11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að svara nokkru af því sem hefur komið hér fram í dag. Efnislega hafa bæði hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., svarað því vel sem er kjarni þess máls sem er hér á dagskrá, þ.e. kjarasamningarnir, en margar af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar í dag hafa farið langt út fyrir það efni og sumar verið endurtekning á fjárlagaræðunni á s.l. hausti og því sem sagt var í sumar. Ég vil koma seinna að því sem fyrst kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, að fólk mótmæli svo undir tekur. Það skal ég svo sannarlega tala um seinna í minni ræðu. En ég vona þá að frú Sigríður Dúna, hv. 11. þm. Reykv. verði komin hér fljótlega eftir kvöldmatinn því mér skilst á forseta að ég eigi að skipta minni ræðu í tvennt. Ég vil þá fyrst svara þeim fullyrðingum hv. ræðumanns að fjmrh. hafi borið skylda til að greiða laun. Fjmrh. hefur ekki heimild til að greiða neitt úr ríkissjóði nema gegn framlagi á því sem greiðsla er fyrir. Hér er um framlag vinnuskyldu að ræða og í þessu tilfelli var það vitað fyrirfram að því miður yrði verkfall, vegna þess að BSRB hafði ekki áhuga á því að ræða hugsanlega lausn á verkfallinu milli þess sem talning fór fram úr atkvæðagreiðslu og þar til verkfall var þegar boðað. Formaður BSRB og stjórn höfðu gengið um landið og hvatt menn, bæði persónulega og á fundum og í útvarpi og öðrum fjölmiðlum, meðan fjölmiðlar voru starfandi, til þess að fella sáttatillögu ríkissáttasemjara og fjmrh. vissi manna best hvernig hann mundi greiða atkvæði, áður en hann gerði það lýðum ljóst, vegna þess að sáttatillagan var um 100% hærri en um hafði samist í febrúar milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Það var því nokkuð ljóst að verkfall mundi skella á og þar af leiðandi ljóst að ríkisstarfsmenn mundu ekki vinna frá boðuðum verkfallsdegi.

Þá var fullyrt af fleiri en einum að ég hafi hindrað lögregluna í starfi. Það er alveg rétt. Það má segja að ég hafi hindrað lögregluna í starfi. Og ég tel mig hafa verið að gera rétt. En ég hindraði hana ekki með fyrirskipun, það er mesti misskilningur. Þegar lögreglulið réðst inn í Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstfl., sem hýsir marga aðra starfsemi, þá spurði ég viðkomandi lögregluforingja hvort hann hefði skriflega heimild til þess að fara inn í húsið og gera húsleit. Hann sagðist ekki hafa heimild til þess. Og ég ætla að vona að enginn hér sé þess sinnis að lögreglulið geti hagað sér hér á landi eins og sums staðar erlendis, geti farið fyrirvaralaust inn í hvaða húsakynni sem eru, hvort það eru heimili eða fyrirtæki eða stofnanir, og gert þar leit, hvort sem það er að útvarpsstöðvum eða öðru. Slíkt hefur aldrei skeð á Íslandi. Lögregluforinginn skildi þetta og hann fór í burtu með sitt lið. Hann hefði aldrei átt að fara á staðinn. Lögreglan veit hvaða gögnum hún þarf að vera búin til þess að fara óboðin inn í eignir annarra. Hvort er þetta frelsi eða ofbeldi? Er það frelsi húseigandans til að vera án lögreglu innan sinna veggja? Eða er það frelsi lögreglunnar til að fara hvert sem er án heimilda? Hvort vill hv. 11. þm. Reykv. túlka þetta sem ofbeldi lögreglunnar eða ofbeldi einstaklingsins sem ráðist var á þarna? Það er gott að tala fögrum orðum og túlka atburðarásina sér í hag.

Ég veit ekki hvað hv. 11. þm. Reykv. hefur fyrir sér þegar hún segir að það sé hægt að semja um krónutöluhækkun. Og það er fullyrt að fjmrh. og samninganefnd ríkisins hafi verið styrfin og með stærilæti, hrokafull. Að þessu gefna tilefni, áður en ég svara þeim öðrum sem hér hafa tekið til máls, ætla ég að leyfa mér að lesa upp hér grg. um framvindu í kjaradeilu BSRB haustið 1984, þeirri deilu sem nú stendur yfir, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo:

„Hinn 23. júlí 1984 samþykkti stjórn og samninganefnd BSRB að segja upp frá 1. sept. launaliðum aðalkjarasamnings BSRB og fjármálaráðherra frá 29. febr. 1984, sbr. heimild í grein 12.2 í samningi aðila.

Kröfugerð BSRB var send fjmrh. með bréfi 24. júlí 1984 og er þannig:“ — Þetta er ekki rétt vegna þess að formaður og varaformaður bandalagsins báru mér þetta bréf sjálfir. Áður en ég held áfram vil ég upplýsa að um leið og ég tók við þessu bréfi spurði ég hvort ekki væri rétt að við ræddum lausn á þessari augsjáanlegu deilu en það var ekki talið rétt. Með þessu bréfi fékk ég líka afrit af bréfi sem þeir höfðu þegar sent sáttasemjara. Sem sagt, málið var þegar á leiðinni til sáttasemjara. Svo held ég áfram bréfinu:

„1. Föst mánaðarlaun hækki frá 1. sept. 1984 um 30%.

2. Laun hækki um 5% 1. jan. 1985.

3. Vaktaálag verði miðað við efsta þrep 15. launaflokks í stað 13. launaflokks, sem er þriggja launaflokka eða u.þ.b. 10% hækkun umfram aðrar hækkanir taxta.

4. Lögum um kjarasamninga BSRB verði breytt á þann veg að bandalagsfélögin fái samnings- og verkfallsrétt um öll atriði kjarasamninga.

BSRB vísaði samningsviðræðunum um kröfur bandalagsins þegar í upphafi til ríkissáttasemjara.

Fyrsti fundur um málið var haldinn hjá sáttasemjara 2. ágúst 1984. Á þeim fundi hafnaði samninganefnd ríkisins kröfu BSRB og skýrði samninganefnd bandalagsins frá því, að ekki væru þá taldar forsendur fyrir breytingum á aðalkjarasamningi. Ákveðið var að boða til næsta fundar í síðasta lagi 16. ágúst.

Á sáttafundi 16. ágúst ítrekuðu báðir aðilar fyrri afstöðu sína og í kjölfar þess ákvað samninganefnd BSRB að koma saman til fundar ásamt stjórn bandalagsins 3. sept. til að taka ákvörðun um verkfall.

Næsti sáttafundur aðila var haldinn 24. ágúst. Þá lagði fjmrh. fram yfirlýsingu um að hann væri reiðubúinn að leita samkomulags við BSRB á eftirfarandi grundvelli:

1. Samningsaðilar kanni sameiginlega þróun verðlags og kaupmáttar á þessu ári.

2. Komi í ljós umtalsverð frávik frá forsendum þess samnings, sem aðilar gerðu á s.l. vetri er fjmrh. reiðubúinn að ræða hvort þær kauphækkanir, sem þar var gert ráð fyrir, þ.e. 3% 1. sept. og 3% 1. jan., geti komið til framkvæmda með öðrum hætti.

3. Aðilar geri fyrir 1. apríl n.k. sameiginlegar tillögur um leiðir til að auka hagkvæmni í opinberum rekstri til hagsbóta fyrir báða aðila og hugsanlega endurskoðun launakerfis ríkisstarfsmanna. Jafnframt leiti aðilar leiða til að gera kjarasamninga til lengri tíma en tíðkast hefur.

Svar BSRB var á þá leið að þeir teldu þetta ekki gagntilboð og ekkert nýtt væri í þessu efni. Sáttasemjari óskaði eftir að tíminn fram að næsta mánudegi yrði notaður til að fleyta málum áfram.“ Þarna er fyrsta boð ríkisins um viðræður.

„Á fundi aðila 3. sept. ítrekuðu báðir aðilar enn afstöðu sína og engin ný atriði komu fram.

Stjórn og samninganefnd BSRB ákveða að boða verkfall frá og með 19. sept.

Sáttasemjara bar lögum samkvæmt að leggja fram sáttatillögu og kynnti hann hana 13. sept. og ákvað um leið frestun á framkvæmd verkfalls BSRB til 4. okt. sáttatillagan gerði ráð fyrir eftirfarandi:

1. Laun hækki um 6% frá 1. sept. 1984 í stað 3%. 2. Laun hækki um 4% frá 1. jan. 1985 í stað 3%.

Stjórn og samninganefnd BSRB samþykktu þegar í stað að hafna sáttatillögunni og lögðu til við sína félagsmenn að þeir felldu hana í atkvgr. sem fram fór 24. og 25. sept. Talning fór fram 28. sept. og höfnuðu sáttatillögunni rúmlega 70% af þeim rúmlega 80% félagsmanna BSRB sem þátt tóku í atkvgr. um hana.“

Þann 1. okt. bauð fjmrh. eða samninganefnd ríkisins frestun vekfalls gegn greiðslu á mánaðarlaunum til jafnlangs tíma eða til mánaðamóta. Þessu hafnaði BSRB.

„Fundur var haldinn hjá sáttasemjara 2. okt. Á þeim fundi lýsti samninganefnd ríkisins yfir því, að hún væri reiðubúin til viðræðna um samningsatriðin, þ.e. launalið aðalkjarasamnings, og þá án þess að aðilar bindi sig í fyrri afstöðu, þ.e. kröfugerð, svör við henni og sáttatillögu. Í þessum umræðum yrði einnig fjallað um samning !il lengri tíma en fyrri samningur var. Ákveðin svör voru ekki gefin af hálfu BSRB en annar fundur ákveðinn.“

Þriðja tillaga frá ríkisnefndinni.

„Á fundinum 3. okt. lagði samninganefnd ríkisins fram eftirfarandi umræðupunkta:

1. Samið verði um aðalkjarasamninga a.m.k. til ársloka 1985.“

Ég vil að það komi nú greinilega fram, af því að það hefur ekki komið fram öðruvísi en í skopi, að þetta er boð um að opna aðalkjarasamning og sérkjarasamninga gegn samningum til ársloka 1985 og er ekki í gríni sett fram. Og báðir aðilar taka það alvarlega.

„2. Samningsaðilar endurskoði sameiginlega launakerfi starfsmanna ríkisins og verði þeirri endurskoðun lokið fyrir gerð sérkjarasamninga sem taka gildi 1. apríl 1985.

3. Samhliða endurskoðun á launakerfinu fari fram endurskoðun á meginreglum til viðmiðunar við röðun í launaflokka, þar sem m.a. verði tekið sérstakt tillit til krafna um menntun og ábyrgð í starfi.

4. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún er tilbúin til að kanna skattalækkanir sem lið í lausn launa- og kjaramála á næstunni. Óskað er svars samninganefndar BSRB við því, hvort hún sé til viðræðna um minni hækkun beinna launa en í sáttatillögunni fólst, en hins vegar komi til aukning ráðstöfunartekna og kjarabætur með skattalækkunum eða hliðstæðum hætti.

Á fundi 4. okt.“ — þetta er fjórða tillaga ríkisins ef ekki fimmta — „lagði viðræðunefnd BSRB fram eftirfarandi svar við hugmyndum og spurningum samninganefndar ríkisins frá deginum áður:

1. Ef um önnur atriði kjarasamninga semst er BSRB til viðræðu um breytingu á gildistíma aðalkjarasamnings.

2. Viðræðunefndin telur launaflokkatilfærslur koma til greina samhliða gerð aðalkjarasamnings. Sérkjarasamningar verði gerðir í framhaldi af aðalkjarasamningi lögum samkvæmt, sbr. 1. lið.

3. Launakerfi ríkisins verði endurskoðað og verði þeirri endurskoðun lokið fyrir 1. jan. 1985.

4. Jafnframt því sem kröfur BSRB eru ítrekaðar, þ. á m. krafan um samningsrétt, telur viðræðunefndin aðrar leiðir til lausnar deilunni koma til greina jafnhliða. Viðræðunefndin væntir tillagna frá fjmrh. í því efni.

Í þessu sambandi leggjum við áherslu á:

1. Lækkun vaxta og afnám vísitölubindingar á húsnæðislánum.

2. Aukna lánafyrirgreiðslu til húsnæðismála.

3. Lækkun útsvars og annarra skatta.

Á fundi aðila 5. okt. gerði samninganefnd ríkisins frekari grein fyrir þeim efnisatriðum sem hún hafði áður lagt fram og kom þá m.a. fram:

1. Gildistími aðalkjarasamnings, sem gerður væri í tengslum við ráðstafanir í skattamálum eða hliðstæðar aðgerðir, gæti ekki verið skemmri en til ársloka 1985. Slík lengd eða meiri væri einnig æskileg þó ekki verði um slíkar aðgerðir að ræða.

2. Núgildandi aðalkjarasamningur gildir til loka mars 1985 og eru sérkjarasamningar því einnig bundnir til þess tíma. Nýir sérkjarasamningar ættu því að gilda frá 1. apríl 1985. Hugsanlegt er að kanna hvort unnt sé að breyta þessu atriði með tilliti til lagaákvæða og til þess hvort slíkt er metið einhvers.

3. Endurskoðun á launakerfi ríkisins er væntanlega meira viðfangsefni en svo að því verði lokið fyrir áramót. Vafasamt er að unnt verði að gera á því meiri háttar breytingar fyrir eða í tengslum við sérkjarasamninga, einkum ef gildistöku þeirra verður flýtt. Rétt er að ræða þann möguleika að endurskoðuninni verði lokið fyrir árslok 1985 og liggi því fyrir þegar næstu samningar eftir þessum fara fram.

4. a) Í drögum að frv. til fjárlaga fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 600 millj. kr., fyrst og fremst með breytingu á skattleysismörkum. Á móti þessari lækkun er gert ráð fyrir hækkun á söluskatti og/eða útvíkkun á söluskattsstofni. Æskilegt væri að fá mat BSRB á þessu atriði, þ.e. hvort það yrði metið til einhvers í kjörum og hvort önnur útfærsla skattalækkunar eða tekjuöflunar kæmi fremur til álita.

b) Athugun fer nú fram á því hvaða áhrif lækkun útsvarsprósentu muni hafa á tekjur sveitarfélaganna og hvort þau geti tekið á sig slíka lækkun á næsta ári. Niðurstaða í þessu efni er þó algjörlega háð því að verðbólga verði innan þeirra marka sem stefnt er að og eins er ljóst að sum sveitarfélaganna eru mjög illa fær um að mæta tekjulækkun. Æskilegt er að fá kjaralegt mat BSRB á aðgerðum af þessum toga ef unnt yrði að koma þeim við. Í þessu sambandi má reikna með að lækkun útsvarsprósentu um 1% muni lækka tekjur sveitarfélaganna um ca. 300 millj. kr.

5. Óskað var nánari upplýsinga frá BSRB um hugmyndir þeirra varðandi lækkun vaxta og afnám vísitölubindingar á húsnæðislán, m.a. með tilliti til lífeyrissjóðanna, fjárvörslu þeirra og útlánamöguleika þeirra. Einnig hvernig sömu atriði snerta möguleika á aukinni lánafyrirgreiðslu til húsnæðismála.

Á fundi 6. okt. lagði samninganefnd ríkisins til að aðilar gerðu nánari grein fyrir því hvað felast ætti í endurskoðun á launakerfinu áður en tímasetningar þar að lútandi yrðu ákveðnar.

Varðandi skattamálin tók samninganefnd ríkisins fram að ákveðnar tillögur í þeim efnum lægju ekki fyrir. Vegna þess hve mál þetta snerti marga aðila væri ekki hægt að nota það sem samningsatriði við aðeins einn þeirra og áður en unnt yrði að móta ákveðnar tillögur yrði að fást fram kjaralegt mat á þeim kostum eða hugmyndum sem í umræðu hefðu verið. Til þess að undirbúa slíkt mat var lagt til að fulltrúar aðila færu sameiginlega yfir það talnaefni og önnur gögn sem unnt væri að fá nú frá sérfræðingum sem að þessum málum vinna.

Svar BSRB á þessum fundi var í fyrsta lagi að þeir hefðu í stað sameiginlegrar athugunar á skattamálunum ákveðið að fela hagfræðingi sínum að afla sér tiltækra upplýsinga um þær hugmyndir um breytingar í skattamálum sem á döfinni væru og í öðru lagi væri óskað eftir tillögum ríkisins varðandi launalið samninganna.

Á sáttafundi 7. okt.“ — og það er nú sá stóri sem hér var getið um áðan — „fóru ekki fram viðræður milli aðila“ — vegna þess að formaðurinn treysti sér ekki til að mæta, hann var í sjóferð.

„Á sáttafundi 8. okt. gerði samninganefnd ríkisins grein fyrir eftirfarandi atriðum og gerði tillögur um vinnubrögð í því efni sem hér greinir:

1. Samninganefndin gengur út frá því að gildistími aðalkjarasamnings verði lengdur. Að öðrum kosti er óraunhæft að ræða um skattamál eða aðrar breytingar, svo sem endurskoðun launakerfisins og sérkjarasamninga.

2. Að því er launalið samninganna varðar tók samninganefnd ríkisins fram að við umfjöllun á þeim lið yrðu menn að hafa í huga þær efnahagslegu forsendur sem fyrir væru í þjóðfélaginu og þær áætlanir um þróun efnahagsmála sem fyrir lægju og stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Þannig væri að því stefnt að halda verðhækkunum frá ársbyrjun til ársloka 1985 innan 10% markanna og jafnframt gert ráð fyrir að gengisbreyting milli áranna 1984 og 1985 yrði ekki meiri en 5%.

Það væri m.a. með hliðsjón af þessu sem í umræðu væri að leysa samningamálin með tvíþættum aðgerðum, annars vegar launabreytingum og hins vegar skattamálum. Sú sameiginlega lausn yrði að vera innan þess ramma sem framangreindar efnahagsforsendur setja.

Til þess að aðilar geti lagt mat á breytingar í þessu efni, m.a. hugsanlegar launabreytingar, er nauðsynlegt að þeir kanni sameiginlega þróun síðustu mánaða á ýmsum sviðum, sem þetta snerta, svo sem kauplag, verðlag, þjóðarframleiðslu, viðskiptakjör o. fl.

Lagðar voru fram töflur frá Þjóðhagsstofnun um þróun ýmissa þjóðhagsstærða síðustu mánuði og óskað eftir sameiginlegri skoðun á þeim og þeim gögnum sem aflað yrði til viðbótar af hálfu samninganefndar eða lagðar fram af BSRB.

3. Varðandi skattamálin voru lögð fram gögn frá Þjóðhagsstofnun sem sýndu útreikning á áhrifum mismunandi leiða varðandi lækkun tekjuskatts og útsvars. Einnig var greint frá því, að tilbúnir væru útreikningar frá fjmrn. um áhrif tiltekinna breytinga á skattamálum og gæti sérfræðingur þess yfirfarið þá útreikninga með hagfræðingi BSRB. Voru honum afhent gögn um það efni.

Ítrekaðar voru óskir samninganefndar ríkisins um það að aðilar könnuðu þessar hugmyndir sameiginlega og legðu á þær kjaralegt mat og á það bent, að því aðeins að slíkt mat færi fram og yrði jákvætt og þessar tillögur taldar verulegt innlegg varðandi kjaramál, yrði af tillögugerð ríkisins í þessu efni.

Sérstaklega var tekið fram af hálfu samninganefndar ríkisins að hér á þessu stigi væri ekki um að ræða tilboð heldur vinnudæmi, sem ekki væru til birtingar, enda enn ófyrirséð um ýmis efni í því sambandi, svo sem fjárhagsvanda ríkissjóðs sem af mundi stafa.

Af hálfu BSRB var því mótmælt að ráðherrar væru að gefa yfirlýsingar um gang samningaviðræðna þar sem fram kæmi að þeir teldu þær vel á veg komnar.

Eftir nokkurt hlé bar sáttasemjari samninganefnd ríkisins skilaboð frá viðræðunefnd BSRB sem voru efnislega á þessa leið:

1. Ítrekuð eru mótmæli við yfirlýsingum ráðh. um góðan gang viðræðna og því lýst yfir af hálfu viðræðunefndar BSRB að hún telji að viðræðunum miði ekki neitt áfram.

2. Viðræðunefnd BSRB krefst þess að þegar í stað verði lagt fram tilboð af hálfu fjmrh. um launalið samninganna.

3., 4. og 5. Því er lýst yfir að BSRB muni meta lækkun skatta, lækkun vaxta og afnám verðbindingar og úrbætur í húsnæðismálum.

Eftir að samninganefnd ríkisins hafði fengið þessi skilaboð var óskað eftir að haldinn yrði fundur með tveimur mönnum úr hvorri nefnd til að ræða áframhald viðræðna. Á þeim fundi lýsti samninganefnd ríkisins yfir þeirri skoðun sinni að synjun BSRB á því að ræða sameiginlega og meta hugmyndir og dæmi um breytingar í skattamálum svo og um forsendur varðandi þróun efnahagsmála kæmi í veg fyrir að raunverulegar viðræður gætu hafist um launaliðina. Viðræðunefndinni hlyti að vera ljóst að ekki væri hægt að búast við ákveðnum tillögum í skattamálum fyrr en ljóst væri hvort og hvernig launþegasamtökin mundu meta slíkt sem innlegg í kjarasamningana og enn fremur að tillögur um launaliðinn væru svo nátengdar slíku mati að það yrði að ganga fyrir gerð tillagna um launin sjálf.

Af hálfu formanns og varaformanns BSRB var ítrekað neitað að ræða þessi atriði með samninganefndinni og það stöðugt fullyrt að ekki væru fyrir hendi neinar tillögur eða neinn umræðugrundvöllur. Því var einnig neitað að fram færi sameiginleg athugun sérfræðinga BSRB og fjmrn. á skattamálunum, aðeins yrði um að ræða upplýsingaöflun af hálfu BSRB.

Fulltrúar samninganefndar ríkisins tóku það fram að þeir hefðu margítrekað óskað eftir viðræðum og sameiginlegri athugun á skattamálunum og forsendum varðandi launaliðinn en aldrei fengið jákvæða undirtekt af hálfu viðræðunefndar BSRB. Hið eina sem hún hefði gert væri að lýsa almennt yfir því að hún mundi, þegar og ef henni sýndist svo, meta þær úrbætur í skattamálum sem ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir. Í reynd hefði viðræðunefnd BSRB, allt frá upphafi, ekki lagt neitt til málanna í viðræðunum annað en upphaflegu kröfugerðina um yfir 30% hækkun launa. Allar götur síðan hefði hún setið í sama farinu og neitað þátttöku í öllum raunhæfum samningaviðræðum.

Í lok fundar kom sáttasemjari með þau skilaboð frá BSRB-viðræðunefndinni að hún óskaði ekki eftir að haldinn yrði fundur þriðjudaginn 9. okt. en legði hins vegar til að fundur yrði hjá sáttasemjara miðvikudaginn 10. okt., kl. 9 fyrir hádegi. Af hálfu samninganefndar ríkisins var á það fallist en því lýst yfir að hún væri reiðubúin til að koma til viðræðna daginn eftir, ef viðræðunefnd BSRB eða sáttasemjari óskaði þess, og eins mundi hún fara þess á leit að fundur yrði haldinn ef hún sæi til þess sérstakar ástæður.

Hinn 10. okt. hófst fundur kl. 9 og var 60 manna samninganefnd BSRB á fundarstað.

Á fundi með viðræðunefnd BSRB greindi samninganefnd ríkisins frá þeim viðræðum sem fram höfðu farið daginn áður milli fulltrúa VSÍ, fulltrúa nokkurra stórra launþegasamtaka og formanna stjórnarflokkanna að ósk þeirra fyrrnefndu. Á fundinum hefði verið ákveðið að efna til samstarfs stjórnvalda og nokkurra þeirra aðila sem í samningum standa um hugsanlegan þátt skattamála í lausn kjaramála. BSRB var fyrir hönd ríkisstj. boðin þátttaka í þessu samstarfi.

Svar BSRB var á þessa leið:

Ríkisstj. hefur flutt hér inn á fundinn tillögu um að BSRB taki þátt í sameiginlegum viðræðum um skattamál. Þeir aðilar sem um ræðir eru m.a. ASÍ, Verkamannasamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks og Vinnuveitendasamband Íslands.

Samninganefnd BSRB samþykkir að tilnefna fulltrúa til slíkra viðræðna.

Jafnframt er þess krafist að samningaviðræðum við BSRB um launamál verði hraðað svo lausn fáist á yfirstandandi kjaradeilu og verkfalli geti lokið sem fyrst.“

Munnlega krafðist talsmaður BSRB þess að þegar í stað kæmi fram tilboð um launalið samnings.

Eftir stutt fundarhlé bar sáttasemjari viðræðunefnd BSRB þau boð að samninganefnd ríkisins væri reiðubúin til að halda viðræðum áfram jafnhliða athugun skattamálanna, en að sjálfsögðu væri ekki hægt að leggja fram tilboð eða ræða launaliðinn nema í tengslum við væntanlegar aðgerðir í skattamálum.

Frá viðræðunefnd BSRB kom sáttasemjari með þá fyrirspurn hvort samninganefnd ríkisins mundi leggja fram tilboð um launaliðinn á samningafundi næsta dag.

Samninganefnd ríkisins sendi til baka það svar að slíks væri ekki að vænta, en hún væri tilbúin til viðræðna um samningana í heild sinni. Á stuttum fundi með viðræðunefnd BSRB ítrekaði samninganefndin þessa afstöðu sína.

Fundi var slitið og næsti fundur ákveðinn 11. okt.“ Því hef ég lesið þetta að ég vil að það komi hér á skrá í Alþingi að allt það tal um að sáttanefnd ríkisins hafi ekki verið reiðubúin til þess hvenær sem var, dag og nótt, að setjast niður með samninganefnd BSRB og ræða málin, það er ekki rétt. (SvG: Hvað hefur hún boðið?) Já, ég vil byrja að svara því.

Samninganefnd ríkisins hefur verið tilbúin dag og nótt til þess að setjast niður og ræða við samninganefnd BSRB, dag og nótt. Og samninganefnd ríkisins hefur þau fyrirmæli frá mér að sýna þolinmæði og sanngirni. Og það get ég sagt ykkur að það hefur hún gert.

Síðan kemur fundurinn í dag. Þá skeður það sem ég ætla nú að lesa upp sem svar til virðulegs þm. Eiðs Guðnasonar. Umræðuefnið á þeim fundi sem haldinn var í dag með samninganefnd BSRB var svohljóðandi, lagt fram af samninganefnd ríkisins:

„1. Gildistími aðalkjarasamnings verði til 31. des. 1985.

2. Nýir sérkjarasamningar gildi frá 1. apríl 1985. Unnið verði að gerð sérkjarasamninga frá undirritun aðalkjarasamnings og henni lokið innan 45 daga frá undirritun hans.

3. Unnið verði að endurskoðun á launakerfi ríkisins og henni lokið eigi síðar en 1. sept. 1985. Endurskoðun taki m.a. til eftirfarandi:

a. Einföldun og samræming starfsaldursreglna og gerð hreinni skil á því efni milli aðalkjarasamnings og sérkjarasamnings.

b. Endurmat á vægi ýmissa álaga, svo sem álaga fyrir yfirvinnu, vaktir, útkallsvinnu o. fl.

c. Samdar verði meginreglur til viðmiðunar um röðun í launaflokka þar sem m.a. verði tekið sérstakt tillit til krafna um menntun og til ábyrgðar í starfi. Þær reglur sem aðilar verða sammála um verði staðfestar í næsta aðalkjarasamningi eftir að endurskoðun lýkur og verði lagðar til grundvallar við gerð sérkjarasamninga þá.

4. Lækkun skatta og útsvara, ef af verður, sbr. sérstakar umræður um það efni, verði að undangengnu hlutlægu mati á áhrifum þeirra á ráðstöfunartekjur teknar til greina sem hluti þeirra kjarabóta sem um er að ræða í þeim tilgangi að halda beinum kauphækkunum innan viðráðanlegra marka.

5. Samið verði um breytingu á launalið, sbr. og fjórða lið, með því markmiði að unnt verði að halda verðlagi í skefjum á samningstímanum og að rekstrargrundvelli atvinnuveganna verði ekki stefnt í meira óefni en nú er.

6. Viðræðunefndir aðila eða sérstakar undirnefndir fari yfir þau gögn sem samninganefnd ríkisins hefur áður afhent um þróun ýmissa þátta efnahagsmála, sem snerta samningana, svo sem verðlag, kauplag o.fl. Einnig verði aflað þeirra viðbótargagna um þessi efni sem aðilar óska og tök eru á.“

Ég hef skýrt frá því nákvæmlega hvað hefur skeð á öllum samningafundunum fram til þessa dags. Í dag var þetta síðasta plagg lagt fram og ekkert — ekkert hefur komið fram frá samninganefnd BSRB annað en krafan um að rætt verði um launaliðina og samninganefnd BSRB hefur verið ósveigjanleg frá upphaflegu kröfu sinni um 30% plús 5% 1. jan. Við skulum því ekki gera lítið úr þeim mönnum sem eru að vinna fyrir hönd ríkisins á erfiðum stundum í erfiðum málum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lesið og skýrt, vonandi þannig að allir skilji, hvað gerst hefur í samningamálinu á samninganefndafundunum atilli samninganefndar ríkisins og BSRB. En ég er rétt að byrja á ræðu minni. Ég er rétt búinn að fá það skjalfest hér á Alþingi til þess að það sé öllum ljóst að samninganefnd ríkisins hefur verið mjög þolinmóð og þægileg í öllu viðmóti. Og hún hefur þau fyrirmæli líka að hvað sem á gengur, hvað sem á gengur má hún ekki undir neinum kringumstæðum slíta viðræðufundunum. Þeir geta staðið eins lengi og óskað er eftir af sáttasemjara eða mótaðilanum, en hún mun aldrei standa upp frá samningaborðinu. Hún mun sitja svo lengi sem óskað er eftir. Það vantar því ekki viljann hjá samninganefnd ríkisins til þess að ná samkomulagi. Það er allt annað og miklu meira sem ég á eftir að koma að seinna í minni ræðu. En, virðulegi forseti, mér skilst að fólk vilji hafa matarhlé kl. 7 og er ég reiðubúinn til að gera hlé á ræðu minni.