05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

240. mál, sjúkrasamlög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spurði hvort það væri ekki skondið af þessari nefnd að vera að leita álits deildarstjóra Tryggingastofnunarinnar. Ég skal taka undir þau orð. Ég sagði við formann nefndarinnar í símtali að mér sýndist þetta alveg ástæðulaust því að nefndin á undan, sem hv. fyrirspyrjandi var í, spurði þessara sömu spurninga. Ég las þessi bréfi öll og í raun og veru er útkoman úr þessum bréfum sú að þetta sé allt saman ágætt eins og það er og það þurfi ekki að breyta neinu. Ef ég hefði verið í nefndinni hefði ég alls ekki farið að spyrja um þetta atriði aftur, því að mér fannst alveg nógu léleg svörin sem fyrri nefndin fékk, ég skal alveg játa það.

Varðandi aftur það að ég sem heilbr.- og trmrh. fæli einhverjum mönnum í rn. að semja frv. í þessum efnum, þá vildi ég ekki gera það. Fyrst og fremst vildi ég fara í gegnum þessar tillögur og láta fólk fara í gegnum þær, sem ég treysti til þess, og hefði samvinnu einkum við báða stjórnarflokkana, því að ég vildi auðvitað hafa fulltrúa frá hinum stjórnarflokknum með í ráðum frá byrjun, en ekki að þurfa að rifja allt málið upp aftur eftir að starfsmenn mínir í rn. væru búnir að semja frv. Þetta er auðvitað sjálfsagt.

Formaðurinn er valinn vegna tengsla hans við Tryggingastofnunina og margvíslegrar vinnu þar á síðasta hálfu öðru ári. Yfirlæknirinn sem er í nefndinni er einn færasti læknir í sambandi við stjórnun sjúkrahúsa. Það var að vandlega yfirveguðu ráði og í samráði við fjölmarga aðila að hann varð fyrir valinu. Svo eru þarna menn sem voru í nefndinni á undan og líka í fyrstu nefndinni sem ég gat um. Þeir eru starfandi í rn. og eru þar til ráðuneytis.

Ég vona að ekki líði á löngu þar til nefndin skilar áliti. Það er viðkvæmt mál í mörgum byggðarlögum að leggja sjúkrasamlögin niður. En ég tel að þegar þetta álit liggur fyrir verði að taka þá ákvörðun sem við teljum skynsamlegasta í sambandi við fjármál. Og þá mun ég ekkert hika í þeim efnum ef það er ódýrara og ekki lélegri þjónusta og minnkar skriffinnskukerfið. Að því vil ég stuðla.