05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

194. mál, höfundalög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þessi fundartími er ætlaður fyrir fsp. Ég hef talið að menn breyttu í samræmi við vilja hæstv. forseta og hugsunina á bak við þingsköpin með því að svara þeim fsp. sem til þeirra er beint eins og hér hefur verið gert. Það gerði ég. Til mín var beint fsp. sem ég las og hún hljóðaði svona:

„Hvað líður framkvæmd á lögum nr. 78/1984, um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972, sem samþykkt voru í lok síðasta þings?“

Þessari fsp. svaraði ég. Þegar svo upp koma staðhæfingar um lögbrot af einhverju tagi er enginn ráðh. dómari né heldur ákæruvald. Staðhæfingu um lögbrot er sjálfsagt að bera fram í kæruformi við rétta aðila. Ég lít svo á að forseti veiti mér ekki orðið til að fjalla almennt um meint lögbrot eða ekki lögbrot í fyrirspurnatíma þegar fsp. er beint til mín um annað atriði. Ég sagði að þetta heyrði ekki til því verkefni sem ég hef núna með höndum, en gat samt um það. Það gerði ég einmitt til að undirstrika að ég tel þarna um alvarlegt mál að ræða. Og ég gat þess að þetta rúmaðist ekki innan fsp. í þeim tilgangi að forseti afsakaði það við mig að ég færi út fyrir það sem mér var ætlað að svara.

Ég vil einungis taka þetta fram: að þegar menn fjalla um eða sjá fyrir sér lögbrot, hv. þm. nefndi hérna kapalkerfi sem dæmi og að um það hafi verið rætt á Alþingi, þá er hægurinn hjá að viðkomandi þm. eða hver sem er kæri slík brot til saksóknara. Til þess eru lögin um þessa hluti og möguleiki manna til þess að gæta réttarins.