05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2610 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

193. mál, framkvæmd höfundalaga

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans þótt ég sé hins vegar ekki ánægður með það sem fram kemur í því svari og allra síst frá hinum opinbera embættismanni, einfaldlega vegna þess að það hafa kærur verið lagðar fram áður en kom til þeirrar lagasetningar sem hér um getur og líka vegna þess, sem ég gat um í minni fsp. og minni fyrri ræðu, að það virðist vera svo að eins og lögin hljóða þurfi svo mikið til til þess að koma lögum yfir þá sem taka ólöglega ágóða af þessari starfsemi að næstum því er óviðunandi. Vil ég í því sambandi, með leyfi forseta, vitna til efnis í bréfi 2. okt. 1984 frá ríkissaksóknara sem sent er til rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Það er verið að endursenda kæru Samtaka rétthafa myndbanda á Íslandi á ákveðinn aðila. Þar segir svo:

„Rétt þykir að kærendum verði gefinn kostur á að sanna rétt sinn til kvikmynda þeirra sem kært er út af, með yfirlýsingu í frumriti eða staðfestu ljósriti frá framleiðanda þeirra ásamt íslenskri þýðingu hennar.“

Þetta er í mörgum tilfellum alls ekki framkvæmanlegt, einfaldlega vegna þess að kvikmyndaframleiðandi getur staðið svo langt frá þeim sem dreifir kvikmyndinni og hefur fullan og löglegan rétt til þess, sbr. samninga sem gerðir eru á milli viðskiptaaðila. Það eru nokkur stórfyrirtæki í heiminum sem dreifa langmestum hluta þeirra kvikmynda sem eru á markaði og myndbönd eru gerð eftir. Það eru litlir framleiðendur sem framleiða myndir víðs vegar um heiminn. Það hafa aldrei nokkurn tíma verið dregnir í efa, hvorki af skattayfirvöldum, tollayfirvöldum eða öðrum yfirvöldum á Íslandi, þeir samningar sem hafa verið gerðir við dreifingaraðila. allt í einu kemur ríkissaksóknari og segir: Þetta er ekki hægt vegna þess að leita þarf aftur í tímann og finna einhvern smáframleiðanda, sem gerði mynd niðri í Mexíkó, til að fá yfirlýsingu frá honum um að það megi sækja menn til saka fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, brot á höfundalögum og fleiri lögum, sem eru að sjálfsögðu brotin eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, söluskattslögum, tekjuskattslögum og yfirleitt öllum lögum sem koma nálægt viðskiptum á þessu landi. Eigendur myndbandaleiga fá að reka fyrirtæki sín án þess að þurfa nokkur leyfi til þess. Þeir þurfa ekki að skila bókhaldi. Hverri einustu krónu sem rennur í þeirra vasa er hægt að stinga undan. Til hvers er svo verið að glíma við að innheimta fé í ríkissjóð ef ekki er reynt að ná í þann ólöglega hagnað sem þarna er á ferðinni? Hver er að hlífa hverjum (Gripið fram í: Hvar er fjmrh.?) Fjmrh. hlustar grannt eftir. (Gripið fram í: Hann heyrir svarið.)

Mér þykir þau vera fá málin sem tínd eru til hjá saksóknara og bendi enn á að það hefur verið boðist til þess, og hingað hefur komið sérfræðingur frá Scotland Yard til þess, að leiðbeina íslenskri lögreglu um hvernig eigi að fara að því að koma í veg fyrir að ólögleg myndbönd séu á markaðnum. Það er enginn vandi með nútímatækni. En það er ekki nóg að gera það ef ekki er hægt að reka málin fyrir dómstólum og koma lögum yfir þá svikahrappa sem hér eiga í hlut.