05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

194. mál, höfundalög

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Sú aths. sem ég geri er við þá aths. sem hæstv. forseti gerði úr ræðustól áðan því að svo mátti skilja á bæði honum og hæstv. menntmrh. að ég hefði farið út fyrir það svið sem þessi fsp. mín fjallaði um.

Ég tók það fram, þegar ég bar fsp. mína til hæstv. menntmrh. upp, að ég harmaði að ráðh. hefði ekki verið viðstaddur í fundarbyrjun þegar fyrir var tekin 1. dagskrárliðurinn sem fjallaði um framkvæmd höfundalaga. Ég veit að hæstv. forseti minnist þess að bæði áður en þessi fundur hófst og einnig í desember tjáði ég honum að ég teldi eðlilegra að það mál sem er nr. 2 á dagskránni væri nr. 1 vegna þess að framkvæmdin væri eðlilegt framhald af þeirri fsp. sem lögð væri fram til hæstv. menntmrh. Það er svo að sjálfsögðu. Fsp. eru nátengdar og fjalla um sama málið. Ég hef ekkert farið út fyrir þann ramma sem ég hef mótað í sjálfum fsp. og getið um í mínum ræðum hér. Það hefur ekkert verið farið út fyrir hann.

Auðvitað væri hægt að halda langa ræðu um afleiðingar þess að slík skattsvik eru leyfð. Þau eru leyfð. Það er ekkert gert við þeim. Það mætti halda langar ræður um hvaða áhrif þetta hefur á þjóðlífið, á þá sem ekki geta stundað skattsvik á einn eða annan hátt. Hvað viðvíkur bókhaldsskyldu þessara fyrirtækja má vel vera að þau eigi að halda bókhald en það eru engar reglur um hvernig eigi að framfylgja slíkum lögum. Ég benti á eina leið sem eigendur þeirra nota, þannig að útilokað er að koma yfir þá gildandi lögum nema settar séu sérstakar reglur um þessa starfsemi vegna sérstaks eðlis hennar.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég þakka forseta fyrir mannúðina að lofa mér að gera stutta aths.