá og gerir áðurnefnd lög allsendis óvirk.

Þau brot sem einkum er til að dreifa á myndbandamarkaðnum eru ólögleg fjölföldun myndbanda sem er að sjálfsögðu brot á höfundalögum. Enn fremur hefur borið á því að umbúðir hafa verið falsaðar og falla slík brot undir almenn hegningarlög. Önnur brot, sem nefna má, eru söluskattsbrot, bókhaldsbrot og tollalagabrot, en mikið er um ólöglegan innflutning á myndböndum til landsins, einkum frá Bretlandi. Ég skal ekki einu sinni reyna að geta í hvað um stórar fjárhæðir fyrir ríkissjóð er að ræða í sambandi við þessi lagabrot. En þegar formaður þess félags sem hefur með mál rétthafa myndbandanna að gera heldur því fram að fimmta hver ný snælda sé ólögleg, þá geta menn nokkuð séð hvað hér er alvarlegt mál á ferðinni hafandi í huga þau miklu umsvif sem eru orðin í þessum hluta skemmtanaiðnaðarins á Íslandi.

Þetta kemur mér enn hlálegar fyrir sjónir þegar ég hef það í huga að ég hef margsinnis á liðnum árum og fleiri hv. þm. bent á þennan ófögnuð hér heima sem hefur verið látinn líðast þrátt fyrir endurteknar ábendingar. Þetta skildu yfirvöld ekki. Það var álitið að árið 1981 hafi svokölluð sjóræningjastarfsemi í Englandi numið 65% af heildarmarkaði myndbandanna. Árið 1983 var þetta hlutfall komið niður í 35% og seint á árinu 1984 niður í 20% vegna snarpra aðgerða bæði lögreglu og annarra dómsyfirvalda. Hér hefur hins vegar, þrátt fyrir viðleitni lögreglunnar, ekkert verið gert til að hefta eða stemma stigu við þessu, að því er virðist, af hendi ríkissaksóknara. Það verður því að gera þá kröfu, ef núverandi lög spanna ekki yfir það sem hér um ræðir, að hæstv. dómsmrh. og ríkisstj. í heild hafi forgöngu um úrbætur. Í fsp. frá mér, sem ég gat um að lægi hér fyrir og ég ætlaði að spyrja hæstv. menntmrh. um, sem ég kem að síðar, er getið um sjálfa framkvæmd höfundalaganna. En í fsp. sem nú er til umr. spyr ég:

„1. Hefur Rannsóknarlögreglan fengið sérstaka fjárveitingu til að fylgjast með framkvæmd höfundalaga og höfundarréttar, sbr. lög nr. 73/1972 og lög nr. 78/1984?

2. Hvað veldur því að ríkissaksóknari vísar frá kæru um meint brot á höfundalögum, svo sem ólöglegan innflutning myndbanda, fjölföldun og leigu þeirra?

3. Hefur ríkissaksóknari lagaheimild til að vísa frá slíkum málum órannsökuðum sem einnig varða önnur lög, svo sem hegningarlög (skjalafals), bókhaldslög og ýmis lög um greiðslu opinberra gjalda?“