05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

194. mál, höfundalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. taldi að lítið hefði komið fram í mínu máli áðan í sambandi við fsp. hv. 12. þm. Reykv. Ég svaraði þeim atriðum sem hann spurði um, en ég lét þess einnig getið að ég teldi að nauðsynlegt væri að athugað væri á hvern hátt væri að verki staðið í sambandi við þessi mál og hvort þar væri um lögbrot að ræða. Lagði ég áherslu á að þarna þyrfti að standa rétt að málum.

Ég undirstrika að ég tel sjálfsagt og nauðsynlegt að lögregla og önnur yfirvöld, sem með eftirlit með lögum fara, séu alltaf vel á verði og séu vakandi. Vænti ég að þau reyni að gera það eftir því sem kostur er. En vegna þeirra umr. sem hér hafa farið fram mun ég kanna þetta nánar og leggja áherslu á að þarna sé betur fylgst með en hv. þm., sem hér hafa talað, hafa sagt. Ég get þá bent á hvar hægt muni vera að fá upplýsingar, miðað við þær fullyrðingar sem þeir hafa fram sett, og vænti þess að það gæti greitt fyrir því að þarna yrði betur á málum tekið.

Ég verð að segja að það kemur mér algjörlega á óvart að rekstur myndbandaleiga skuli ekki vera bókhaldsskyldur og hlíta öðrum reglum um atvinnurekstur og skil satt að segja ekki hvernig á slíku getur staðið. Vissulega mun ég ganga eftir því að fá skýringar á því og leggja áherslu á að úr því verði bætt.