05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

240. mál, sjúkrasamlög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um skipulag tryggingaumboða og sjúkrasamlaga í landinu. Sú umfjöllun hefur ýmist farið fram í stjórnskipuðum nefndum eða á Alþingi. Ein þessara nefnda var skipuð af heilbr.- og trmrh. árið 1978. Hún starfaði undir forsæti Jóns Ingimarssonar skrifstofustjóra. Þær breytingar sem sú nefnd lagði til voru á þá lund að landið yrði eitt og sama samlagssvæði og kostnaðarskipting milli ríkissjóðs og sveitarfélaga félli niður. Í stað kostnaðarþátttöku sveitarfélaga var lagt til að sjúkratryggingagjald hækkaði úr 1% í 2% af útsvarsstofni. Þetta var talið hafa eftirfarandi kosti í för með sér:

1. Öll starfsemi almanna- og atvinnuleysistrygginga færist í hendur umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar á hverjum stað.

2. Stjórnir sjúkrasamlaga yrðu lagðar niður.

3. Í Reykjavík flytti starfsemi Sjúkrasamlags Reykjavíkur til skrifstofu Tryggingastofnunarinnar. Með örlítilli mannatilfærslu gæti skrifstofa núverandi sjúkrasamlags í kaupstöðum tekið við hlutverki umboðsskrifstofu Tryggingastofnunarinnar. Hins vegar yrðu þær stór þáttur í hugmyndum manna um aðskilnað dómsvalds og umboðsstarfa.

4. Við sameiningu sjúkrasamlaga í eina sjúkratryggingu og tilkomu umboðsskrifstofa yrði létt verulega á yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar. Fjármálastjórn yrði miklu auðveldari viðureignar, upplýsingastreymi yrði öruggara og bærist miklu fyrr en nú er.

5. Með sameiningu sjúkrasamlaga félli svæðaskipting niður og menn hefðu sömu réttindi hvar sem er á landinu án tillits til búsetu. Gífurleg vinna liggur í könnun á samfélagsréttindum manna hjá samlögum. Menn þurfa flutningsvottorð frá einu samlagi til annars ef þeir flytja á milli staða.

6. Það léttir verulega á sjúkrahúsum, lyfjabúðum, læknum o.fl. að sameina sjúkrasamlögin. Í stað þess að eiga í viðskiptum við 39 sjúkrasamlög gætu þessir aðilar framvísað einum reikningi hjá Tryggingastofnuninni og yrði þar með tryggð greiðsla á réttum gjalddögum.

Ekkert lagafrumvarp var lagt fyrir Alþingi í kjölfar þessa nál. Í þess stað var af þáv. heilbr.- og trmrh. skipuð nefnd 8. okt. 1982 sem komst að mjög svipuðum niðurstöðum og þeim sem hér að framan greinir. Eins og fyrirspyrjandi skýrði frá skilaði sú nefnd áliti sínu seint á árinu 1983 en lagði ekki fram neitt fastmótað frv. Frv. þurfti að semja og ýmis tiltekin atriði þurfti að skoða nánar. Á s.l. sumri skipaði ég nýja nefnd undir formennsku Helga V. Jónssonar endurskoðanda sem er formaður samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins. Þeirri nefnd var ætlað, eins og segir í skipunarbréfinu, það hlutverk að yfirfara framkomnar tillögur, endurskoða innra skipulag og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins með sérstöku tilliti til hinnar öru tölvuvæðingar, sem nú á sér stað, og semja frv. til laga um þær tillögur sem hún féllist á eða legði til.

Ef núverandi skipulag mála reynist of dýrt í framkvæmd eða það samrýmist ekki þeirri tækniþróun, sem nú á sér stað, er ekkert óeðlilegt að þessi nefnd komist að þessari niðurstöðu. Ég lagði á það ríka áherslu að nefndin reyndi að skila sem allra fyrst af sér. En margt fór öðruvísi en ætlað var. Formaður nefndarinnar var bundinn mjög við önnur störf, eins og flestir þekkja, í sambandi við verkfallsmálin á s.l. hausti. Þessi störf hafa því dregist lengur en ég hafði vonast eftir. Ég hafði samband við hann 2. eða 3. janúar s.l. og lagði þá áherslu á að hraða störfum nefndarinnar. Og aftur fyrir rúmri viku ýtti ég enn við nefndinni og minnti á að það lægi á því að starf hennar lægi fyrir sem allra fyrst. Engin ákvörðun hefur verið tekin af hvorugri þessari nefnd sem ég hef getið um. Í stað þess að leggja fram frv. eftir að nefndin undir forustu Jóns Ingimarssonar skilaði sínu áliti var skipuð önnur nefnd sem skilaði því áliti sem hv. fyrirspyrjandi hefur greint frá með nokkrum orðum. En ég tel að til að binda endi á þessar athuganir verði auðvitað sú nefnd sem núna starfar að semja frv. til l. á grundvelli þeirra upplýsinga og tillagna sem fyrir liggja.